Helga Ingibjörg Helgadóttir
Hún fæddist í "Turnhúsinu",
Norðurstíg 7 í Reykjavík, í sama húsi og sennilega í sama herbergi og Ellen kona mín og mágkona hennar fæddist í 14 árum seinna. Ýmsum kann að þykja það undarleg tilviljun. Þetta nýfædda stúlkubarn hlaut fyrra nafn sitt frá ömmu okkar, Helgu, í Regin á Eyrarbakka, Magnúsdóttur frá Vatnsdal í Fljótshlíð, en hún aftur frá ömmu sinni, Helgu Jónsdóttur, umboðsmanns og lögsagnara, Johnsens á Stóra Ármóti, konu Árna Magnússonar frá Þorlákshöfn. Er þar komin blossandi Bergsætt. Seinna nafnið var hins vegar nafn Ingibjargar Ketilsdóttur, stjúpmóður afa okkar, Odds Oddssonar frá Sámsstöðum í Fljótshlíð, sem missti móður sína, Ragnhildi Benediktsdóttur frá Fljótsdal, rúmlega vikugamall. Ingibjörg var mikil gæðakona, og henni kynntist móðir okkar, þegar hún var barnið nokkur sumur hjá Sæmundi Oddssyni föðurbróður sínum, fyrst í Langagerði í Hvolhreppi og síðar í Eystri-Garðsauka. Ingibjörg var þá orðin ekkja og komin í hornið til sonar síns. Mikil vinátta tókst með henni og móður okkar, þó að aldursmunur væri mikill, og nú var nafn hennar gefið til heilla.
Fjölskyldan fluttist brátt á Vesturgötu 24, og þar fæddist Haukur bróðir okkar. Þar hélt móðir okkar líka brúðkaupsveislu Helga Ágústssonar og Önnu systur sinnar 9. mars 1916, og hafði meira að segja verið svaramaður hennar. En svo kom að haustinu 1918 með Kötlugosi og spönsku veikinni, sem sópaði fólki í gröfina, þar á meðal Helga Magnússyni, frá konu og þremur börnum. Ekkert lá fyrir annað en tvístra hópnum. Guðlaug, systir hans, og Sveinbjörn í Hlíð, tóku Odd að sér, eldri drenginn, en móðir okkar fór til ömmu og afa á Eyrarbakka skömmu fyrir jól með yngri systkinin. Milli jóla og nýárs kom Helgi Ágústsson á "lystikerru" ofan á Bakka og sótti Dystu (svo var hún alltaf nefnd af kunnugum). Á gamlársdag héldu þau upp að Syðra-Seli í Ytrihrepp, og upp frá því var hún heimilisföst hjá þeim Önnu, fyrst á Seli, en frá hausti 1931, á Selfossi, meðan þau lifðu, nema hvað hún gekk tvo vetur í Barnaskóla Eyrarbakka og einn vetur í Húsmæðraskólann á Blönduósi. Má segja, að Dysta hafi launað þeim hjónum vel fóstrið með frábærri umönnun og umhyggju, ekki síst þegar sjúkleiki, elli og hrumleiki tóku að sækja að þeim.
Móðir okkar fékk fljótlega vinnu við afgreiðslu á langlínum símstöðvarinnar í Reykjavík næstu 34 árin, en Haukur varð eftir á Eyrarbakka. En 7. ágúst 1922 giftist hún föður mínum, Páli Sigurgeirssyni, og þau fluttust ásamt Hauki bróður norður til Akureyrar. Þar urðu mikil þáttaskil, og langvegir hlutu að torvelda samfundi. Ég var orðinn 7 ára, þegar ég sá systur mína fyrst, þegar við mæðginin komum að Syðra-Seli. Ekki stóð þá betur á en svo, að Dysta lá rúmföst skaðbrennd á fæti eftir að hafa stigið ofan í hver í ógáti við þvotta eða brauðbakstur. Sennilega var því um að kenna, að hún var frá barnæsku verulega sjónskert. En mikið þótti mér til þess koma að eiga svo stóra systur, sem brosti svo fallega til mín og fagnaði mér svo innilega.
