"UM 70% þeirra 159 íssýna sem Heilbrigðiseftirlitið tók víða um land fyrr á þessu ári voru í ófullnægjandi ástandi," segir Margrét Geirsdóttir hjá Hollustuvernd ríkisins en nýlega var úttekt lokið á 159 íssýnum. Margrét segir að samanburður milli ára sýni ótvírætt að ástandið fari versnandi. "Við höfum tvisvar áður gert svipaða úttekt, árið 1990 og árið 1994.
Ís úr ísvél

70% íssýna í ófull-

nægjandi ástandi

"UM 70% þeirra 159 íssýna sem Heilbrigðiseftirlitið tók víða um land fyrr á þessu ári voru í ófullnægjandi ástandi," segir Margrét Geirsdóttir hjá Hollustuvernd ríkisins en nýlega var úttekt lokið á 159 íssýnum.

Margrét segir að samanburður milli ára sýni ótvírætt að ástandið fari versnandi. "Við höfum tvisvar áður gert svipaða úttekt, árið 1990 og árið 1994. Árið 1990 var 61% sýna í ófullnægjandi ástandi og árið 1994 komu sömu niðurstöður í ljós. Nú er hlutfallið komið upp í 70%.

Þessi sýni voru tekin víða um land og sýna ástandið á ís úr ísvél frá alls 131 útsölustað."

Spurning um gæði

"Þetta er spurning um gæði vörunnar en kannski ekki beint hægt að segja að niðurstöðurnar ýti undir efasemdir um heilnæmi hennar." Margrét segir að þrátt fyrir slæma útkomu úr þessum könnunum sé ekki mikið um kvartanir frá neytendum og ís er ekki oft nefndur í sambandi við matarsjúkdóma.

"Helstu aðfinnslur eru vegna kólígerla, sem getur þýtt að hreinlæti sé ábótavant og þá sérstaklega í sambandi við þrif á ísvélum eða vegna kuldaþolinna gerla sem bendir til að ísblandan sé of gömul eða hafi staðið of lengi í ísvélinni. Í nokkrum tilvikum voru gerðar athugasemdir vegna gerlategundarinnar bacillus cereus. Þetta er grómyndandi tegund sem getur lifað gerilsneyðingu á ísblöndu af. Þessi tegund getur valdið matareitrun ef mikið er af henni. Fjöldi þessara baktería í íssýnum var þó sjaldnast nálægt þeim mörkum sem teljast hættuleg."

Margrét segir að ýmsar ástæður geti legið að baki þessum niðurstöðum. "Oft er skipt um starfsfólk í söluturnum og það lærir ekki að þrífa ísvélarnar sem skyldi, pakkningar undir ísblöndur kunna að vera of stórar fyrir suma útsölustaði og þess vegna er hætta á að ísblandan verði of gömul. Þá geta geymsluaðstæður verið slæmar og svo mætti áfram telja."

Kólígerlar algengastir

Af þeim sýnum sem metin voru ófullnægjandi voru 81% með of mikið af kólígerlum, 57% með of mikið af gerlum í heild og 14% með of mikið af bacillus cereus.

­ Er algengt að fólk veikist vegna þessara gerla?

"Matareitrun af völdum bacillus cereus er nokkuð algeng bæði hér á landi og í öðrum löndum. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á matareitrun af völdum íss hér á landi þó það sé þekkt erlendis."

­ Hvað þýða þessar niðurstöður með tilliti til neytenda?

"Ljóst er að hvorki neytendur né heilbrigðisyfirvöld geta sætt sig við svona hátt hlutfall af íssýnum sé ófullnægjandi. Einnig er alvarlegt að ástandið virðist fara versnandi miðað við fyrri ár. Viðmiðunargildi fyrir örverur í ís úr vél er að finna í mjólkurreglugerð. Þetta eru ströng viðmiðunargildi en sambærileg við þau sem notuð eru hjá ýmsum öðrum þjóðum. Þar sem ís er viðkvæmur er nauðsynlegt að strangar viðmiðunarreglur gildi. Þrátt fyrir að ástandið sé slæmt eru þó nokkrir framleiðendur sem alltaf eru með sinn ís í lagi sem gefur til kynna að hægt sé að framleiða þessa vöru svo fullnægjandi sé."

Margrét segir að í framhaldi af þessum niðurstöðum muni Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Hollustuvernd ríkisins athuga hvernig bregðast eigi við þeim. Það hafa komið hugmyndir um að seljendur ísblöndu, í samráði við heilbrigðisyfirvöld og seljendur ísvéla, útbúi almennar leiðbeiningar um þrif vélanna og meðhöndlun ísblöndu og skipuleggi sýnikennslu fyrir starfsfólk á útsölustöðum.

Morgunblaðið/Keli