UNDANFARNA daga höfum við starfsmenn Skeljungs um fátt annað talað en uppsagnir innan félagsins. Ferlið hófst þegar forstjóri fyrirtækisins tilkynnti með bréfi til starfsmanna hinn 15. september sl. að minni hagnaður væri merkjanlegur í milliuppgjöri en búist hafði verið við og er þá miðað við hagnað ársins 1996 sem var eitt hið besta í sögu félagsins.
Uppsagnir Skeljungs
2025 starfsmönnum
hefur nú þegar verið sagt upp hjá Skeljungi, segir Bjarki Már Magnússon , og mörgum til viðbótar mun verða sagt upp á næstu mánuðum. UNDANFARNA daga höfum við starfsmenn Skeljungs um fátt annað talað en uppsagnir innan félagsins. Ferlið hófst þegar forstjóri fyrirtækisins tilkynnti með bréfi til starfsmanna hinn 15. september sl. að minni hagnaður væri merkjanlegur í milliuppgjöri en búist hafði verið við og er þá miðað við hagnað ársins 1996 sem var eitt hið besta í sögu félagsins. Þrátt fyrir gagngerar breytingar á bensínstöðvum Skeljungs sem hafa verið brotnar niður og byggðar upp aftur og þrátt fyrir stórframkvæmdir á aðalskrifstofu þar sem undanfarið hefur verið unnið dag og nótt við endurbætur, var hagnaður í milliuppgjöri 53 milljónir. Á fyrri hluta ársins jukust eignir Skeljungs um 800 milljónir. Í framhaldi var sett í gang "hugmyndasamkeppni um hagræðingatillögur" þar sem skilafrestur var framlengdur hvað eftir annað "vegna mikillar þátttöku". Í lok september var okkur starfsmönnum bensínstöðva tilkynnt með 8 daga fyrirvara að stytta skyldi afgreiðslutíma stöðvanna með það að markmiði að ná af okkur þeirri föstu yfirvinnu sem við höfum haft, 10 tímum á mánuði. Það breytir forsendum kjarasamninga verulega þar sem ljóst er að vinnuálagið muni aukast vegna skemmri afgreiðslutíma og gengur jafnframt þvert á markmið samninga er var að auka tekjur starfsmanna olíufélaganna, en vaktaálag var lækkað um 10% og þjónustuuppbót sett í grunnlaun. Vegna óánægju starfsmanna og samstöðu þeirra var gjörningnum að lokum frestað til áramóta. Hvort sátt hefur náðst um breytinguna þá á eftir að koma í ljós. Ef þörf er á að endurskoða rekstur fyrirtækja með reglulegu millibili, er lausnin þá alltaf sú að lækka laun og segja upp þeim sem lægst hafa launin? Verkfall Dagsbrúnar á árinu var mér mikill lærdómur og þáttur fyrirtækisins þar sem ég starfa hefur orðið mér mikið umhugsunarefni. Í upphafi verkfalls gengu stjórnendur fyrirtækisins í afgreiðslustörf á bensínstöðvum og gefnar voru út yfirlýsingar um að starfsmenn skrifstofu sem hefðu aukin ökuréttindi myndu keyra eldsneytisdreifingarbíla. Það var gefinn sá tónn að allt yrði gert til að brjóta verkfallið á bak aftur. Þetta gerði að verkum að allt verkfallið stóðu verkfallsmenn í stöðugum átökum við forsvarsmenn fyrirtækisins. Það var ljóst að stjórnendur Skeljungs áttu erfitt með að sætta sig við að "óbreyttir starfsmenn" hefðu áhrif á starfsemina með þessum hætti. Eftir verkfallið hefur verið fyllt upp í þann "kvóta" að einn starfsmaður sé í verslunarmannafélagi á hverri bensínstöð en það gerir það að verkum að hægt er að hafa opið þrátt fyrir að verkamenn í Dagsbrún séu í verkfalli. 2025 starfsmönnum hefur nú þegar verið sagt upp og mörgum til viðbótar mun verða sagt upp á næstu mánuðum. Fjölmiðlar hafa leitt getum að því að um 60 manns, sem eru um starfsmanna muni fá uppsagnarbréf. Það eru starfsmenn sem sjá um ýmiskonar viðhald, lagerstörf og útkeyrslu, bæði af lager og dreifingu á eldsneyti. Þessir starfsmenn hafa ekki fengið nákvæma útlistingu á hvað taki við. Þó hefur þeim verið tjáð að einhverjir verði endurráðnir. Það liggur sem sagt ekki fyrir hvað fyrirtækinu gengur til því ekki verður séð að starfsemi Skeljungs gangi upp nema þessi störf séu unnin. Ég á þó bágt með að trúa að tugum starfsmanna sé sagt upp án þess að það hafi verið hugsað til enda. Er framtíðin sú að verktakar taki við þessum störfum og er verið að halda núverandi starfsmönnum "volgum" meðan aðrir eru þjálfaðir upp í þeirra störf? Verða eldsneytisbílstjórar verktakar sem ekki fara í verkfall og geta keyrt út eldsneyti í verkfalli verkafólks árið 2000 meðan verslunarmaðurinn stendur fyrir innan borðið og sér um afgreiðsluna? Er verið að undirbúa að gera komandi verkföll áhrifalaus? Stöðugt er sótt að réttindum launafólks. Vinnulöggjöf sett sem gerir launafólki erfiðara fyrir að beita verkfallsvopninu, gerð hörð atlaga að lífeyrissjóðum landsmanna og reynt á allan hátt að brjóta samstöðu og samtryggingu á bak aftur. Það er mál að vakna upp af svefni og þétta okkur saman gegn kjaraskerðingu og réttindamissi. Höfundur er starfsmaður Skeljungs, ennþá . . .
Bjarki Már Magnússon