SÚ LISTGREIN sem venjulega kallast arkitektúr, er ýmist nefnd húsagerðarlist eða byggingarlist á íslensku. Orðið arkitektúr felur ekki einungis í sér listræna mótun húsa heldur mótun alls hins manngerða umhverfis, allt frá skipulagi stórra svæða og borga til nákvæmrar útfærslu á húsum og innréttingum. Íslenska orðið yfir arkitekt er húsameistari.
Nám í arkitektúr

Eitt mikilvægasta verksvið arkitekta, segir Harpa Stefánsdóttir , er að fella alla þætti er koma að hönnuninni í rökræna og listræna heild. SÚ LISTGREIN sem venjulega kallast arkitektúr, er ýmist nefnd húsagerðarlist eða byggingarlist á íslensku. Orðið arkitektúr felur ekki einungis í sér listræna mótun húsa heldur mótun alls hins manngerða umhverfis, allt frá skipulagi stórra svæða og borga til nákvæmrar útfærslu á húsum og innréttingum. Íslenska orðið yfir arkitekt er húsameistari. Fyrsta arkitektastofa landsins var einmitt Húsameistari ríkisins en hún var lögð niður um síðastliðin áramót.

Megininntak byggingarlistar

Byggingarlist er ofin þremur megin þáttum: List, notagildi og tækni. Arkitekt þarf að skipuleggja og samræma nýtingu þeirra mannvirkja sem hann mótar, en jafnframt því þarf hann að kunna góð skil á byggingartækni. Eitt mikilvægasta verksvið arkitekta er að fella alla þætti er koma að hönnuninni í rökræna og listræna heild. Engin önnur stétt er sérstaklega menntuð til að hafa heildaryfirsýn yfir hönnun bygginga og manngerðs umhverfis.

Nám í arkitektúr

Ekki hefur hingað til verið möguleiki á að mennta sig í arkitektúr hérlendis þó mörgum finnist það undarlegt, þar sem arkitektúr tengist svo náið menningu og sérkennum hvers lands. Arkitektúr er eina greinin sem tengist byggingariðnaði á Íslandi þar sem ríkið tekur ekki þátt í fjármögnun til menntunar. Þetta er þó ein mikilvægasta greinin.

Samkvæmt tölum frá LÍN eru alls 48 manns í námi í arkitektúr, flestir langt komnir. Nemendum er hefja nám á ári hverju hefur farið fækkandi að undanförnu þar sem erfitt er að komast í skóla á Norðurlöndum, en það er mikið áhyggjuefni.

Nám í arkitektúr tekur 5­7 ár og er yfirleitt í tveimur hlutum. Í fyrri hluta námsins sem tekur um 3 ár er grunnurinn lagður. Þekking á grunnþáttunum þremur, listrænu samræmi, notagildi og tækni, er megininntakið. Námið skiptist til helminga milli hönnunarverkefna og greina í listum og byggingartækni. Nemandinn hannar einfaldar byggingar eða skipulag undir handleiðslu kennara og sækir fyrirlestra því tengt. Byggingartækninni tengjast ýmsar raungreinar, s.s byggingareðlisfræði, burðarþol o.fl. sem eru kenndar í formi fyrirlestra og stuttra verkefna. Fríhendisteikning, efnismeðferð, litanotkun og formfræði eru mikilvægar greinar í fyrri hluta námsins. Kennd er listasaga og byggingarlistasaga.

Seinni hlutinn tekur 2­4 ár. Þá vinnur nemandinn við stærri og flóknari verkefni, t.d. skipulagsverkefni (borgarskipulag), stór og flókin mannvirki (t.d. sundlaug, ópera, ráðhús), íbúðarhúsnæði, vistvænar byggingar, endurnýjun gamalla húsa o.s.frv.

Umræður og gagnrýni er mikilvægur þáttur í kennslunni. Áhersla er lögð á getu nemandans til að koma hugmyndum sínum frá sér í teikningar af raunverulegri byggingu eða skipulag og að allir þættir sem hafa áhrif á hönnunina myndi góða og listræna heild.

