Skarður máni
BÆKUR
Skáldsaga
NÓTT Á MÁNASLÓÐ
eftir Birgittu H. Halldórsdóttur.
Bókaútgáfan Skjaldborg, Reykjavík 1997. 247 bls.
NÓTT á mánaslóð er fimmtánda skáldsaga Birgittu H. Halldórsdóttur. Frá 1983 hefur hún gefið út bók á ári, án undantekningar. Af titlum eldri bóka að dæma er innihald þessarar nýjustu skáldsögu í svipuðum dúr spennu- og afþreyingarbókmennta, þeirrar góðu og gildu bókmenntategundar, þegar vel tekst til.
Sagan gerist á 17. öld á Íslandi og að hluta í Noregi. Söguhetja er Ingigerður Alma, "mánadís" og norn, "komin af nornum í beinan kvenlegg" (7). Hún segir söguna og sjónarhornið er hennar. Hún hefur hlutverk í lífinu en það er að hitta son sólar ("hið tígulega karldýr með ljósa makkann og bláu augun"), eiga með með honum son og dóttur sem bæði "verða miklir meistarar á jörðinni [...] og munu sinna mikilvægum verkefnum" (44). En í þessu afsprengi sameinast karl- og kvenlegir þættir, til heilla fyrir mannkyn allt á nýrri öld.
Áður en að Ingigerður getur uppfyllt hlutverk sitt (hún velur það reyndar sjálf í eins konar endurholdgunarflippi sem varð "alheimsbrandari" í "Hvíta bræðralaginu" og fékk himnaskara til að hlæja en "algóður föður hristi höfuð") verður hún að vera fullnuma í mánafræði. Þá fræði lærir hún á Íslandi hjá norninni henni móður sinni og ömmu og fleiri nornum í Noregi. Þangað ferðast þær mæðgur án líkama (í skikkjum úr silfurblárri mánaorku) með því að óma til mánans á fullu tungli. Utan um þennan megin (örlaga)þráð, sem einkennist af fantasíu og nýaldarflæði, er svo spunnin morðsaga í þjóðsagnastíl. Það dregur til alls konar (dæmigerðra) tíðinda í fátæku bændasamfélagi á fyrri hluta 17. aldar: náttúruhamfarir, pestir og sifjaspell plaga óupplýsta kotbændur og aðra; augafullum presti er steypt ofan í mýrarkeldu og hann drukknar; fyrsta galdrabrennan er haldin; vælandi útburður á leiði; grasalæknir finnst myrtur með höfuð við gump (rass); skuggavera (morðinginn!) leggur Ingigerði í einelti. Þá gera Tyrkir strandhögg (sbr. Tyrkjarán 1627. Tyrkir eru reyndar aldrei nefndir því nafni heldur kallaðir "víkingar frá Algeirsborg") og hafa mikil áhrif á framvindu sögunnar og beina henni í Norveg, þannig að mæðgur og fleiri sigla þangað með líkama og sinni.
Alls konar áhrifa gætir í sögunni og hún er hálfgerður hrærigrautur bókmenntategunda: Nýaldar-nornasagan svífur yfir þjóðsögulegum aðstæðum en stundum er eins og Enid Blyton bregði fyrir; Grasaferð Jónasar; rauðri ástarsögu og svæsinni erótík, o.s.frv. Svei, ef ekki er vísað í "Fuglana" hans Hitchcocks undir lokin þegar illmennið og morðinginn fær að kenna á fuglunum, eða fylgjunum, hennar Ingigerðar ("Nei, ekki hrafnana, allt nema hrafnana!" (245)).
Ingigerður lendir í miklum og sífelldum hjartahremmingum. Oft er ógnar mikið á hana lagt, eins og t.d. þegar hún hjúkrar átta konum í Vík daga og nætur og finnst henni þá "hver dagur vera heil eilífð og hver nótt tvær eilífðir" (127).
Alloft verður spennufall í frásögninni og hástemmd dramatík hrapar ofan í hjákátlega lágkúru. Dæmi um þetta er þegar Ingigerður Alma bíður í ofvæni eftir Davíð, bjargvætti sínum, til að fá fregnir um hvernig fjölskyldu og heimilisfólki hafi reitt af í yfirreið víkinganna (Tyrkja): "Helköld krumla óttans [heldur] heljartaki" um hjarta" hennar ("Allt mitt líf var komið í rúst. [...] Harmleikur hafði orðið sem ekki yrði aftur tekinn") en það fyrsta sem kauða kemur í hug að segja þegar hann loks birtist er: "Alma, ég kom með súrt slátur. Það verður að duga" (116). Það er of mikið "sagt" í sögunni, sem mætti "sýna". Þegar ungbarn, sem hefur ekki fengið að borða lengi dags, tekur við sneið af súru slátri og "kjamsar græðgislega" á því er óþarft að skjóta inn aukasetningu um að það hafi verið "orðið hungrað". Það er slæmur galli á frásögninni hvað hún er "ofsögð".
Málfar, á köflum heldur slakt, er stundum reynt að fyrna en er að mestu leyti nútíma íslenska og daglegt mál. Höfund skortir ekki hugmyndir en úrvinnsla þeirra og textans þyrfti að vera meiri. Það gerist margt í Nótt á mánaslóð og atburðarásin er hröð. Sjálfsagt verða aðdáendur Birgittu ekki fyrir vonbrigðum, sérstaklega ef það á við rök að styðjast sem sagt er á bókarkápu, að hún hafi, með þessari bók, "aldrei verið betri".
Geir Svansson
Birgitta H. Halldórsdóttir