Sjóhetjur segja frá
BÓKMENNTIR
Endurminningar
SJÁVARNIÐUR OG SUNNANROK
eftir Jón Kr. Gunnarsson. 207 bls.
Skjaldborg. Prentun: Jana seta. Reykjavík, 1997. Verð kr. 3.480.
Bók þessi inniheldur viðtöl við fimm valinkunna sjósóknara eins og stendur á titilsíðu. Allir eiga sjósóknararnir það sameiginlegt að hafa stigið ölduna í misvindi, bæði á hafi úti og eins á lífsins ólgusjó, að minnsta kosti sumir hverjir. Þarna segir frá veiðum ýmiss konar, bæði kringum landið og eins við strendur fjarlægra landa í fjarlægum heimsálfum. Því víða liggja leiðir landans. Nokkuð er misjafnt hvað höfundi tekst að hafa upp úr sögumönnum sínum. Ég hefi aldrei verið mikið fyrir að tala um sjálfan mig, segir einn þeirra. Það var nú verri sagan því á því byggjast þættirnir að sögumenn fáist til að tala um sjálfa sig. Sem betur fer fyrir skrásetjarann stendur maðurinn þó ekki við orð sín heldur þvert á móti; hefur enda frá mörgu að segja, t.d. siglingum á stríðsárunum; og endist frásögn hans í lengsta þátt bókarinnar!
Næstlengstur og líka áhugaverðastur er hins vegar fyrsti þátturinn. Hefur skotið 1409 stórhveli heitir hann. Sögumaður er Kristján Þorláksson, fæddur í Súðavík vestra 1909. Kristján ólst upp við hvers konar veiðar á sjó og landi, þar með taldar refaveiðar. Kristján man tímana tvenna í flestum skilningi. Hann man frostaveturinn mikla 1918 og bjarmann frá Kötlugosinu sama ár. Skemmtilegust er þó frásögn Kristjáns fyrir þá sök að hann hefur haft augun opin fyrir undrum náttúrunnar og fegurð og friðsæld víðáttunnar. Þar við bætist að Kristján segir vel frá.
Hinir þættirnir eru of stuttir og of ágripskenndir, þar með talinn þáttur af Helga Jakobssyni sem kenndi Indverjum að fiska merkilegt efni sem mátt hefði gera ítarlegri skil.
Inngangsorðum höfundar þar sem t.d. segir að sjómennska er frábrugðin öllum öðrum störfum hefði vel mátt sleppa, öllum með tölu.
Erlendur Jónsson
Jón Kr. Gunnarsson