Í lok námsins vinnur nemandinn sjálfstætt viðamikið lokaverkefni þar sem hann hannar byggingu eða vinnur skipulagsverkefni. Hér á landi hefur tíðkast að nýútskrifaðir arkitektar kynni lokaverkefni sín opinberlega á sýningu á vegum Arkitektafélags Íslands.

Löggildur "arkitekt FAÍ"

Sótt er um leyfi til umhverfisráðuneytisins til að mega löglega kalla sig "arkitekt". Þá er hægt að sækja um inngöngu í Arkitektafélag Íslands (AÍ) en í félaginu eru alls 317 félagar, þar af eru 240 útskrifaðir arkitektar starfandi hérlendis. Samkvæmt núverandi byggingalöggjöf þarf tveggja ára starfsreynslu hjá öðrum arkitekt til að mega sækja um leyfi til að leggja teikningar fyrir byggingarnefndi.

ÍSARK og kennsla í byggingarlist á Íslandi

Í apríl 1994 stofnaði Arkitektafélag Íslands íslenska arkitektaskólann ÍSARK. Meginmarkmið ÍSARK er að koma á kennslu í byggingarlist á Íslandi. Stefnt hefur verið að námi innan Listaháskóla Íslands.

Í aðalatriðum hefur starfsemi ÍSARK hefur hingað til falist í því að haldin hafa verið 4 sumarnámskeið undir stjórn íslenskra arkitekta með þátttöku virtra erlendra arkitekta og kennara. Námskeiðin voru opin nemendum í seinni hluta náms sem stunda nám við erlenda arkitektaskóla.

Námskeiðin voru fjármögnuð að mestu leyti með styrkveitingum frá ýmsum stofnunum, en flestir styrkjanna voru aðeins veittir tímabundið. Ekki er hægt að halda fleiri sumarnámskeið nema sem þátt í starfsemi raunverulegs skóla.

Með sumarnámskeiðunum hefur verið lagður grunnur að mótun kennslu í byggingarlist á Íslandi og komist hafa á mikilvæg tengsl við erlendar mennastofnanir.

Stjórn Ísark mun á komandi vetri beina kröftum sínum að því að undirbúa jarðveginn fyrir stofnun viðurkennds arkitektaskóla á Íslandi. Í upphafi gæti námið verið 1­2 ár fyrir lengra komna nemendur sem stunda nám við erlenda arkitektaskóla. Leitað verður eftir samstarfi við erlenda skóla. Tekið verður mið af auknu samstarfi milli skólanna, m.a. með nemendaskipti í huga. Á meðan ekki verður hægt að hefja nám í arkitektúr hérlendis þarf að tryggja íslenskum nemendum aðgang að arkitektaskólum í nágrannalöndunum.

Árið 1995 fékk ÍSARK inngöngu í Nordisk Arkitekturakademi, samtök norrænna arkitektaskóla, sem ellefti arkitektaskólinn á Norðurlöndum. Þessi viðurkenning er mikilvægur lykill að frekara samstarfi. Á fundi samtakanna í vor var samþykkt viljayfirlýsing norrænu skólanna um samstarf við ÍSARK þegar hafin yrði vetrarkennsla hér.

Samtökin standa árlega fyrir samvinnuverkefni meðal nemenda og kennara norrænu skólanna. Eftir undirbúning að vetri til er komið saman að vori og unnið verkefni í viku (workshop). ÍSARK hefur verið falið að standa fyrir verkefninu árið 2000 og yrði það þá hluti af menningardagskrá Reykjavíkur.

Stjórn íslenska arkitektaskólans skorar á stjórnvöld að kynna sér málefni byggingarlistar og menntunar arkitekta á Íslandi og veita fé í svo mikilvæga menntun sem byggingarlistin er fyrir menningu okkar og framtíð.

Höfundur er formaður stjórnar ÍSARK, arkitekt FAÍ.

Harpa Stefánsdóttir