Lítil landvernd
og á villigötum
Íslendingar sinna lítið um landvernd að því segir í grein um náttúru
Íslands, sem birt er í nóvemberhefti tímaritsins Geographical , riti Konunglega landfræðifélagsins í Bretlandi. Jarðvegs- og gróðureyðing eru sögð stærstu umhverfisvandamál Íslendinga en landgræðsla og skógrækt eru gagnrýnd í umfjöllun tímaritsins.
LANDGRÆÐSLA og skóg rækt á Íslandi sætir gagnrýni í grein um náttúru Íslands sem birt er í nóv emberhefti tímaritsins Geographical , riti Konunglega breska landfræðifélagsins. Greinin nær yfir átta blaðsíður í tímaritinu með fjölda litprentaðra mynda af íslenskri náttúru og landslagi. Blaðamaður tímaritsins, Lisa Sykes, sótti Ísland heim og fór m.a. í þjóðgarðinn í Skaftafelli, sem hún segir vera fyrsta þjóðgarð Íslendinga. Ræðir hún við heimamenn í Skaftafelli, fulltrúa Náttúruverndar ríkisins, umhverfisráðuneytis o.fl. Staðhæfir blaðakonan í grein sinni að takmarkað landverndarstarf eigi sér stað á Íslandi og það sé auk þess á villigötum.
Blaðakonan hrífst mjög af stórbrotnu og mikilfenglegu landslagi á Íslandi, sem hún líkir við yfirborð tunglsins og segir stöðugum breytingum undirorpið af náttúrunnar völdum. Bendir hún á að hálendi Íslands sé eitt af fáum óbyggðum svæðum sem finna megi í Evrópu í dag. Þessu einstæða umhverfi stafi nú ógn af auknum ágangi ferðamanna, efnistöku og áformum um orkuöflun og iðnþróun.
Jarðvegs- og gróðureyðing stærstu umhverfisvandamálin
Á Íslandi eru margflókin tengsl á milli náttúruverndar og ferðamennsku, sem skilar þjóðinni næstmestum tekjum á eftir fiskveiðum, og er sá iðnaður sem er í hröðustum vexti, að því er segir í greininni. Áhyggjur Íslendinga snúi ekki að vandamálum þéttbýlis og fólksfjölgunar, sem aðrar Evrópuþjóðir eigi við að glíma, heldur að því hvernig megi varðveita hinar ósnortnu víðlendur og sannfæra þjóðina um mikilvægi þess. Greint er frá því að rúmlega 200 þúsund ferðamenn hafi komið til Íslands í fyrra í þeim tilgangi að að skoða náttúru landsins. Er ágangur ferðamanna sagður stuðla að jarðvegs- og gróðureyðingu, sem séu tvö stærstu umhverfisvandamál Íslendinga.
Reiða sig á breska sjálfboðaliða
Í greininni er farið mörgum orðum um mikilfengleik hálendisins, lýst er jöklasýn, fjöllum og söndum. Rætt er við Stefán Benediktsson, þjóðgarðsvörð í Skaftafelli, (Stefan Benedictine, eins og hann er nafngreindur í tímaritinu). Greint er frá því að 5060 þúsund gestir sæki þjóðgarðinn í Skaftafelli heim yfir sumarmánuðina. Til að vinna gegn gróðurskemmdum af völdum ferðamanna hafi verið lagðir göngustígar með hjálp sjálfboðaliða frá Bretlandi, sem komi á hverju sumri til að lagfæra og endurgera stígana. Haft er eftir Stefáni að vart fáist nokkur Íslendingur til þessara sjálfboðastarfa. Hópur sjálfboðaliða starfi í þjóðgarðinum í tvær vikur á ári hverju og sú aðstoð sé fyrst og fremst táknræn. Einnig vitnar greinarhöfundur í viðmælanda hjá Náttúruverndarráði sem segir sjálfboðastörf við landvernd ekki talin fýsilegan kost á Íslandi, þar sem framfærslukostnaður sé mikill og unglingar noti sumarleyfin til að afla sér tekna.
