NÚ ER viðurkennt af flestum sem málsmetandi eru, að sú byggðastefna, sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi, hefur ekki dugað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það, undanbragðalaust. Menn verða að leita þeirra ástæðna, sem fyrir þessu liggja. Ekki dugir lengur, að hver api eftir öðrum það sem orðið er að innantómum orðatiltækjum.
Byggðastefna
Eignarhald fjarstaddra
spekúlanta á björginni, segir Bjarni Kjartansson , veitir ekki rósemi hugans.
NÚ ER viðurkennt af flestum sem málsmetandi eru, að sú byggðastefna, sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi, hefur ekki dugað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það, undanbragðalaust.Menn verða að leita þeirra ástæðna, sem fyrir þessu liggja. Ekki dugir lengur, að hver api eftir öðrum það sem orðið er að innantómum orðatiltækjum.
Dæmi: "Auka verður aðgengi að opinberri þjónustu"; Stækka verður þjónustusvæði"; "Félagslega þjónustu ber að efla á svæðinu"; "Flytja verður með sértækum hætti sérfræðingaatvinnutækifæri út á landsbyggðina"; "Ráðast ber í atvinnuþróunarverkefni, koma á fót atvinnuþróunarstofnunarskrifstofum hið fyrsta, þannig að kenna megi heimamönnum handverkssmáiðnað og annað það sem hæfir" (lesið við einir vitum hvað til þeirra friðar heyrir).
Byggðastofnun hefur komið á fót skrifstofum í hverjum landsfjórðungi. Störf þar hafa verið unnin af, að ég held, bestu vitund og með því afli sem stofnunin hefur yfir að ráða. Margt hefur vel farnast af þeim verkefnum, sem skrifstofur þessar hafa ýtt úr vör. Ekki er við meiru að búast, þar sem sorfist hefur og nagast undan þeim stoðum, sem byggðin áður stóð á. Engin stofnun eða skrifstofur mega við ólögum.
Kansellí dugir ekki lengur, ráðast verður að rótinni, hversu djúpt sú rót annars nær og hversu sársaukafullt verður að uppræta meinið.
Skoðun ritara er afar einföld en grundvölluð á eigin upplifun og virðingu fyrir mannlegu eðli. Það ílendist ekki nokkur maður á því svæði, sem viðkomandi hefur ekki trú á að geti vaxið og dafnað til einhverrar framtíðar. Handaflsaðgerðir í formi styrkja og sértækra aðgerða hafa reynst haldlitlar til lengdar. Fara verður í þá vinnu, að skoða hvað getur aukið mönnum trú á sinni heimabyggð eða hvort slíkt sé yfirleitt gerlegt.
Landsvæðin eru ekki einsleit, hvað varðar möguleika þeirra til vaxtar. Kemur þar til mismunur á náttúrugæðum og auðlindum. Eitt er víst. Hvert landsvæði fyrir sig, verður að hafa til þess fulla og óskoraða heimild að nýta þau auðæfi sem þar eru.
Tafarlaust ætti að gefa frjálsa veiði innan ákveðins lífbeltis, t.d. 50 sjómílna, til "heimabáta" upp að ákveðinni stærð. Leggja verður til heildarsóknarmark, vel rýmilegt, þar um má Kristján, yfirlénsherra hjá LÍÚ, engu ráða. Gefa ætti virkjanir fallvatna og annarra orkulinda frjálsa og liðka til með sölu afurðanna. Miðstýring í þessum geira gengur hvort eð er ekki, eins og dæmin sanna. Risa opinberar stofnanir með stjórum sem engra hagsmuna eiga að gæta, annarra en að hanga á vinnunni og risnu verða einfaldlega að fara í stranga megrun. Fjölmargar nefndir og ráð, einnig nánast allar tómar afætur, mætti leggja af og spara þannig stórfé.
Byggð hefst ekki við ef menn fá ekki notið landsgæða, það er bara svoleiðis og ekkert lært þvaður og kansellífroða fær þar einhverju um þokað. Íslendingar hafa ætíð viljað bjarga sér sjálfir, með sem minnstum afskiptum frá hinu opinbera. Þó að sósar síðustu áratuga hafi rembst eins og rjúpan við staurinn við að koma hinni þýlegu hugsun inn hjá landsmönnum, að best væri að fara eftir opinberri leiðsögn og setja allt sitt traust á stóra bróður, þá hefur það ekki tekist, nema í takmörkuðum mæli, þökk sé Drottni.
