BJARNI Ásgeirsson dósent heldur fyrirlestur föstudaginn 5. desember á vegum Líffræðistofnunar Háskólans sem nefnist "Aðlögun ensíms að kulda: Fosfatasi úr þorski". Örverur, plöntur og dýr þrífast við fjölbreyttar umhverfisaðstæður, þó allar lífverur séu háðar sömu efnaskiptaferlunum til vaxtar og viðhalds.
Fyrirlestur um aðlögun ensíms að kulda

BJARNI Ásgeirsson dósent heldur fyrirlestur föstudaginn 5. desember á vegum Líffræðistofnunar Háskólans sem nefnist "Aðlögun ensíms að kulda: Fosfatasi úr þorski".

Örverur, plöntur og dýr þrífast við fjölbreyttar umhverfisaðstæður, þó allar lífverur séu háðar sömu efnaskiptaferlunum til vaxtar og viðhalds. Margar lífverur geta ekki stýrt eigin líkamshita, og mega því þola lágan eða háan líkamshita í samræmi við umhverfishitann. Ensím eru nauðsynlegir hvatar, sem tryggja að efnaskipti gangi nægilega hratt fyrir sig. Auk þess gegna ensímin mikilvægu hlutverki við að framkvæma og samstilla ýmiss konar atferli (skynjun, viðbrögð, hreyfingu). Hraði efnahvarfa er háður hitastigi, og við lágt hitastig þarf því að eiga sér stað aðlögun í afköstum ensímhvötunar.

Kuldavirk ensím úr kaldsjávarlífverum hafa aukna hvötunarvirkni í samanburði við hliðstæð ensím blóðheitra dýra. Markmiðið með rannsóknum á þessum ensímum er að skýra hvernig eiginleikar kuldavirkra ensíma tengjast byggingu þeirra og breytingum í amínósýruröð. Ensímið alkalínskur fosfatatasi úr þorski hefur verið til athugunar og verður eiginleikum þess lýst í erindinu, segir í fréttatilkynningu.

Erindið verður haldið í húsakynnum Líffræðistofnunar, Grensásvegi 12, í stofu G-6 klukkan 12.20.