HÆTTA er nú talin á því að verkefnið um menningarhöfuðborgir Evrópu renni út í sandinn eftir að menningarmálaráðherrum Evrópusambandsins tókst ekki að komast að samkomulagi um hvaða borg skyldi verða fyrir valinu árið 2001, að því er segir í Aftenposten. Er þessi fullyrðing höfð efir Mark Fisher, menningarmálaráðherra Bretlands.
Menningarklúður hjá ESB HÆTTA er nú talin á því að verkefnið um menningarhöfuðborgir Evrópu renni út í sandinn eftir að menningarmálaráðherrum Evrópusambandsins tókst ekki að komast að samkomulagi um hvaða borg skyldi verða fyrir valinu árið 2001, að því er segir í Aftenposten . Er þessi fullyrðing höfð efir Mark Fisher, menningarmálaráðherra Bretlands. Hinn danski starfsbróðir hans segir málið pínlegt og Finninn í hópnum segir málið eitt allsherjarklúður. Ráðherrunum hefur ekki tekist að ná samkomulagi um hvort ein borg eða fleiri eigi að vera menningarhöfuðborg Evrópu. Spánverjar, með stuðningi Ítala, krefjast þess að borgirnar verði fleiri en ein. Aðrir eru flestir á því að slíkt sé óþarfi þar sem árið 2001 sé ekki sama merkisárið og 2000. Ebbe Lundgaard, menningarmálaráðherra Danmerkur, á ekki von á að nokkur borg verði fyrir valinu en aðrir ráðherrar segja hann of svartsýnan. En þeir viðurkenna að tíminn sé knappur. Fisher telur að menningarborgirnar séu merkasta framlag ESB á menningarsviðinu og því megi ekki slá verkefnið af, þótt móti blási. Verður gerð lokatilraun til að ná samkomulagi á næsta fundi menningarmálaráðherranna á Bretlandi í júní á næsta ári.