MÉR HEFUR borist í hendur rit um bálfarir og líkbrennslu og sem áhugamann um þau mál langar mig að vekja athygli á innihaldi þess. Að útgáfu þessa fróðlega og einkar smekklega rits standa Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma.
Bálför Bálfarir hafa farið hægt og sígandi í vöxt hér á landi, segir Ásbjörn Björnsson , en greina má vaxandi áhuga meðal fólks á að fræðast um þessi mál. MÉR HEFUR borist í hendur rit um bálfarir og líkbrennslu og sem áhugamann um þau mál langar mig að vekja athygli á innihaldi þess.

Að útgáfu þessa fróðlega og einkar smekklega rits standa Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma. Eins og fram kemur í stuttum formála forstjóra Kirkjugarðanna, Þórsteins Ragnarssonar, er ritið gefið út til að fræða almenning um bálfarir og líkbrennslu til að auðvelda fólki val á milli venjulegrar útfarar og bálfarar.

Eins og fram kemur í formála þessa ágæta rits hefir lítið verið ritað um bálfarir þegar frá er talinn bæklingur, sem hvatamenn Bálfararfélagsins gáfu út árið 1929, svo og grein sem birtist í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1935. Nokkur skrif voru þó af og til á þeim árum og um það leyti sem Bálstofan var byggð við Fossvogskirkju, en hún var gagngert reist sem útfararkirkja og vígð árið 1948.

Á síðari árum hefir ekki mikið birst á prenti um bálfarir, þegar frá eru taldar tvær greinar, sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið í apríl og október 1994.

Eins og jafnan vill verða þegar um nýjungar er að ræða urðu skiptar skoðanir um ágæti líkbrennslu og bálfara meðal almennings. Eðlilega voru margir sem tóku þessu með miklum fyrirvara og tortryggni, en fljótlega myndaðist allstór hópur manna, sem lýstu yfir áhuga sínum á þessum nýja sið og gerðust talsmenn hans.

Það má telja harla víst að sú vakning, sem í byrjun varð og myndaði þann kjarna, sem stóð að stofnun Bálfararfélags Íslands var ekki síst því að þakka, að margir velmetnir frammámenn í þjóðfélaginu voru meðal stofnenda. Þar skal fyrstan telja Svein Björnsson, síðar forseta, en hann hafði frumkvæði að setningu laga um líkbrennslu árið 1915. Þessi lög eru að mestu í gildi enn. Það var þó ekki fyrr en tæpum 20 árum síðar, eða 1934 að Bálfararfélag Íslands var stofnað. Í fyrstu stjórn þess voru kosnir: Gunnlaugur Claessen læknir, Benedikt Gröndal verkfræðingur, Ágúst Jósefsson heilbrigðisfulltrúi, Björn Ólafsson stórkaupmaður og Gunnar Einarsson prentsmiðjustjóri.

Engu að síður varð Bálstofumálið að hitamáli í blöðum þess tíma. Forvígismenn félagsins skrifuðu greinar til að útbreiða þekkingu um bálfarir, en fengu gjarnan á sig ádeilugreinar og skopteikningar í tímaritum og blöðum.

Á næsta ári verða liðin 50 ár frá því að fyrsta bálförin fór fram hér á landi, en það var 31. júlí 1948, sem jarðneskar leifar dr. Gunnlaugs Claessen voru brenndar í nýrri bálstofu Fossvogskirkju, en hann hafði verið einn helsti hvatamaður aukinnar líkbrennslu á Íslandi.

Í þessu fróðlega riti, sem hér er til umfjöllunar, er rakin saga bálfara fyrr og síðar hér og erlendis. Eins og þar kemur fram hafa bálfarir farið hægt og sígandi í vöxt hér á landi, en greina má vaxandi áhuga meðal fólks á að fræðast um þessi mál.

