FRÆÐIMENN rekja sögu líkbrennslu aftur til fyrri hluta steinaldar, þ.e.a.s. til um 3000 f. Kr. og þegar leið á steinöldina breiddist líkbrennsla út norður eftir Evrópu. Fyrir Kristsburð og fyrstu aldirnar e.Kr. var líkbrennsla mjög algeng í rómverska heimsveldinu, þó var í gyðingdómi og frumkristni mun algengara, að búið væri um hina látnu í grafhvelfingum.
Líkbrennsla
Þjóðkirkjan á Íslandi,
segir Bragi Skúlason , hefur ekki haft í frammi neinar mótbárur gagnvart líkbrennslu.
FRÆÐIMENN rekja sögu líkbrennslu aftur til fyrri hluta steinaldar, þ.e.a.s. til um 3000 f. Kr. og þegar leið á steinöldina breiddist líkbrennsla út norður eftir Evrópu. Fyrir Kristsburð og fyrstu aldirnar e.Kr. var líkbrennsla mjög algeng í rómverska heimsveldinu, þó var í gyðingdómi og frumkristni mun algengara, að búið væri um hina látnu í grafhvelfingum. En eftir að Konstantínus keisari gerði kristni að ríkistrú þá var líkbrennsla nær aflögð í rómverska heimsveldinu til aðgreiningar frá grafarsiðum heiðinna manna. Á Norðurlöndum tíðkaðist líkbrennsla þar til meirihluti íbúa hafði gengist undir kristna trú. Virðist þar fyrst og fremst vera um það að ræða, að kristið fólk vildi aðgreina sína útfararsiði frá þeim siðum, sem fyrir voru. Líkbrennsla er ennfremur til í öðrum heimshlutum og tengist þar oft á tíðum einhverjum áherslum trúarbragða.Bálfararhreyfing nútímans er rakin til miðrar 19. aldar, þegar Brunetti, ítalskur prófessor, þróaði og fullgerði líkbrennsluofn, sem sýndur var á heimssýningunni í Vín 1873. Á þeim tíma var frágangur kirkjugarða ekki sem skyldi og margir voru á móti staðsetningu kirkjugarða í þéttbýli af heilbrigðis- og hreinlætisástæðum og töldu auk þess líkbrennslu ákjósanlegan kost. Allnokkrar deilur urðu þó á þessum tíma og páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar bannaði kaþólskum bálfarir á árunum frá 1886 til 1964, er bannið var numið úr gildi.
Líkbrennsla á Íslandi
Árið 1915 samþykkti Alþingi lög um líkbrennslu, að frumkvæði Sveins Björnssonar, síðar forseta Íslands. Árið 1934 var stofnað Bálfarafélag Íslands, sem beitti sér fyrir byggingu bálstofu við Fossvogskirkju, en hún var fullgerð 1948 og fór fyrsta bálförin fram 31. júlí sama ár. Bálstofa Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma er enn eina bálstofa landsins.
Í 2. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu segir svo: "Skylt er að virða ákvarðanir sjálfráða manns um hvort greftra skuli lík hans eða brenna ... Nú er ekki vitað um vilja látins manns sem sjálfráða var og ákveða þá eftirlifandi maki (sambúðaraðili) og niðjar (kjörniðjar) hins látna hvort lík skuli greftrað eða brennt." Því er ljóst, að líkbrennsla er að lögum sjálfsagður valmöguleiki fyrir þá, sem þess óska.
Á Íslandi var hlutfall bálfara af heildarfjölda útfara á árinu 1996 tæp 12%, en það hlutfall hefur farið hægt vaxandi á undanförnum árum. Líkbrennsla er mun meira áberandi á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum, um 17% af öllum útförum þar. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 20%, í Bretlandi 71%, 69% í Danmörku og 99% í Japan, svo nokkuð sé nefnt.
Sérstakir grafreitir fyrir duftker eru til, þar sem merkt leiði eru fyrir hendi, auk þess sem Fósturreitur, duftreitur, er til í Fossvogskirkjugarði.
Enginn munur er á útfararathöfn, þegar bálför fer fram, nema að athöfn í kirkjugarði fer fram nokkrum dögum síðar.
