Eftir Brian Moses (texti) og Mike Gordon (myndir). Mál og menning 1997 - 32 bls. AÐ kunna sig, taka tillit til og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki, eru grundvallaratriði í öllum mannlegum samskiptum. Ekki er um meðfædda eiginleika að ræða. Börn læra almenna hegðun fyrst og fremst af sínum nánustu.
Skemmtilegur
lærdómurBókmenntir
Barnabók
"MÉR ER ALVEG SAMA" - LÍTIÐ EITT UM HÁTTVÍSI
Eftir Brian Moses (texti) og Mike Gordon (myndir). Mál og menning 1997 - 32 bls.
AÐ kunna sig, taka tillit til og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki, eru grundvallaratriði í öllum mannlegum samskiptum. Ekki er um meðfædda eiginleika að ræða. Börn læra almenna hegðun fyrst og fremst af sínum nánustu. Aldrei verður því of oft tekið fram hversu mikilvægt er að foreldrar séu góðar fyrirmyndir barna sinna. Foreldrum til stuðnings er svo gott að geta gripið til bóka eins og "Mér er alveg sama! - Lítið eitt um háttvísi" bæði til almennrar fræðslu og ef hegðunarvandamál koma upp. Hinir fullorðnu ættu að gefa sér góðan tíma til að lesa bókina með barninu og tengja hugmyndirnar veruleika þess. Eftir á getur barnið haft ánægju af því að rifja upp efnið með aðstoð myndanna, enda eru teikningarnar bæði grípandi og skemmtilegar.
Í upphafi varpa höfundarnir fram spurninginni "Hvað er háttvísi?" og svarið er ekki jafn einfalt og ef til vill virðist í fyrstu. Að því loknu er minnt á að fólki sé annt hverju um annað og tekið fyrir hvað geti falist í því að virða það sem aðrir gera, skoðanir, tilfinningar og friðhelgi annarra. Áfram er hægt að telja, enda tekið á ýmsum gagnlegum atriðum í samskiptum fólks.
Ég saknaði þess hins vegar að ekki skuli vera lögð sérstök áhersla á að virða bera fólk óháð séreinkennum á borð við mismunandi þjóðerni. Á móti kemur að í lista yfir gagnlegar bækur er sérstaklega tekið fram að í bókinni Skjóna eftir Nínu Tryggvadóttur sé fjallað um vandann að vera öðruvísi en aðrir og sættast við sjálfan sig. Listinn ásamt ábendingum til foreldra og kennara á sömu opnu er til stakrar fyrirmyndar.
Með skemmtilegu samspili texta og glettinna teiknimynda í teiknimyndaformi tekst tvímenningunum að koma gagnlegum lærdómi til skila á aðlaðandi og skemmtilegan hátt. Fullorðnir og börn, frá þriggja ára aldri, ættu því að hafa bæði gagn og gaman af því að skoða einstakar myndir eða lesa alla bókina. Frágangur bókarinnar er til fyrirmyndar, en undirrituð hefði kosið að sjá kaflayfirskriftir við upphaf umfjöllunar um hvert nýtt efni.
Anna G. Ólafsdóttir