eftir Björgvin Richardsson. 222 bls. Skjaldborg. Prentun: Jana seta. Reykjavík, 1997. Verð kr. 3.480. Höfundur skrifar hér um sorg og sigra í starfi björgunarsveita, eins nog hann orðar það. En heiti bókarinnar útskýrir hann svo: Útkall rauður þýðir að björgunarmenn eiga að mæta tafarlaust í björgunarstöð sveita sinna.
Með
storminn í fangiðBÓKMENNTIR
Ferðasögur ÚTKALL RAUÐUR eftir Björgvin Richardsson. 222 bls. Skjaldborg. Prentun: Jana seta. Reykjavík, 1997. Verð kr. 3.480. Höfundur skrifar hér um sorg og sigra í starfi björgunarsveita , eins nog hann orðar það. En heiti bókarinnar útskýrir hann svo: Útkall rauður þýðir að björgunarmenn eiga að mæta tafarlaust í björgunarstöð sveita sinna. Bókin skiptist í sex kafla og í hverjum segir frá útkalli eða æfingum. Höfundur talar af reynslu því hann hefur lengi starfað í björgunarsveitum og gengið í gegnum ströngustu þjálfun. Óþarft er að taka fram að björgunarleiðangrar reyna mjög á þrek og úthald. Útkall berst helst í verstu veðrum og björgunarsveitir verða tíðum að athafna sig við erfiðustu skilyrði. Ekki er alltaf vitað hvar leita skal. Þeir, sem í villu rata, hafa oft ekki hugmynd um það sjálfir hvar þeir eru staddir. Björgunarsveitir eru skipaðar sjálfboðaliðum. Sá sem býður sig fram til björgunarstarfa verður að hafa gaman af ferðasvalki en jafnframt að hafa áhuga á mannlega þættinum að bjarga öðrum. Björgvin Richardsson er hinn dæmigerði leiðangursmaður; lifir og hrærist í fangbrögðum við náttúruna. Hann hefur lært að rata í dimmviðri, klifra í klettum, standast vályndustu veður og forða sér frá hvers kyns aðsteðjandi háska. Eftir að hafa lesið frásögn hans af sleðaferð á Fimmvörðuhálsi, svo dæmi sé tekið, finnst manni furðu gegna að hann skyldi sleppa lifandi, hvað þá óskaddaður eftir óhöpp þau sem hann og félagar hans urðu þar fyrir. Björgvin hefur líka kynnst kapphlaupinu við tímann þegar líf liggur við. Og hann veit hvað það er að vera veðurtepptur í fárviðri á fjöllum uppi, fjarri byggðu bóli, jafnvel dögum saman. Leiðangri fylgir allt í senn: kvíði, spenna og eftirvænting. Leiðangursmaður lifir í andartakinu og fyrir andartakið. Frásagnir Björgvins eru hugtækastar fyrir þá sök að honum tekst einmitt að fanga þetta andartak; koma því milliliðalaust til lesandans. Með ágætum lýsir hann óvissu þeirri sem býður leiðangursmannsins svo að segja við hvert fótmál. Sömuleiðis kemur hann til skila þeim létti sem leiðangursmaður upplifir þegar ferð er farsællega lokið. Það er eins og maður heyri veðragnýinn og horfi á hríðarkófið í frásögn Björgvins. Vitur maður sagði eitt sinn að sannasta gleðin væri fólgin í að finna kraftinn í sjálfum sér; að takast á við erfiðleikana og sigra; ná settu marki. Að sjálfsögðu nýta björgunarsveitir sér tæknina. Staðsetningartæki, jeppar og vélsleðar gera vetrarferðir um hálendið auðveldari en ella. Eiginleikar eins og ratvísi og áræði verða þó alltaf nauðsynlegir. Tæknin getur brugðist. Leiðangursmaður verður því að treysta á sjálfan sig fyrst og fremst. Björgvin segir ekki aðeins lipurlega frá. Hæfileiki hans til að magna upp spennu í frásögninni ljær sögum hans ósvikið skemmtigildi. Einnig hefur hann á valdi sínu að lýsa staðháttum svo ljóslega að lesandanum reynist hvarvetna auðvelt að átta sig. Nákvæmni hans, þegar hann segir frá þrekraunum við háskalegar aðstæður, færir mann enn nær því að lifa sig inn í reynslu hans. Auk frásagnanna miðlar bók þessi ýmiss konar áhugaverðum fróðleik um landið. Til dæmis er upplýst að úrkoman á Öræfajökli nemi allt að tíu þúsund millimetrum á ári sem jafngildir hundrað metrum af nýföllnum snjó! Ennfremur er því lýst hvernig þetta hæsta fjall á Fróni skapar sín eigin foráttuveður, utan og ofan við allar veðurspár. Allt þetta gerir bók Björgvins athyglisverða og minnisstæða. Fyrir þann, sem ann fjallaferðum og víðáttu, er þetta ákjósanleg afþreyingarlesning, ósviknar spennusögur. Erlendur Jónsson Björgvin Richardsson