Aflahlutdeildarkerfið hefur verið vegsamað, bæði af innlendum sem erlendum féhyggjumönnum. Dásamað hefur verið hve auðvelt er að hagræða innan kerfisins, stjórnendur peningastofnana hafa jafnvel tekið veð, í óveiddum fiski. Hákarlar kerfisins, sumir með væna forgjöf, hafa farið með fyrirtæki sín á opinn hlutabréfamarkað og fengið fjármuni inn í rekstur sinn, til aukinna landvinninga. Allt er það gott og blessað en þegar fjarlægð verður of mikil milli þess sem á fyrirtæki og þeirra sem afla til þess, nær skilningur eigenda oft ekki nema til arðseminnar en ekki framtíðar vegferðar hinna.
Rök okkar í sjálfstæðisbaráttunni voru oft þau, að Danskurinn hefði ekki forsendur til að átta sig á ýmsum málum, sem væru staðbundin og ættu rætur í þeim veruleika, sem hér væri. Skyldi ekki eitthvað slíkt eiga við nú um stundir?
Ég bið lesenda, að setja sig í spor þess, sem horfir á rétt byggðarlags síns til nýtingar miða sinna (náttúrugæða) seldan í annan landsfjórðung nær á einu bretti. Hvaða hugsanir um framtíðarhorfur barna og barnabarna renna í gegnum hugann? Væru það ekki fjörráð við afkomendurna að leggja vinnuþrek sitt í uppbyggingu híbýla og heimilis, þar sem verðmætin verða að engu orðin eftir stuttan tíma? Líklegt er, að viðkomandi axli sín skinn og leiti annars vettvangs fyrir það sem eftir lifir af starfsþrekinu.
Bankakerfið hjálpar viðkomandi við ákvörðun um búsetu. Bankarnir lána helst ekki út á veð, sem fast er á þessum "návíkum og afdölum". Svosem er ekki við bankakerfið að sakast. Ekki er rétt, að heimta af því frekari trú á viðgang og framtíð byggðanna en að meðaltali ríkir hjá íbúunum sjálfum.
Byggð getur ekki myndað nauðsynlega öryggistilfinningu hjá íbúum sínum ef það eina sem upp á er að bjóða er stopul vinna þegar eigendur aðkomubáta kjósa að landa tímabundið hjá þeim og bætur þess í milli. Vinnubúðalíf er í eðli sínu tímabundið. Eignarhald fjarstaddra spekúlanta á björginni, veitir ekki rósemi hugans.
Nú er á baugi ný skoðun. Nú leggja menn mikla áherslu á afþreyingu og listir, sem gildan þátt í þeirri taug, sem halda muni íbúum í heimahögum. Rétt er, að maður er manns gaman en íbúar hvers staðar fyrir sig hafa sýnt, með afar glöggum hætti, að ekki þarf neina sérstaka leiðsögn að "sunnan" til þess að menn lifi listar- og lystarlífi. Það kvað vera nokkuð í takt við vellíðan manna í heimabyggð hversu fjörugt félagslífið er á hverjum tíma og þar, sem í öðru, þarf ekki nokkurn slettirekuskap að "sunnan".
Landsvæði byggist á þeim forsendum sem náttúran setur. Suðurlandsundirlendið byggðist ekki upp á því, að þar væri gott útræði eða Vestfirðir vegna grösugra sveita. Þegar svo bjargráðin eru tekin með lagaboði af íbúunum brestur byggðin, hversu auðvelt sem það annars væri að fá lán í Byggðastofnun til annarra hluta en náttúran býður í sinni gjafmildi. Fólkið hefði ekki þraukað aldirnar í heimahögum við tyftun náttúruaflanna ef ekki hefði verið trúin á, að þar væri hægt að sækja gull í greipar náttúrunnar og viðurværi börnunum til handa.
Því er niðurstaðan þessi: Aukið frjálsræði á sem flestum sviðum, þó með sjálfsögðum girðingum. Leyfið mönnum aftur að bjarga sér við þá náttúru sem þeim er kunnust og kærust. Minnkið í leiðinni þau hin opinberu kerfi sem um landsbyggðarmál fjalla, elskurnar farið ekki að senda þessa óværu út í fjórðungana til höfuðs þeirri skynsemi, sem þar er eftir. Það hefur bara kostnað í för með sér; leggið frekar starfsemina af. Öðlist aftur trú á, að heimamenn geti staðið óstuddir fái þeir að nýta sín náttúruauðæfi, sér og sínum til heilla, í sátt við náttúruna og þann sem þetta allt skóp.
Höfundur er skrifstofumaður og bjó fyrir vestan. Bjarni Kjartansson