REYKJAVÍKURBORG ákvað í upphafi þessa kjörtímabils að gerð skyldi umferðaröryggisáætlun til aldamóta, fjárhags- og framkvæmdaáætlun. Þessi áætlun er nú tilbúin og var hún samþykkt í Borgarráði 25. nóvember sl. Vert er að vekja athygli á að Reykjavík er fyrsta sveitarfélagið sem ræðst í slíkt verkefni og er það við hæfi að höfuðborg landsins sé frumkvöðull í umferðaröryggismálum.
Reykjavík í fararbroddi í umferðarmálum

Takmörk eru fyrir því hvað hægt er að gera með lagfæringum á umhverfinu. Margrét Sæmundsdóttir telur að þar vegi hegðun og viðhorf vegfarenda jafnvel þyngra.

REYKJAVÍKURBORG ákvað í upphafi þessa kjörtímabils að gerð skyldi umferðaröryggisáætlun til aldamóta, fjárhags- og framkvæmdaáætlun. Þessi áætlun er nú tilbúin og var hún samþykkt í Borgarráði 25. nóvember sl. Vert er að vekja athygli á að Reykjavík er fyrsta sveitarfélagið sem ræðst í slíkt verkefni og er það við hæfi að höfuðborg landsins sé frumkvöðull í umferðaröryggismálum. Reykjavíkurborg og ríkið vinna saman. Árið 1994 skipaði dómsmálaráðherra nefnd um stefnumörkun að bættu umferðaröryggi til ársins 2001. Í nefndinni sátu Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður sem var formaður, Brynjólfur Mogensen yfirlæknir, Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri, Margrét Sæmundsdóttir formaður umferðarnefndar Reykjavíkur og Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður. Starfsmenn nefndarinnar voru Þórhallur Ólafsson umdæmistæknifræðingur og formaður Umferðarráðs og Dr. Haraldur Sigþórsson verkfræðingur hjá borgarverkfræðingi. Skýrsla nefndarinnar "Umferðaröryggisáætlun til ársins 2000" kom út í febrúar 1995. Til þess að vinna að framgangi áætlunarinnar skipaði dómsmálaráðherra annan vinnuhóp til þess að endurskoða verkefni áætlunarinnar, sú nefnd gaf út skýrslu "Umferðaröryggisáætlun 1997­2001" sem var gefin út í febrúar 1997. Fljótlega eftir að umferðaröryggisáætlun fyrir Ísland kom út var farið að vinna að áætlun fyrir Reykjavík. Strax í upphafi var gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg myndi ekki láta nægja að gera eingöngu áætlun um umferðaröryggismál heldur skyldi fylgja henni fjárhags- og framkvæmdaáætlun sem er nýlunda hér á landi. Jafnframt ber þess að geta að frá því að vinna við áætlunina hófst árið 1995 hefur verið unnið í anda hennar að mörgum framfaramálum í borginni. Má þar nefna þá stefnu borgarinnar að auka umferðaröryggi innan hverfa m.a. með því að lækka leyfilegan hámarkshraða í íbúahverfum í 30 km með markvissum aðgerðum og átak í gerð göngu- og hjólastíga og byggingu göngubrúa. Ennfremur hafa aðgerðir sem gerðar hafa verið á aðalgatnakerfinu í samvinnu við vegagerðina aukið umferðaröryggi í borginni. Umferðaröryggi hefur forgang Reykjavíkurborg ver nú meira fé til umferðaröryggismála en áður. Árið 1996 var fjárveiting til smærri úrbóta í umferðaröryggismálum 40 milljónir og árið 1997 54 milljónir. Um er að ræða annars vegar kostnað við gerð 30 km svæða og hins vegar staðbundnar aðgerðir t.d. lagfæringum á stöðum þar sem slys og óhöpp eru óeðlilega mörg, stundum kallaðir "svartblettir" og aðgerðum sem Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir. Árið 1998 er gert ráð fyrir 85 milljónum til smærri umferðaröryggisverkefna. Kostnaður borgarinnar við gatna- og holræsaframkvæmdir árið 1997 er hins vegar 800 milljónir. Í umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík segir m.a. "Í Reykjavík verða að meðaltali rúmlega 2.000 umferðaróhöpp á ári. Þar af slasast fólk í rúmlega 280 tilvikum. Í þeim slasast 79 alvarlega og 5 slys enda með dauða innan 30 daga. Þetta eru háar tölur og áætlað hefur verið, að umferðarslys í Reykjavík kosti á bilinu 7­9 milljarða. Þá er persónulegur kostnaður meðtalinn og miðað er við verðlag ársins 1997. Það er því til mikils að vinna að fækka slysum í umferðinni í Reykjavík. Aðalatriðið er þó ekki þeir þættir, sem hægt er að meta til fjár. Sorg og sársauka, sem umferðarslys hafa í för með sér, er aldrei hægt að bæta. Árangur forvarna byggist á því að skipulega sé unnið að málum t.d. með því að skilgreina hvar slysin verða og hvað hægt sé að gera til þess að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Hins vegar vitum við að það eru takmörk fyrir því sem hægt er að gera með lagfæringum á umhverfinu. Hegðun og viðhorf vegfarenda skiptir í raun meira máli en góð umferðarmannvirki. Í umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík er vakin athygli á mikilvægi fræðslu og samvinnu þeirra sem vinna að bættri umferðarmenningu. Reykjavíkurborg mun halda áfram því samstarfi eins og hingað til. Umferðaröryggisáætlun er ein af þeim aðferðum sem beitt verður til þess að fækka slysum í Reykjavík og er það einlæg von okkar sem unnið hafa að þessu máli að okkur takist að ná því markmiði. Höfundur er varaformaður Skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur. Margrét Sæmundsdóttir