Þróun bálfara á síðari hluta þessarar aldar hefir orðið hröð víða um heim. Í Evrópu er hlutfallið hvað hæst í Tékklandi, en þar eru bálfarir 72% af tölu útfara. Bretland fylgir fast á eftir með tæplega 71% hlutfall. Í Bandaríkjunum er hlutfallið rúmlega 20%, en í Japan eru bálfarir tíðastar, þar er hlutfallið tæplega 99%. Á Norðurlöndunum hefir þróunin verið mjög hröð. Í Danmörku er hlutfallið hæst, en þar eru bálfarir 69% af öllum útförum og næst kemur Svíþjóð með 65%. Norðmenn eru tæplega hálfdrættingar með 30% og Finnar 20%. Við Íslendingar rekum lestina með tæp 12%. Þessar tölur eru miðaðar við árið 1996. Allt útlit er fyrir að hlutfallið verði nokkru hærra hér á landi þetta árið.

Það er eftirtektarvert hvað hlutur landsbyggðarinnar er minni en Reykjavíkur í bálförum á liðnum árum. Augljósar ástæður liggja til þess, þar sem eina bálstofa landsins er í Reykjavík, og umstang og aukakostnaður fylgdi því að senda kistu utan af landi til brennslu. Þessi þröskuldur er tæpast lengur til staðar, enda hafa samgöngumál þróast á þann veg að búseta utan höfuðborgarsvæðisins tálmar ekki lengur að bálför sé valin. Á það er bent að skrifstofa Reykjavíkurprófastsdæma veitir allar upplýsinga í þessu sambandi og leiðbeinir um hentugasta flutningsmáta, hverju sinni. Stefnt er að því að enginn eða sem allra minnstur viðbótarkostnaður fylgi því að velja bálför, hvar á landinu sem viðkomandi einstaklingur hefir verið búsettur.

Þegar kröfur um bálfarir voru settar fram í lok nítjándu aldar, voru heilbrigðis- og hreinlætissjónarmið í fyrirrúmi. Þessi sjónarmið eru enn í fullu gildi, en nú eru það fyrst og fremst hagkvæmnissjónarmið, svo og viðhorf er tengjast umhverfis- og mengunarmálum, sem höfð eru að leiðarljósi.

Þar vegur þungt að sífellt þrengist um þau svæði í þéttbýli, sem hagkvæm geta talist fyrir kirkjugarða. Duftker þurfa margfalt minna rými, bæði er varðar jarðvegsdýpt og flatarmál. Sveitarstjórnir ættu því að gefa þessu máli góðan gaum í tíma og styðja við bakið á kirkjugarðsyfirvöldum í viðleitni þeirra á aukinni líkbrennslu.

Ég leyfi mér að þakka forstjóra og stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma fyrir það góða framtak að gefa út þetta rit, sem hér hefir verið stuttlega fjallað um. Vonandi nota sem flestir tækifærið og kynna sér innihaldið og íhuga þessi mál á meðan tími gefst til. Á morgun kann það að vera of seint.

Ég hvet þá sem gert hafa upp hug sinn að staðfesta það með undirskrift sinni á þar til gerðu eyðublaði, sem fáanlegt er hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma og útfararstofnunum, að það sé vilji viðkomandi einstaklings að láta eyða líkama sínum með brennslu, þegar jarðvist lýkur. Þar með verður best komið í veg fyrir hugsanlegan ágreining eftirlifandi aðstandenda, hver vilji hins látna var. Því miður hafa komið upp mál, þar sem vafi lék á að raunverulegur vilji hins látna hafi verið látinn ráða, vegna ósamkomulags og mismunandi skoðana eftirlifandi ættingja. Fyrirhyggja í þessu sem öðru skaðar ekki.

Að lokum þetta. Allt sem snertir dauðann er vandmeðfarið og umfjöllun vandasöm. Því ber að fagna þegar vel tekst til, svo sem mér virðist að hér hafi gerst við undirbúning og gerð þessa rits, sem ég hefi hér aðeins vakið athygli á.

Ábyrgðarmaður ritsins er Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, sem fyrr var getið, en honum hafa verið til aðstoðar Einar Karl Haraldsson og Sigurjón Jónasson, sem hafa hannað innra og ytra útlit af smekkvísi.

Ritið, sem ber heitið BÁLFÖR mun liggja frammi í öllum kirkjum Reykjavíkurprófastsdæma og útfararstofum. Prófastar úti á landi munu væntanlega annast dreifingu, hver í sínu prófastsdæmi.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Ásbjörn Björnsson