DAGANA 31. október og 1. nóvember sl. gerðist fágætur atburður í íslenzkri blaðamennsku. Þá birtust í blaðinu Degi tvær greinar um kjör aldraðra á Íslandi, og þær eru báðar með þeim hætti, að óhjákvæmilegt er að við hinir öldnu veitum þeim nána athygli, og þökkum síðan fyrir okkur eins og til er stofnað. Fyrri greinin heitir Aldraðir eru hreint engir öreigar.
Árásirnar á aldraða

Heiðar þáttur Helgadóttur í Degi er, að mati Valgeirs Sigurðssonar , ósvífin aðferð til að fá aldraða til að sætta sig við kjör sín.

DAGANA 31. október og 1. nóvember sl. gerðist fágætur atburður í íslenzkri blaðamennsku. Þá birtust í blaðinu Degi tvær greinar um kjör aldraðra á Íslandi, og þær eru báðar með þeim hætti, að óhjákvæmilegt er að við hinir öldnu veitum þeim nána athygli, og þökkum síðan fyrir okkur eins og til er stofnað. Fyrri greinin heitir Aldraðir eru hreint engir öreigar. (Með öðrum orðum: Þeir eiga alveg nógu gott, og engin ástæða til að bæta kjör þeirra.) Þessi grein er undirrituð Hei, sem þýðir Heiður Helgadóttir. Þarna kemst blaðakonan að þeirri niðurstöðu, að hlutur aldraðra í "góðærinu" sé aðeins örlítið minni en annarra landsmanna, að tekjur þeirra hafi hækkað um einungis einu prósenti minna en annarra. Ætli að maður hafi ekki heyrt þessa kenningu fyrr, á liðnum árum og áratugum: Þú átt að una glaður við þitt, af því að margir eru álíka fátækir og þú, og sumir enn fátækari. Þetta er algengasta og líklega elzta, en jafnframt ósvífnasta aðferð sem notuð er til þess að fá fólk til að sætta sig við kjör sín.

Þegar ég hafði lesið þessa grein, reiddist ég mjög og sagði við sjálfan mig: Jæja, aldrei fór það þó svo! Nú á dögum, þegar bókstaflega öll þjóðin er sammála um að aldraðir á Íslandi búi við skarðan hlut og að nauðsynlegt sé að bæta kjör þeirra, þá er þó til í landinu einn blaðamaður sem finnur hvöt hjá sér til þess að mæla kröftuglega gegn því að kjör hinna öldruðu verði lagfærð. Og í landinu fyrirfinnst eitt dagblað sem stendur á því stigi siðferðis, að það glennir slíkan "fagnaðarboðskap" yfir þvera forsíðuna. Nú, já, við hinir öldnu á Íslandi vitum þá að minnsta kosti hvar við höfum þetta fól!

Svona hugsaði ég föstudaginn 31. okt. 1997. En ég vissi ekki þá, að það var meira blóð í kúnni. Heldur betur.

Daginn eftir, laugardaginn 1. nóv., er Heiður Helgadóttir aftur komin á stúfana, og þar er nú ekki verið að skafa utan af hlutunum. Nú skrifar hún undir fullu nafni og birtir hlæjandi mynd af sér með, til þess að ekkert fari á milli mála. Hér gengur blaðakonan á fund nokkurra aldraðra einstaklinga og fræðist um kjör þeirra. Aðalfyrirsögn greinarinnar er: "Þetta svona sleppur." (Jæja, gott að það skuli þó sleppa!) En millifyrirsagnirnar í greininni koma rækilega upp um hugarfar höfundarins.

Fyrsta millifyrirsögn: Ekki þeir verst settu.

Önnur millifyrirsögn: Enginn barlómur.

Þriðja millifyrirsögn: Á "strípuðum" bótum og harðánægð samt.

Fjórða millifyrirsögn: Dugar ­ en svo sem enginn lúxus.

Ef dæma skal eftir myndunum sem fylgja greininni, þá eru flestir viðmælendur Heiðar að þessu sinni háaldraðir, og þeir eru að minnsta kosti alveg áreiðanlega allir af þeim hluta þjóðarinnar, sem aldrei hefur kunnað að kvarta, og hefur alltaf gert allar kröfur til sjálfs sín, en aldrei til annarra. Það er þetta fólk, sem nú er kallað til vitnis og látið segja, ýmist beint eða óbeint, að aldraðir á Íslandi búi við alveg nógu góð kjör, og að óþarfi sé að bæta þar um betur. Er mönnum ekki ljóst, hversu ósæmileg slík vinnubrögð eru? Þarf virkilega að benda fulltíða fólki á svona einfaldan hlut?

Skömmu eftir að þessar endemisgreinar birtust, skrifaði Benedikt Davíðsson góða grein í Dag, þar sem hann svarar fyrri grein Heiðar á sinn prúðmannlega hátt, eins og hans var von og vísa. Hann gerir þar ofurlítið grín að blaðinu, þakkar því fyrir að hafa fundið "breiðu bökin" o.s.frv. En það vakti undrun mína að hann nefnir ekki seinni greinina á nafn, og ég hef ekki séð að neinn annar hafi gert það, enn sem komið er. Það hefur þá a.m.k. farið framhjá mér, hafi svo verið. Sú grein er þó sýnu forvitnilegri en hin, fyrir margra hluta sakir. Þar segir m.a. gömul kona við kynsystur sína, blaðakonuna: "Það bjargar mér að ég fæ svolítil eftirlaun eftir manninn minn, annars væri ég dauð úr hungri." Þetta má lesa í kafla sem ber millifyrirsögnina: Enginn barlómur. (!) Gaman, gaman!

Og gömlum manni finnst það svolítið skrýtið að hann skuli hafa fengið tuttugu og fimm þúsund krónum minna frá Tryggingastofnun ríkisins fyrstu tíu mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra, en segist botna lítið í öllum reiknikúnstunum. Og lái honum það hver sem vill.

Greininni lýkur svo með þessum orðum hins aldna þegns: "Sjálfum hefur mér alla tíð þótt sjálfsagt að menn ættu a.m.k. þak yfir höfuðið." Þarna er millifyrirsögnin: Dugar ­ en svo sem enginn lúxus. (Takk!)

Allt sem þetta gamla fólk segir blaðamanninum sýnir og sannar, að það lifir undir fátæktarmörkum og getur ekki veitt sér eða sínum nokkurn skapaðan hlut umfram brýnustu nauðsynjar. En sá maður, sem liti yfir greinina heldur lauslega, eins og flestir lesa blöðin, því miður, myndi þó fá allt aðra hugmynd, því aðalfyrirsögn, millifyrirsagnir og allur andi greinarinnar bendir í þveröfuga átt. Það sem blaðakonan er að segja við gamla fólkið, viðmælendur sína, er í raun og veru þetta: Jú, það er alveg hárrétt, þið lepjið dauðann úr skel, en það gerir bara ekkert til, þetta er allt í fínasta lagi! Nóg á sá sér nægja lætur.

Ég hef af ásettu ráði sleppt að tala hér um ýmsa þætti, og þá ekki smáa, sem snerta kjör aldraðra í íslenzku nútímasamfélagi. Það bíður betri tíma.

Höfundur er rithöfundur.

Valgeir Sigurðsson