Og það var ekki í síðasta sinn, sem hún gerði það. Alltaf mætti ég sömu hlýjunni og gleðinni, þegar fundum okkar bar saman, innilegri, systurlegri væntumþykju, víðs fjarri öllum látalátum eða uppgerð. Slíkt átti hún ekki til, sú opinskáa, hreinhjartaða og góðviljaða sál. Oft átti ég eftir að koma að Sunnuhvoli, ýmist einn míns liðs eða með fjölskyldu minni, og þar var alltaf jafngott að koma. Og ekki breytti hún háttum sínum eða viðmóti, eftir að hún var orðin einbúi í eigin íbúð. Hún hafði vanist þeim heimilisháttum, að tekið væri vel og rausnarlega á móti gestum, bæði af alúð og myndarskap, en á heimili Önnu og Helga, sem hún nefndi jafnan "frænku" og "frænda", var alltaf mikil gestnauð. Þar var húsráðendum metnaðarmál, að öllum væri vel veitt, og sömu venjum hélt hún á eigin heimili. Á svipstundu stóð uppbúið veisluborð í stofu, þó að gestirnir hefðu ekki gert nein boð á undan sér, og þeir voru látnir finna, svo að ekki varð um villst, að þeir væru hjartanlega velkomnir.
Gott og fagurt var samband hennar við föður minn, sem henni þótti afar vænt um. Hann unni henni líka eins og hún væri hans eigin dóttir og lét sér annt um hana í einu og öllu, rétt eins og okkur bræðurna.
Ferðalög voru hennar líf og yndi, og alloft fengum við hjónin að reyna, hve skemmtilegur ferðafélagi hún var, gerði gott úr öllu, sem fyrir bar og sneri öllum óþægindum og erfiðleikum, sem fyrir kunnu að koma, upp í ævintýri og hlátursefni með góðvild sinni og gamansemi. Hún tók mikinn þátt í félagsstarfi aldraðra á Selfossi, eftir að hún tók að reskjast, og sérstaklega sat hún sig aldrei úr færi að ferðast með þeim innanlands og utan, ef heilsan leyfði, enda hafði hún af því mikla unun og eignaðist skemmtilegar og varanlegar endurminningar, sem ekki urðu frá henni teknar.
Dystu veittist jafnan auðvelt að eiga viðræður við fólk, kunnuga sem ókunnuga, var létt í tali, glaðleg og opinská, en umfram allt hlý og vinsamleg, en við þess háttar viðmót hjaðnaði léttilega öll feimni og hlédrægni viðmælenda. Hún var víða heima og myndaði sér sjálfstæðar skoðanir um dægurmál og stefnumál, reistar á skarpri hugsun og langri reynslu. Þá var hún ritfær í besta lagi, eins og gagnmerk ritgerð hennar í 1. bindi safnritsins "Ysjur og austræna" sýnir glögglega. Hún bjó yfir miklum fróðleik, svo sem um vinnubrögð og málvenjur þeim tengdar, og fáir stóðu henni á sporði í ættfræði, enda ættrækin, stálminnug og langminnug. Fróðleik sínum beitti hún þó af hógværð og kurteisi, svo að engum fannst hann ofurliði borinn. Allt þetta varð meðal annars til þess, að hún laðaði að sér fólk og fólki leið vel í návist hennar, enda var hún í senn vinsæl og vinmörg. En hún var jafnframt vinföst, sannur vinur vina sinna, og þótti sem aldrei væri ofgert við þá og vinátta þeirra aldrei fulllaunuð. Aldrei keypti hún sér þó vinsældir með fagurgala eða fleðulátum, enda hefði slíkt verið víðs fjarri eðli hennar, og undirhyggju átti hún ekki til. Hún kom jafnan til dyranna eins og hún var klædd.
Hún naut þess líka, þegar heilsunni tók að hnigna og þyngra varð fyrir fæti, að gott var að eiga góða vini, ættingja og nágranna með fúsar og framréttar hjálparhendur. Þessu góða fólki erum við, sem fjarri bjuggum, afar þakklát fyrir hugulsemi og vökulan vilja til að styðja hana til sjálfstæðrar tilveru, meðan stætt var. Við erum líka þakklát forsjóninni fyrir að leyfa henni að njóta lífsins í eigin umhverfi og með óskertum andlegum kröftum allt til loka og hverfa svo héðan sátt við guð og menn og með fullri reisn, þegar nóg var lifað.
Við Ellen kveðjum svo kæra systur og mágkonu með einlægum blessunaróskum ásamt þökk fyrir góða daga og fallegar minningar.
Sverrir Pálsson.