Reykjavík kaupir
hlaupabrautir í Höllina
REYKJAVÍKURBORG hefur
ákveðið að festa kaup á 600 fermetrum af gúmmímottum til að þekja gólf Laugardalshallarinnar svo hægt sé að halda þar frjálsíþróttamót við boðlegar aðstæður. Verða motturnar notaðar í fyrsta sinn á frjálsíþróttamóti ÍR í janúar nk.
Í fréttatilkynningu frá frjálsíþróttadeild ÍR segir: "Með þessu kemur Reykjavíkurborg til móts við frjálsíþróttastarfið í Reykjavík og ber að þakka það. Bráðabirgðalausn hlýtur þetta þó að teljast þar til varanleg innanhússhöll kemur sem auðvitað á að vera markmiðið í framtíðinni."
Að sögn Vésteins Hafsteinssonar hjá ÍR eru þessar nýju mottur mjög til bóta en í fyrra fengu ÍR-ingar lánaðar gúmmíbrautir hjá Hafnarfjarðarbæ. Nýju motturnar eru 122 cm á breidd og 10 mm þykkar sem þýðir að nú er hægt að vera með 5 brautir í spretthlaupum og grindahlupum í stað fjögurra síðast. Þá verður einnig hægt að vera með lengri atrennubrautir í langstökki sem ætti að þýða lengri stökk og skemmtilegri keppni. Þá eru motturnar einnig meðfærilegri og betri í lagningu. Ekki þarf að kaupa límbönd til þess að festa þær saman en t.d. þurftu ÍR-ingar að kaupa límbönd fyrir 80.000 fyrir afmælismótið til þess að líma motturnar saman svo að hlaupabrautirnar yrðu nothæfar.