Spielberg ásakað-
ur um ritstuld
TVEIMUR dögum fyrir áætlaða
frumsýningu "Amistad", myndar Stevens Spielbergs, í desember verða aðstandendur hennar að mæta fyrir rétti í Los Angeles og færa sönnur fyrir því að handritið sé ekki byggt á skáldsögu Barböru Chase-Riboud "Echo of Lions". Ef þeim tekst ekki að hrekja mál rithöfundarins verður sett lögbann á myndina og hún ekki frumsýnd þann 10. desember nk.
Chase-Riboud ásakar Spielberg og handritshöfundinn David Franzoni um ritstuld og fer fram á 10 milljónir dollara í skaðabætur. Chase-Riboud skrifaði sögulega skáldsögu sína um þrælaskipið Amistad árið 1989. Hún heldur því fram að kvikmyndin noti "uppbyggingu og rennsli" "Echo of Lions" auk þess að nota "skáldaðar persónur, atburði, og sambönd" úr bókinni.
Chase-Riboud hefur ráðið lögmanninn Pierce O'Donnell til að fara með mál sitt en hann vann svipað mál fyrir átta árum. Þá fór O'Donnell með mál Arts Buchwalds sem höfðaði mál gegn Paramount fyrir að stela hugmyndum sínum og nota þær í "Coming to America". Að sögn lögmannsins hafa margir leitað til hans vegna svipaðra mála síðustu ár en hann taldi ekkert þeirra standast fyrir rétti. "Þetta er fyrsta málefnalega kæran sem ég hef fengið í hendurnar í 10 ár. Staðreyndirnar í þessu máli styðja mál Chase-Ribouds. Það eru til sönnunargögn sem sýna ritstuld."
Það sem styrkir mál Chase- Riboud helst er yfirlýsing frá handritshöfundinum Benjamin Pettis sem segist hafa lagt til við framleiðslufyrirtæki Dustins Hoffmans, Punch Productions, árið 1992 að gera kvikmyndina "Echoes of Lions". Stjórnendur Punch sýndu áhuga á skáldsögu Chase-Ribouds og réðu David Franzoni til að skrifa handrit en ekkert varð síðan úr framkvæmdinni, en Franzoni skrifaði handritið að kvikmynd Spielbergs. Lögmaður Franzoni segir skjólstæðing sinn aldrei hafa heyrt af bókinni "Echo of Lions" og hann hafi sagt söguna á eigin forsendum í handritinu.
Chase-Riboud heldur því einnig fram að vinkona sín, bókmenntaritstjórinn Jacqueline Kennedy Onassis, hafi kynnt skáldsöguna fyrir stjórnendum Amblin Entertainment, sem Spielberg átti, en menn þar á bæ hefðu hafnað þeirri hugmynd að hægt væri að byggja kvikmynd á henni.
Stjórnendur DreamWorks, sem Spielberg rekur nú í félagi við aðra, neita öllum ásökunum um ritstuld. Þeir segja kæru Chase-Ribouds fáranlega og hún geti ekki talið sig eiga einkarétt á raunverulegum, sögulegum atburðum. Þeir segja einnig að þrátt fyrir að ítarlegar rannsóknir hafi verið gerðar á því efni sem til væri um uppreisnina á Amistad fyrir myndina hafi þeir aldrei heyrt um eða lesið "Echo of Lions". Þegar bókin kom út hlaut hún mjög góðar viðtökur og seldist í 500.000 eintökum.
KANNSKI "Amistad" komi aldrei í bíó.