Finnskir jafnaðar-
menn tapa fylgi
Helsingfors. Morgunblaðið.
FINNSKIR kratar virðast ekki hafa
náð að bæta stöðu sína gagnvart kjósendum eftir að Arja Alho fjármalaráðherra varð að segja af sér fyrir nokkru. Nýjustu skoðanakannanir gefa i skyn að Miðflokkurinn hafi náð að festa sig í sessi sem stærsti stjórnmálaflokkurinn í Finnlandi.
Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í finnska ríkisútvarpinu á mánudaginn hefur Miðflokkurinn náð tæplega 24% fylgi. Á sama tíma hefur Jafnaðarmannaflokkurinn tapað nokkrum prósentustigum og fær tæplega 23% fylgi.
Könnunin sýnir einnig að fylgi hinna flokkanna hefur lítið sem ekkert breyst. Þriðji stærsti flokkurinn er eins og vanalega Hægriflokkurinn. Undanfarin kjörtímabil hefur hann setið til skiptis með krötum og Miðflokki í stjórn.
Ástæður minnkandi fylgis krata eru einkum tvær. Í fyrsta lagi hefur það vakið hneykslun að ráðherra flokksins skyldi leyfa að fyrrum flokksformaður yrði leystur undan því að greiða ríkissjóði um tíu milljónir finnskra marka í skaðabætur. Varð Arja Alho að segja af sér af þeim sökum og þótti mörgum stuðningur Paavos Lipponens forsætisráðherra og flokksformanns við Alho ekki við hæfi.
Í öðru lagi er talið að sú stefna Lipponens að Finnar verði þátttakendur í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) hafi hrætt kjósendur. Miðflokkurinn hefur hins vegar lýst yfir efasemdum um ágæti aðildar að EMU og virðist njóta góðs af því hjá kjósendum.