Í greininni er því haldið fram að það litla landverndarstarf sem unnið sé á Íslandi sé í besta falli misráðið. Óvíða í álfunni megi finna meiri jarðvegseyðingu en á Íslandi, þar sem um helmingur gróins lands hafi horfið vegna eyðingar skóglendis og ofbeitar sauðfjár allt frá upphafi landnáms fyrir 1.100 árum. Aðeins fjórðungur landsins sé nú klæddur gróðri. Til að endurheimta gróðurlendi hafi Landgræðsla ríkisins staðið að uppgræðslu með sáningu innfluttrar plöntu, alaskalúpínunnar, sem sé harðger jurt er dafni vel í hrjóstrugu umhverfi. Vandinn sé hins vegar sá að lúpínan sé nú allsráðandi á sumum svæðum og standi í vegi fyrir uppvexti innlendra gróðurtegunda. Á sama tíma og bresku sjálfboðaliðarnir keppist við að uppræta og hefta útbreiðslu lúpínunnar í Skaftafelli, sem sáð var um 1950 sé verið að sá lúpínufræum á öðrum uppgræðslusvæðum.
Jarðvegseyðing náttúrulegur þáttur
Haft er eftir Stefáni Benediktssyni að umdeilanlegt sé hvort yfirleitt hafi verið rétt að sá lúpínu á Íslandi. Jarðvegseyðing sé náttúrulegur þáttur í vistkerfinu. "Við viljum varðveita einkenni landsins og því höfum við t.d. ekki reynt að endurheimta það eins og það var fyrir hlaupið í fyrra (Skeiðarárhlaupið).
Farið er orðum um íslenska skógrækt og telur greinarhöfundur söfnunarbauka á Keflavíkurflugvelli, þar sem ferðamönnum er gefinn kostur á að leggja sitt af mörkum til stuðnings skógrækt, dæmi um rangar áherslur í landvernd á Íslandi. Landið hafi eitt sinn allt verið skógi vaxið neðan 2300 metra, að undanskildu votlendi og bersvæði hálendisins. Í dag þeki trjágróður eingöngu 1% landsins.
Innflutt tré í stað íslensks birkis
Í viðtali við Huga Ólafsson, talsmann umhverfisráðuneytisins, gagnrýnir hann skógræktarstarf á Íslandi. Segir Hugi að mikið kapp sé lagt á ræktun innfluttra trjátegunda en of litla áherslu lagða á að vernda íslenska birkiskóginn, sem áður fyrr klæddi landið. "Þau eru í raun og veru að rækta jólatré vegna þess að þau telja að náttúruvernd snúist eingöngu um það. Skógræktarfélag Íslands, sem stendur fyrir tjáræktinni, er hluti af landbúnaðarráðuneytinu og markmiðið er framleiðsla á timbri árið 2089. Af hverju er verið að þessu? Svíþjóð og Finnland búa yfir gríðarmiklum skógum, svo það er ljóst að við verðum aldrei samkeppnisfær á því sviði," er haft eftir Huga.
Skógar eru tilfinningamál á Íslandi, segir í greininni vegna þess hve tré eru sjaldgæf á Íslandi. "Útlendingar koma til að skoða jöklana, Íslendingar koma til að skoða trén," er haft eftir Stefáni Benediktssyni. Í greinninni segir að Íslendingar vanræki kannski fyrst og fremst hina jarðfræðilegu arfleifð. Er í því sambandi tekið dæmi af sölu á hraunbreiðu í Hafnarfirði til námavinnslu. Vitnað er í Huga Ólafsson sem segir fólk engan skilning hafa á þörf þess að vernda ljótt hraungrýti, sem sé erfitt yfirferðar og henti illa til uppgræðslu. Hugi segir fáar eldborgir finnast á suðvesturhluta landsins þar sem ekki hafi verið unnin spjöll vegna efnistöku.
Greint er frá því að nokkur svæði á landinu hafi þó verið friðlýst og greint er frá áætlunum um verndun miðhálendisins en jafnframt segir að þar sé við ramman reip að draga vegna ágreinings um eignarhald á hálendinu.
Greinarhöfundur lýsir einnig eldsumbrotunum í Vatnajökli á síðasta ári og jökulhlaupinu á Skeiðarársandi og segir áætlað að kostnaður við að endurbyggja og lagfæra brýr og þjóðvegi á sandinum sé 15 milljarðar Bandaríkjadala (rúmlega 1.000 milljarðar ísl. kr.)
UMFJÖLLUN um landvernd og jarðvegs- og gróðureyðingu á Íslandi þekur fjórar opnur í nóvemberheftir tímaritsins Geograpical . Greininni fylgja fjölmargar litprentaðar myndir. Í einum myndatextanna segir að Íslendingar reiði sig á útlenda sjálfboðaliða til að sinna landvernd á Íslandi.
Telja náttúruvernd snúast um ræktun jólatrjáa