JÓN Loftsson skógræktarstjóri segir fjölmargar vitleysur að finna í greininni í Geographical. Gagnrýnir hann harðlega ummæli sem höfð eru eftir Huga Ólafssyni, talsmanni umhverfisráðuneytis um skógræktarstarf á Íslandi. "Það eru þarna fullyrðingar sem standast engan veginn.
Jón Loftsson skógræktarstjóri Fullyrðingar sem standast engan veginn

JÓN Loftsson skógræktarstjóri segir fjölmargar vitleysur að finna í greininni í Geographical . Gagnrýnir hann harðlega ummæli sem höfð eru eftir Huga Ólafssyni, talsmanni umhverfisráðuneytis um skógræktarstarf á Íslandi. "Það eru þarna fullyrðingar sem standast engan veginn. Þarna eru greinilegar rangfærslur, hvort sem þær eru settar fram vitandi eða óafvitandi," segir hann.

"Þetta á að vera rit sem vill láta taka sig alvarlega. Þessi manneskja hafði aldrei samband við okkur. Hún hefur staðið á Skeiðarársandinum og beðið eftir að eitthvað gerðist. Eitthvað varð að gera á meðan beðið var og eflaust hefur verið mikið spjallað við menn í Skaftafelli," segir hann.

Jón bendir m.a. á að ranglega sé frá því sagt að Skaftafell sé fyrsti og vinsælasti þjóðgarður landsins. Hið rétta sé að Þingvellir séu fyrsti þjóðgarður landsins og vinsælastur í hugum Íslendinga.

Fráleit umfjöllun um lúpínuna

Jón segir umfjöllun blaðsins um alaskalúpínuna fráleita. Ætla megi af greininni að stór hluti alls landsins sé að hverfa undir lúpínu. Skv. athugun sem gerð hafi verið á seinasta ári megi áætla að öllu samanlögðu að lúpínufræum hafi verið sáð í 10 þúsund hektara lands sem svari til 0,1% af heildarflatarmáli landsins. "Þarna fær enskur lesandi villandi skilaboð," segir hann.

"Lúpínubreiðurnar í Skaftafelli eru að fóstra upp mjög öflugt birki, sem er núna búið að fá góðan forða af köfnunarefnisnæringu. Mesti skaðinn sem hefur gerst í þeim herferðum sem þarna hefur verið farið í er að menn hafa slegið og eyðilagt mikið af ungu birki sem er að ná sér upp í lúpínubreiðunum."

Jón gerir einnig athugasemdir við þá staðhæfingu sem höfð er eftir talsmanni umhverfisráðuneytis að megináhersla í skógrækt sé lögð á ræktun jólatrjáa. "Stærsta skógræktarverkefni landsins í dag, sem er á vegum Skógræktarfélags Íslands, er Landgræðsluskógaverkefnið, en þar er náttúrulegt íslenskt birki yfir 90% af því sem plantað er. Þau friðunaráform og aðgerðir sem eru í gangi í dag hafa fyrst og fremst að markmiði að friða og stækka birkiskógana. Svo eru sérstakir og valdir staðir þar sem aðrar erlendar tegundir eru ræktaðar, sem geta gefið meira og betra timbur. Það eina sem við gerum er að við höfum hjálpað þessu yfir hafið enda tilheyrum við barrskógabeltinu á norðurhveli jarðar."

Jón bendir einnig á og segir út í hött að uppbygging mannvirkja á Skeiðarársandi í kjölfar jökulhlaupsins í fyrra kosti 15 milljarða bandaríkjadala, eins og segir í greininni. Einn og hálfur milljarður íslenskra króna væri nær lagi.