GÓÐIR hagfræðingar hafa sama áhuga á hagkvæmni og læknar á heilsu fólks. En í ótal blaðagreinum hagfræðinganna Markúsar Möllers, Þorvaldar Gylfasonar og skoðanabræðra þeirra er klifað á kröfunni um veiðigjald í stað þess að leggja þeim lið, sem sníða vilja síðustu gallana af kvótakerfinu. Þótt kerfið sé tiltölulega hagkvæmt, er það ekki gallalaust.
Gallar á kvótakerfinu
Þótt kvótakerfið sé tiltölulega hagkvæmt, telur Hannes H. Gissurarson það ekki gallalaust.
GÓÐIR hagfræðingar hafa sama
áhuga á hagkvæmni og læknar á heilsu fólks. En í ótal blaðagreinum hagfræðinganna Markúsar Möllers, Þorvaldar Gylfasonar og skoðanabræðra þeirra er klifað á kröfunni um veiðigjald í stað þess að leggja þeim lið, sem sníða vilja síðustu gallana af kvótakerfinu. Þótt kerfið sé tiltölulega hagkvæmt, er það ekki gallalaust. Einn gallinn á kvótakerfinu er, að kvótarnir eru bundnir við skip. Þetta er óþörf takmörkun og torveldar frjáls viðskipti með kvótana. Hver sem er á að geta keypt og selt kvóta. Annar galli er, að enn eru viðskipti með kvóta, sérstaklega tímabundinn kvóta, háð nokkrum takmörkunum. Þó að þessar takmarkanir hafi ekki komið verulega að sök, ber að afnema þær.
Þriðji gallinn á kvótakerfinu hefur verið, að það hefur ekki náð til krókabáta. Þetta stendur að vísu til bóta, en hefur torveldað hagræðingu í sjávarútvegi.
Fjórði gallinn á kvótakerfinu er, að ríkið ákveður leyfilegan heildarafla á hverju ári, hefur eftirlit með veiðunum og kostar margvíslegar rannsóknir í sjávarútvegi. Skynsamlegra væri að fela útgerðarmönnum sjálfum að gera allt þetta, enda er mest í húfi fyrir þá.
Þá má telja það galla, þótt hann tengist ekki kvótakerfinu beint, að sjómenn njóta ríflegs skattafsláttar. Ef talið er rétt að bæta þeim vistina á sjó sérstaklega, þá ættu útgerðarmenn að gera það (til dæmis með hlutabréfum í útgerðarfyrirtækjum), ekki skattgreiðendur.
Það er líka galli á kvótakerfinu, að kvótarnir eru ekki enn veðhæfir að lögum, þótt lánastofnanir fari í kringum það. Enn fremur er óeðlilegt að leyfa útgerðarmönnum að afskrifa keyptan kvóta á fimm árum, eins og dómstólar hafa úrskurðað. Aðalgallinn á kvótakerfinu er einmitt, að enn er eðli kvótanna óskýrt að lögum. Þótt þeim sé úthlutað ótímabundið, hafa útgerðarmenn ekki næga tryggingu fyrir því, að þeir geti ráðstafað þeim varanlega. Þess vegna horfa þeir ekki enn nógu langt fram í tímann. Í stað þess að aðstoða okkur stuðningsmenn kvótakerfisins í því að eyða þeirri óþörfu óvissu, sem hefur þess vegna myndast, reyna Markús, Þorvaldur og félagar eftir megni að auka þessa óvissu og auka þannig óhagkvæmni. Þeir eru eins og læknir, sem vill ólmur, að sjúklingi á góðum batavegi versni.
Við, sem kjósum, að þjóðin njóti fiskveiðiarðsins, en ekki stjórnmálamenn, höfum líka lagt til, að útgerðarfyrirtækin verði opin almenningshlutafélög með víðtækri eignaraðild. Þeir Markús, Þorvaldur og félagar hafa ekki sýnt slíkum hugmyndum neinn áhuga.
Á fjórða og fimmta áratug aldarinnar börðust nokkrir íslenskir hagfræðingar af hörku fyrir þjóðnýtingu og haftabúskap. Þeir höfðu þá mestar áhyggjur af því, að heildsalar kynnu að græða. Nú berjast nokkrir íslenskir hagfræðingar af svipaðri hörku fyrir veiðigjaldi. Þeir hafa mestar áhyggjur af því, að útgerðarmenn kunni að græða. Í sögu Íslands verða eftirmælin um þessa menn svipuð og um haftapostulana forðum.
Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.Hannes Hólmsteinn Gissurarson