Trúarleg viðhorf
Þjóðkirkjan á Íslandi hefur ekki haft í frammi neinar mótbárur gagnvart líkbrennslu. Þó er það svo, að ýmsir hafa haft í frammi andmæli, sem á stundum hafa verið hörð og hafa þá oft á tíðum byggst á sterkum tilfinningarökum, eða trúarlegum rökum, sem t.d. geta verið þau, að hinir látnu sofi í gröf sinni til efsta dags, en rísi þá upp, líkami, sál og andi. Páll postuli ræðir þetta í 15. kafla I. Korintubréfs: "En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?" Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi ... Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan. Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað ... Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt. Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika. Sáð er í jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami ... eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska" (3549). Til þessara orða er vitnað, þegar rekum er kastað, eða sögð orðin: "Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa." Tenging líkama, sálar og anda, þ.e.a.s. að við séum ein heild en ekki skiptar verur, er áberandi í boðskap Ritningarinnar. Hið holdlega, jarðneska, og hið andlega, himneska, tengjast. Í 1. Mósebók segir í 2:7: "Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál." Og í upprisuboðskap kristninnar er lögð áhersla á, að gröfin var tóm, þegar Jesús Kristur reis upp frá dauðum. Páll postuli talar um að Guð muni: "... breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig" (Fil. 3:21).
Hvaða augum lítum við á holdlegan líkama okkar? Að kristnum skilningi er hann hluti af sköpun Guðs og ekki óæðri andanum eins og tvíhyggjan gefur til kynna. Vitnisburður guðspjallanna er, að Kristur reis upp frá dauðum og hinn dauðlegi líkami varð ekki eftir. Gröfin var tóm.
Þar sem okkar bíður að vera gjörð lík dýrðarlíkama Krists, er það þá bundið af því, að líkaminn sé lagður í heilu lagi í gröf, þar sem hann vissulega eyðist? Nú er það ljóst, að ekki eru allir líkamir lagðir í gröf. Sumir finnast ekki, eða eyðast af völdum náttúruafla. Eigum við þá að ætla, að þeir, sem þannig fer fyrir, séu utan við þann möguleika að hljóta dýrðarlíkama, líkan dýrðarlíkama Krists? Í Opinberun Jóhannesar 20:13 segir: "Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim, sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru ..." Hið skapaða takmarkar þannig ekki upprisumátt Guðs. Því hljótum við að ætla, að ráðstöfun líkamans eftir dauðann af okkar hálfu takmarki ekki verk Guðs.
Að kveðja vel
Hins vegar viljum við sýna virðingu og kveðja vel og syrgjendur finna þörf fyrir að eiga frátekinn stað fyrir sorgina í merktu leiði, eða minnisvarða. Í lögum nr. 36/1993 segir í 7. gr. "Óheimilt er að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði eða löggiltum grafreit." Í ljósi þess, að stundum koma fram óskir um það, að dufti sé dreift á haf út eða á uppáhaldsstað hins látna má spyrja, hvort ekki sé ástæða til að heimila það samkvæmt lögum. Þetta er þekkt víða erlendis. En þar, eins og raunar hér á landi, ber það við, að ekki sé sinnt um jarðsetningu duftkera eða dreifingu á dufti af hálfu aðstandenda. Ber þá ekki löggjafanum að tryggja, að slíkt sé gert innan einhvers tíma, eða einhverjum löggiltum aðila falið að sjá um það, sýni aðstandendur ekki frumkvæði að því að slíkt sé gert?
Af hagkvæmniástæðum má ætla, að líkbrennslum muni fjölga hér sem annars staðar í heiminum, bæði vegna minni kostnaðar en við jarðsetningu í kistu og vegna þess, að nú ber nokkuð á því, að duftker séu jarðsett í leiði náinna ættingja, ekki einvörðungu í duftreiti. Þess ber að geta, að grafarstæði fyrir kistu krefst sex sinnum meira landrýmis en duftgröf. Víða erlendis þurfa aðstandendur að greiða stórar upphæðir fyrir leiði í kirkjugarði, en okkar íslenska skipulag gerir ráð fyrir því, að kostnaður sé greiddur með almennum kirkjugarðsgjöldum. Ekki er víst, að það fyrirkomulag haldist um aldur og ævi.
Það fer ekki fram hjá neinum syrgjanda, þegar ástvinur skilur við, að líkaminn verður lífvana og missir smám saman lit, hita og viðbrögð hverfa. Hinn látni er ekki lengur þar. En minningin lifir. Lífið í líkamanum er ekki gleymt Guði. Dauðinn markar nýtt upphaf í dýrðarlíkama.
Í 90. Davíðssálmi segir: "Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!" Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka."
Heimildir:
Biblían, Reykjavík 1981. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma "Bálför", Reykjavík 1997. Lög nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
Höfundur er sjúkrahúsprestur á Ríkisspítölum. Bragi Skúlason