Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi bréf frá Vátryggingaeftirlitinu: "Efni: Auglýsingar og kynningarefni varðandi söfnunarlíftryggingar og sparnaðarlíftryggingar þegar vátryggingataki ber alla fjárfestingaráhættuna, og upplýsingar um ávöxtun.
Auglýsingar
og kynningarefni geta valdið misskilningiMorgunblaðinu hefur borist eftirfarandi bréf frá Vátryggingaeftirlitinu:
"Efni: Auglýsingar og kynningarefni varðandi söfnunarlíftryggingar og sparnaðarlíftryggingar þegar vátryggingataki ber alla fjárfestingaráhættuna, og upplýsingar um ávöxtun.
Vátryggingaeftirlitið hefur frá því að sala ofangreindra vátrygginga hófst að einhverju marki hér á landi, fylgst með auglýsingum og kynningarefni sem birst hefur frá líftryggingafélögum og vátryggingamiðlurum um þessar vátryggingar. Oft eru í þessum auglýsingum sett upp dæmi um háa ávöxtun og sýnt hvernig sparnaður vátryggingatakans vex jafnt og þétt. Hins vegar ber minna á upplýsingum um gjöld og kostnað sem vátryggingatakanum ber að greiða í tengslum við samninginn. Eftirlitið hefur ekki fram að þessu rekist á auglýsingu þar sem það er berum orðum tekið fram að vátryggingafélagið gefi engin loforð um ávöxtun, með öðrum orðum að fjárfestingaráhættan sé öll hjá vátryggingataka.
Vátryggingaeftirlitið telur að þessar upplýsingar og kynningarefni geti valdið misskilningi hjá neytendum á þann veg að þeir telji að einhverri ákveðinni ávöxtun sé lofað. Íslenskir neytendur eru yfirleitt illa kunnugir líftryggingum af þessu tagi en hafa vanist því að með líftryggingu sé átt við áhættulíftryggingu. Sú hugsun virðist nokkuð algeng hjá neytendum að þar sem verið sé að greiða iðgjald til líftryggingafélags hljóti félagið að ábyrgjast féð og ávöxtun þess með einhverju móti, og virðast þá margir líta þessi mál öðrum augum en ef um væri að ræða kaup á verðbréfum eða hlutabréfum milliliðalaust úr verðbréfa- eða hlutabréfasjóðum. Neytendur virðast t.d. almennt gera sér betur grein fyrir áhættunni þegar þeir kaupa sér hlutabréf. Staðreyndin er hins vegar sú, að í þessum vátryggingum ber líftryggingafélagið enga samningsábyrgð á því að féð ávaxtist, hvað þá að það ávaxtist með hárri prósentutölu áratugi fram í tímann! Félagið ber heldur enga samningsábyrgð á því þó að féð myndi rýrna. Það væri ábyrgðarlaust að gefa í skyn við neytendur að einhver slík loforð séu fyrir hendi.
Hér skal tekið fram að eftirlitið er ekki með þessu bréfi að halda því fram að starfsmenn vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara geti ekki um það í nánari kynningu á þessum vátryggingum að hér sé ekki um loforð að ræða, eða geti ekki um gjöld eða kostnað. Einnig er haft í huga að það kann að vera réttlætanlegt að vekja athygli á ákveðnum vátryggingum með áberandi auglýsingum þar sem e.t.v. er ekki mikið um upplýsingar enda um tiltölulega flókna vátryggingasamninga að ræða. Ef hins vegar einhverjar upplýsingar að ráði eru gefnar á annað borð mega þær ekki vera villandi. Almennt má segja að því nær neytandanum sem upplýsingarnar eru og því nær sem komið er að samningsgerð, því meiri kröfur verður að gera til ítarlegra upplýsinga. Til að forðast misskilning skal tekið fram að þetta bréf fjallar ekki um upplýsingaskylduna samkvæmt 60. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, henni ber í öllum tilvikum að fylgja af nákvæmni, hvað sem líður umfjöllun um auglýsingar og kynningu á vátryggingum.
Vátryggingaeftirlitið beinir þeim fyrirmælum til líftryggingafélaga og vátryggingamiðlara að framvegis verði þess ávallt getið í auglýsingum og kynningarefni um þessar vátryggingar að ekki séu gefin nein loforð um ávöxtun fjárins yfirleitt, eða með öðrum orðum að fjárfestingaráhættan sé alfarið hjá vátryggingataka."