Varar við náttúrulyfjum
Fjögur virt bandarísk vísindasamtök hafa tekið höndum saman og vara almenning við allskyns fullyrðingum sem tengjast sölu svonefndra fæðubótarefna eða náttúrulyfja. Ólafur Sigurðsson matvælafræðingur skoðaði málið.
ÞETTA eru samtök matvælafræðinga (Institute of Food Technologists), næringarfræðinga (American Dietetic Association), klínískra næringarráðgjafa (American Society for Clinical Nutrition), næringarfræðinga og skyldra vísindagreina (American Society for Nutritional Sciences) sem gáfu út sameiginlega yfirlýsingu á blaðamannafundi á árlegri ráðstefnu matvælafræðinga (IFT) í júní sl.
Í ályktun samtakanna greinir frá að matvælaframleiðendum beri að fara eftir ströngum reglum og tilgreina nákvæmlega næringargildi, orku og fleira á umbúðum. Á sama tíma hafa einstakir sölumenn hollefna komist upp með mjög vafasamar fullyrðingar án þess að færa sönnur á þær. Christine M. Bruhn, Ph.D. er formaður samtakanna og á blaðamannafundi í sumar sagði hún m.a.: "Fullyrðingar í auglýsingum um þessar vörur eru jafnvel byggðar á einni einustu rannsókn sem oft skortir vísindaleg vinnubrögð eða þá að þeim er einfaldlega ekki beitt. Næringar- og matvælavísindaráðið gefur samtökunum tækifæri til að tala einu máli og leiðrétta misskilning og rugling sem virðist vera fyrir hendi um málefni sem varða matvæli og næringarfræði."
Hvað þarf almenningur að vita um bætiefni?
Lykilatriði í fréttatilkynningu vísindaráðsins eru að: Kaupendur verða að gæta varúðar við kaup á fæðubótarefnum. Auglýsingar með fæðubótarefnum höfða alloft til heilsunnar. Til dæmis: "Dagleg neysla bætir vellíðan." "Inniheldur öll nauðsynleg bætiefni." "Veldu Ginkgo Biloba til að skerpa hugann." "Fullkomin næring er í Drottningarhunangi."
Í lögum um umbúðamerkingar matvæla hérlendis eru refsiákvæði ef upplýsingar um vöru eru villandi. Á ekki það sama að gilda um fæðubótarefni? Því eru þau undanskilin strangri matvælalöggjöf sem gildir um öll matvæli?
Hafa neytendur virkilega trú á hvaða fullyrðingum sem er, bara ef þær er auglýstar nógu oft? Neytendur þurfa að rækta með sér gagnrýna hugsun þegar þessi efni eru annarsvegar. Þeir ættu því að varast efni sem eru auglýst "undraefni", "án fyrirhafnar", og svo framvegis. Áhrif sumra fæðubótarefna eru vel þekkt, áhrif annarra eru ósönnuð og fullyrðingar um hollustu þeirra því villandi, jafnvel rangar.
Fæðubótarefni eru m.a. vítamín og grös úr plönturíkinu
Sum vítamín og steinefni eru nauðsynleg tilteknum aldurshópum. Hlutverk þeirra er vel þekkt og magn vítamína í töflum er alltaf tilgreint. Hlutverk margra fæðubótarefna er þó mun óljósara. Mörg þeirra eru styrkt eða "extrökt" sem innihalda mun hærra magn ýmissa efna en plantan sjálf við náttúrulegar aðstæður. Sum þessara efna geta beinlínis verið hættuleg í of miklu magni. Fjölvítamín eru sumum nauðsynleg. Aldraðir, börn, einstaklingar með tiltekna sjúkdóma geta haft aðrar næringarþarfir en venjulegt fólk. Fjölvítamín eru slíkum hópum nauðsynleg. Barnshafandi konur ættu ætíð að ráðfæra sig við lækna og/eða næringarráðgjafa. Þeim ber að forðast ýmis náttúrulyf. Sum þeirra geta skaddað fóstrið eða beinlínis valdið fósturláti.
Stórir skammtar geta verið hættulegir
Öll efni eru hættuleg í of miklu magni. Það er því ofneyslan sem er óholl. Ráðlagðs dagskammta (RDS) næringarefna er oft getið á umbúðum matvæla til að veita upplýsingar um hlutfall næringarefna úr fæðunni. Engin slík hámarks- eða lágmarksviðmiðunarmörk eru til fyrir fjölda náttúrulyfja.
Fæðubótarefni geta haft óvænta eiturverkan til dæmis ef þeirra er neytt í langan tíma. Mögulegra aukaverkana er jafnan getið á umbúðum frá lyfsölum. Það er hinsvegar lítið um að viðvaranir um auka- eða eiturverkanir séu birtar á umbúðum fæðubótarefna. Lærðir grasalæknar hafa þessa þekkingu og veita jafnan ráðgjöf um slíkt.
Margir vilja leysa skilgreind og óskilgreind heilsuvandamál sín með umdeildum töflum. Fæðubótarefnin innihalda ekki þau næringarefni sem eru í matvælum. Þau koma ekki í stað þess að borða, sama hversu mikið slíkt væri auglýst. Þó sum fæðubótarefni geti hjálpað í einstaka tilvikum, gildir ennþá gullna reglan að borða fjölbreytta fæðu.
Fyrirbyggjandi fæða
Athyglisvert er að grasalæknar eru virtir að verðleikum hjá þessum samtökum. Einnig er ljóst að það mataræði sem Náttúrulækningafélagið mælir með er talið hafa mikil fyrirbyggjandi áhrif samkvæmt ályktunum þeirra sem standa að þessum samtökum og hafa mörg þeirra mælt með slíku mataræði til langs tíma. Það sem hér er verið að gagnrýna er í reynd auglýsingaskrumið, sem er þó mjög öflugt í markaðssetningu. Er talið að t.d. gigtarsjúklingar í Bandaríkjunum eyði fjórfalt meira í ýmis náttúruefni en gigtarlyf frá læknum. Það vekur einnig athygli þegar söluvelta þesara efna er skoðuð hve auðvelt virðist að selja fólki betri og "náttúrulegri heilsu" með því að selja því verksmiðjuframleiddar pillur háu verði! Fyrir rúmum tíu árum funduðu lyfjafræðingar og lyfsalar í Odda um hvort ætti að selja hollefni í apótekum. Niðurstaðan var sú að það væri æskilegt, því þá mætti veita fræðslu um efnin í leiðinni.
Þetta hlýtur að teljast mjög umdeilt, því ef það fæst í apótekinu gæti viðskiptavinurinn haldið að þetta sé í góðu lagi þegar ekki gefst tími fyrir fræðslu. Auglýsingabæklingarnir eru meira áberandi í apótekunum en upplýsingabæklingar um að ekki hafi tekist að sanna virkni tiltekinna efna hvað þá að þau geti verið vafasöm við tiltekin skilyrði. Einnig er álagningin mjög svipuð í apótekum og annars staðar, en hún er jafnan talin vera mjög há á þessum efnum, enda nauðsynlegur hluti markaðssetningar að auglýsa mikið. Mörg þessara efna seljast vel tímabundið en svo hríðfellur salan þegar dregið er úr auglýsingum.
Oft kemur fólk fram sem telur sig hafa læknast og vitnar um það í auglýsingum. Slíkt hefur verið gagnrýnt þar sem óvíst er að allir geti vænst þess að læknast á sama hátt. Þá skortir á hlutlausar rannsóknir á slíkum tilvikum.
Höfundur er matvælafræðingur