Ágætir barnabrandarar
Bókmenntir
Barnabók
BESTU BARNABRANDARARNIR MEIRA TIL
Bókaútgáfan Hólar 1997-80 bls.
AFTAN á "Bestu barnabrandararnir meira til" stendur að börn
á ýmsum aldri hafi samið og safnað saman bröndurum í bókina. Í formálanum inni í bókinni er hins vegar tekið fram að börnin hafi verið á aldrinum 10 til 14 ára og því er ef til vill ekki nema von að vinkona mín, Birna, 8 ára, hafi ekki skilið alveg alla brandarana. Engu að síður var niðurstaða Birnu sú eftir að hafa lesið bókina með gagnrýnum augum að safnið væri bara ágætt og tveir brandarar stæðu upp úr. Annar fer hér á eftir:
"Ég ætla sko að hætta í skólanum og það strax," sagði Jonni litli við mömmu sína eftir að hafa hlustað á fréttirnar á Stöð 2. "Hvers vegna ætlarðu að gera það," spurði mamma hans. "Sko, fréttamaðurinn var að segja það áðan, að einhver maður á Ítalíu hefði verið drepinn - af því að hann vissi of mikið." (bls 8.)
Fyrstu hughrifin einkennast hins vegar ekki alltaf af gleði:
"Mér skilst að Sigurlás hafi verið jarðaður í síðustu viku." "Já, við komumst ekki hjá því. Hann var dauður." (bls. 56)
Ég verð að segja að mér finnast svona klausur heldur ósmekklegar í barnabrandarabók. Hér er hins vegar um undantekningu að ræða. Þegar á heildina er litið get ég tekið undir með Birnu um að safnið sé bara alveg ágætt. Þess vegna er alls ekki úr vegi að láta bókina fylgja með í jólapakkanum til barna allt frá 8 ára aldri. Hinir eldri ættu einnig að hafa gaman að, enda, eins og segir í bókinni, spyr kímni ekki að aldri.
Anna G. Ólafsdóttir.