Eftir Kristján Gíslason. Forlagið 1997, 204 blaðsíður. ÚT ER komin bókin "Ofurlaxar og aðrir smærri" eftir Kristján Gíslason fluguhnýtara og fyrrum verðlagsstjóra. Þetta er hans þriðja bók og eins og hinar fyrri, hugsuð fyrir áhugamenn um stangaveiði. Stangaveiðimenn eru fjölmennur hópur hér á landi og hefur farið fjölgandi í þeirra röðum hin seinni ár.
Sitthvað gerist
á bökkum vatnannaBÆKUR
Veiðisögur
STANGAVEIÐI, OFURLAXAR OG AÐRIR SMÆRRI
Eftir Kristján Gíslason. Forlagið 1997, 204 blaðsíður.
ÚT ER komin bókin "Ofurlaxar og aðrir smærri" eftir Kristján Gíslason fluguhnýtara og fyrrum verðlagsstjóra. Þetta er hans þriðja bók og eins og hinar fyrri, hugsuð fyrir áhugamenn um stangaveiði.
Stangaveiðimenn eru fjölmennur hópur hér á landi og hefur farið fjölgandi í þeirra röðum hin seinni ár. Það er aðeins skammur tími ársins sem þeir njóta sín þó sumir reyni að teygja á því með því að hefja veiðiskap snemma á vorin og veiða langt fram á haust. Menn sem haldnir eru mikilli veiðidellu þurfa eitthvað til að slaka á yfir dimmu mánuðina og því á Kristján þakkir skildar fyrir að reyna að leysa úr því samkvæmt sinni bestu getu.
Í heild séð hafði ég ánægju af lestri bókarinnar og nokkrum sinnum megnaði Kristján að fleyta mér aftur á árbakkana sem allir veiðimenn þrá. Helst gerði hann það með fallegum náttúrustemmum sem eru þó nokkrar í bókinni og sýna að Kristján er þeirri gáfu gæddur að geta litið upp úr straumnum af og til og njóta dýrðlegrar náttúrunnar og gera sér grein fyrir í hve mikilli þakkarskuld hann er í við almættið að hafa sett hann niður norður í Dumbshafi, með veiðidellu, og ríkulegar aðstæður til að sinna sínu kalli.
Og hann vill deila því með þeim sem við getum kallað þjáningarbræður hans, því stangaveiðimenn þjást eimitt mánuðina löngu. Þeir þjást af eftirvæntingu eftir því að lífið kvikni á nýjan leik með hækkandi sól.
Ég ætla ekki að fara að vitna í eitt eða neitt í þessum pistli, menn lesa bókina hver fyrir sig og dæma sjálfir, en mér sýnist bókin bæði hafa kosti og galla. Er rétt að tína til kostina fyrst, enda sýnist mér þeir fleiri en gallarnir og skipta hana að auki miklu mun meiru.
Til að mynda eru nokkrar virkilega skemmtilegar veiðisögur í bókinni. Dæmi er um laxinn sem hafði "tailerinn" á braut með sér. Þá sögu hafði ég áður heyrt, en óbotnaða.
Áður er getið um náttúrustemmur Kristjáns. Þær eru margar fallegar og hitta í mark ef menn eru rétt stemmdir yfirleitt. Þær eru ekki væmnar eins og marga hefur hent. Í samræmi við þá virðingu sem höfundurinn ber fyrir náttúrunni kann ég vel að meta að hann skrifar um laxinn eins og viti borinn andstæðing.
Þá þykir mér fengur í litmyndum og frásögnum um tilurð margra af flugum Kristjáns, en hann ber ábyrgð á ýmsum af veiðnari laxaflugum samtímans. Ádrepur Kristjáns varðandi svívirðilega meðferð á Elliðaánum og undarlega atburðarás tengdri hafbeitarstöðinni í Hraunsfirði á Snæfellsnesi missa heldur ekki marks í þessu samhengi.
Þá vil ég nefna, að stíll Kristjáns er mjög auðlesinn. Kaflar eru margir og yfirleitt stuttir. Hann er ekki fyrir langar setningar og orðskrúð. Kemur sér fljótt og vel að efninu, svona yfirleitt a.m.k., en einmitt á þessum punkti tíni ég til þá galla sem ég sé á bókinni. Sá fyrsti varðar einnig stílinn sem áður var lofaður. Bókin er eins og fyrri bækur Kristjáns í einhvers konar sendibréfastíl til "frænda". Undirrituðum fannst oft og tíðum hann vera að lesa annars manns póst og þótti ekki þægilegt. Eins og efnið ætti ekkert erindi til mín.
Þá fannst mér, og þótti leitt, langtímum saman í bókinni afar lítið vera um að vera, veiðisögur flatneskjulegar og varla í frásögur færandi. Kaflarnir um bleikjuveiðina eru m.a. undir þessa sök seldir.
Loks vil ég nefna ákveðinn tón sem stundum kveður við hjá Kristjáni. Ég veit ekki hvernig best er að koma orðum að því; hroki, háð? Ef til vill of sterk orð. Þegar ég las fyrri bækur Kristjáns fann ég fyrir þessu, en hélt kannski að ég væri of dómharður. Svo heyrði ég á fleirum að þeir voru sama sinnis.
Framan af þessari bók bar nánast ekkert á þessu og þótti mér það gífurlegur kostur við bókina því umræddur tónn er hvimleiður. En svo fór draugurinn á kreik.
Dæmi um þetta eru vangaveltur höfundar um það hver þáttur veiðifélaga eigi að vera við löndun á laxi. Dæmisaga er rakin þar sem Kristján tekst á við stórlax austur á Iðu, en ókunnugur maður situr álengdar og hefur sig ekki í frammi. Svo fer að lokum að Kristján missir laxinn og hefði þó aðkomumaðurinn í tvígang getað rölt að fiskinum á grunnu vatni og tekið hann í land. Kristján leiðir að því ótvírætt getum að ókunnugi veiðifélaginn hafi borið þarna nokkra ábyrgð, lætur hann meira að segja heyra það. Þessi frásögn sló undirritaðan hins vegar þannig að aumingja maðurinn hafi verið kurteisin uppmáluð og Kristjáni í lófa lagt að óska eftir aðstoð. Raunar er það niðurstaða Kristjáns eftir allt saman, en það gerir frásögnina fremur mótsagnakennda, að ekki sé minnst á þau orð að þar með færist ábyrgð mistaka á "réttan aðila, þ.e.a.s. veiðimanninn með fiskinn á stönginni", eins og Kristján kemst að orði.
Þetta var í kaflanum "Löndun" og þennan tón er einnig að finna í kaflanum "Vordraumar". Þar finnst mér gæta fínlegs háðs þegar umræðan er um vonir og væntingar veiðimanna sem bíða þess að vertíðin hefjist. Kannski er Kristján gæddur svona hábeittri kímnigáfu sem undirritaður kann lítt að meta.
Ég reikna með því að veiðimenn muni fremur lesa bókina af ánægju heldur en hitt. Þá skemmir ekki að bókin er vel prófarkalesin og brotin upp með hressilegum veiðimyndum, sem þó eru afar misgóðar.
Guðmundur Guðjónsson
Kristján Gíslason