Rækjuvinnsla í gang á ný
Morgunblaðið.
Drangsnesi - Margt var um
manninn í rækjuvinnslu Hólmadrangs á Drangsnesi laugardaginn 29. nóvember sl. þar sem gestum var boðið upp á veislukaffi og að skoða húsið eftir þær miklu breytingar og endurbætur sem unnið hefur verið að undanfarið.
Vinna er hafin í rækjuvinnslu Hólmadrangs á Drangsnesi eftir um tveggja mánaða lokun. Gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði rækjuvinnslunnar, m.a. hefur verið skipt um efni á gólfum og veggjum ásamt því að breyta innra skipulagi vinnslunnar töluvert. Einnig er húsið nú hitað upp með umhverfisvænni orku í stað olíu áður en það er hitað upp með heitu vatni frá hitaveitu Drangsness en heitt vatn fannst á Drangsnesi sl. sumar.
Að sögn Gunnlaugs Sighvatssonar, framkvæmdastjóra Hólmadrangs, kostuðu þessar breytingar um 10 milljónir króna og taldi hann það vel sloppið. Reyndar væri ekki búið að gera dæmið endanlega upp en þetta ætti að vera nærri lagi.
GUNNLAUGUR Sighvatsson, framkvæmdastóri Hólmadrangs, og Sveinn Óskarsson, framleiðslustjóri rækjuvinnslunnar á Drangsnesi, voru að vonum ánægðir með breytingarnar á rækjuvinnslunni.