eftir Hildi Einarsdóttur. Kápumynd: Ívan Burkni. Útgefandi: Fróði hf. 1997, 135 síður. AÐ vera herra síns lífs í stað þræll einhvers annars er sjálfsagt draumur og þrá hverrar mannveru. En svarið, hvort það tekst, það er okkur flestum, ef ekki öllum, hulið. Höfundur bókar réttir okkur marga athyglisverða spurn um lífið, ­ lífsins lán.

Herra síns lífs

BÓKMENNTIR

Barnabók

Í ÖÐRUM HEIMI

eftir Hildi Einarsdóttur. Kápumynd: Ívan Burkni. Útgefandi: Fróði hf. 1997, 135 síður.

AÐ vera herra síns lífs í stað þræll einhvers annars er sjálfsagt draumur og þrá hverrar mannveru. En svarið, hvort það tekst, það er okkur flestum, ef ekki öllum, hulið.

Höfundur bókar réttir okkur marga athyglisverða spurn um lífið, ­ lífsins lán. Okkur er boðið í nálægð 11 ára barna, inn í bekk þeirra, þar sem verið er að móta þau til "manns". Öll teygja þau faðm móti ljóssins himni, framtíð glæstri, en ná svo mishátt, því mörg eru með byrðar, þungar byrðar á ungum herðum.

Um sviðið fer snáði sem er að aðlagast nýju umhverfi. Söknuður hans er ekki aðeins tengdur vinum bernskuslóðar, heldur einmanakennd, vegna tímaleysis móður; ­ fráfalls afa, sem verið hafði honum sem faðir. Að vísu hittast þeir, hann og afinn, ræðast við, þó gröf, faðmur jarðar, skilji heima þeirra að. Snáðinn ber sem sé með sér vöggugjöf, skyggni, sem skelfir margan, drengurinn talinn ýkinn, mýkri tjáning yfir hneykslanlega lyginn. Í skóla verður hann fyrir einelti, ­ er meira að segja þjófkenndur; lendir milli heims og helju, en er kallaður þaðan aftur, eftir að hafa heyrt lesna forskrift að lífi sjálfs sín, öldnum.

Skelfisögu dregur höfundur upp úr ísnálapytti sjálfselskra foreldra, sem eiga barni sínu ekkert að rétta annað en kröfur. Skelfirinn hrekst til margs sem bendir á ólánsbraut, ­ sér ekki réttan veg fyrir tárum vanlíðunar. Milli þessara aðalpersóna sögu flögra feimin, elskuleg börn, sem eru að reyna, eins og hinir tveir, að ná takti við eigin brjóst.

Hildur er snjall höfundur. Hún raðar ekki saman orðum, til þess að sjá bók eftir sig í hillu, heldur er hún rekin áfram af spurn, sem með boðföllum hefir farið um sál hennar, krafizt svars, hún fundið, og réttir nú lesandanum til endurskoðunar með sér.

Stíll hennar hleður söguna spennu, sem gleður unga lesendur, og er það vel, en aðal sögunnar tel eg vera, að hún vekur foreldrum spurnir um uppeldi og skóla. Því legg eg til, að bókin verði ekki aðeins borin í barnaherbergi, heldur líka á náttborð uppalandans, og ígrundi nú skólastjórar vel, hvort bókin eigi ekki erindi í kennslustofur.

Í kaflanum "Gengið á glerbrotum" er eg viss um, að höfundur hefði getað fundið hugsun sinni snjallari búning, ­ lýst afli hugans á ljúfari hátt. Háskaleikir eru teknir að skelfa mig.

Víst klífur Hringur hátt í fjall, en hæst er "fjall" Dýrleifs í mínum huga. Bráðvel skrifuð saga, og frábær mynd Ivans Burkna hæfa hvort öðru, svo stolt hlýtur útgáfan að vera.

Sig. Haukur

Hildur Einarsdóttir