ANDRÉS Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, segir greinina í Geographical bera þess mörg merki að hún hafi ekki verið rituð af fullri þekkingu á íslenskum aðstæðum, eins og svo oft hendi þegar gestir komi í stuttar heimsóknir til Íslands.
Andrés Arnalds fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins Greinin rituð af vanþekkingu

ANDRÉS Arnalds, fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins, segir greinina í Geographical bera þess mörg merki að hún hafi ekki verið rituð af fullri þekkingu á íslenskum aðstæðum, eins og svo oft hendi þegar gestir komi í stuttar heimsóknir til Íslands.

Hvað varðar umfjöllun blaðsins um ástand landsins og landverndarstarf segir Andrés að glögglega komi fram sú staðreynd að á Íslandi eigi sér stað mesta jarðvegseyðing í Evrópu. Hann vísar hins vegar þeirri staðhæfingu greinarhöfundar á bug að hér sé unnið lítið landverndunarstarf og að það sé á villigötum. Það staðfesti enn frekar að greinarhöfundur hafi fulllítið kynnt sér málin. Bendir hann á að ekkert sé frá því greint að á Íslandi hafi farið fram mjög öflugt landverndarstarf í undanfarin 90 ár. "Við höfum ekki orðið varir við að þeir hefðu samband við neinn í þessum geira heldur enduróma þarna ummæli sem þeir hafa heyrt einhversstaðar annars staðar frá," segir hann. "Þótt enn eigi sér stað gífurlegt jarðvegsrof má ekki gleyma því sem hefur áunnist. Meðal annars hefur tekist að bjarga mörgum byggðarlögum frá því að verða eyðingunni að bráð," segir Andrés.

Lúpína ekki stór þáttur í landgræðslustarfi

"Í greininni kemur fram að um fjórðungur landsins sé gróinn. Það táknar um leið að gróður hefur eyðst af um þriðjungi landsins, eða um þremur milljónum hektara lands, sem eru um það bil 30 þúsund ferkílómetrar. Við eigum risavaxið verkefni fyrir höndum við að bæta landkosti til samræmis við raunveruleg gróðurskilyrði í landinu. Það vinna margir að því marki. Bændastéttin er sennilega stærsti uppgræðsluaðili landsins við að bæta búskaparskilyrði viðkomandi jarða. Það hefur verið horft nokkuð til lúpínunnar sem landgræðslujurtar vegna sambýlis við gerlana, sem framleiða köfnunarefni. En því fer fjarri að lúpínuræktunin sé mjög stór þáttur í landgræðslustarfinu. Landgræðslan notar hana á nokkrum afmörkuðum svæðum. Reynslan er sú að lúpínan hverfur við flestar aðstæður úr gróðursamfélaginu á 15-40 árum eftir aðstæðum og skilur þá eftir sig gróðurland, sem þokast síðan yfir í "náttúrulegt" og bætir skilyrði fyrir annan gróður," segir hann.

"Sá sem ferðast um landið er fljótur að sjá að lúpínan er ekki að leggja landið undir sig. Það er hins vegar ofur eðlilegt að mönnum standi ekki á sama um lúpínuna sem innflutta tegund í Skaftafell við þær sérstöku aðstæður sem þar eru innan þjóðgarðsins," segir hann.

Andrés tekur undir ummæli Stefáns Benediktssonar í Skaftafelli, sem höfð eru eftir honum í greininni, að jarðvegseyðing sé náttúrulegur þáttur í vistkerfinu á því landsvæði, þar sem jökulhlaup séu jafn tíð og raun ber vitni. "Það á hins vegar við um æði lítinn hluta landsins. Þetta virðist hafa verið slitið úr samhengi í greininni á þann hátt að þetta eigi við um landið í heild sinni," segir Andrés.

Aðspurður er Andrés ekki þeirrar skoðunar að umfjöllunin í Geographical muni hafa slæm áhrif á ímynd landsins. "Við erum með einstakt land sem við verðum að vernda. Þó menn fari stundum yfir mörkin eins og þessi grein gerir er nauðsynlegt að halda verndunarsjónarmiðum á lofti," segir hann.

Ekki nægur skilningur á að varðveita hið sérstæða

Andrés kveðst einnig geta tekið undir þau sjónarmið að Íslendingar hafi ekki nægilega góðan skilning á að varðveita hið sérstæða í íslensku landslagi. "Það endurspeglast enn frekar í Skaftáreldahrauninu, þar sem sandurinn gengur yfir þetta einstæða hraun og spillir því sjónrænt. Þar hafa menn verið tregir til að veita okkur nægilega aðstoð til að grípa til varnar," segir hann.