LEIDARI UPPLÝSINGAGJÖF HLUTAFÉLAGA Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því, að Verðbréfaþing sé að setja nýjar reglur um skráningu hlutabréfa og miða þær breytingar að því að herða kröfur, sem gerðar eru vegna skráningar hlutabréfa.
LEIDARI UPPLÝSINGAGJÖF HLUTAFÉLAGA

Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því, að Verðbréfaþing sé að setja nýjar reglur um skráningu hlutabréfa og miða þær breytingar að því að herða kröfur, sem gerðar eru vegna skráningar hlutabréfa. Gera má ráð fyrir, að frekari breytingar verði á þeim reglum, sem gilda um fyrirtæki, sem skráð eru á Verðbréfaþingi, m.a. í sambandi við upplýsingagjöf fyrirtækja.

Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka skrifaði grein hér í blaðið hinn 11. nóvember sl. þar sem hann hvatti til þess, að reglur um tíðni uppgjöra, sem birt eru opinberlega, yrðu hertar. Taldi bankastjórinn í grein sinni eðlilegt að stefnt yrði að því, að hlutafélög birtu uppgjör á þriggja mánaða fresti.

Um upplýsingagjöf fyrirtækja sagði Valur Valsson m.a.: "Upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja er því alltilviljanakennd og ber þess nokkur merki, að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi er enn ungur og í mótun. Þótt hann hafi vissulega þróazt hratt er ýmislegt, sem betur má fara."

Það liggur í augum uppi, að þegar um er að tefla miklar fjárhæðir, sem fjárfestar leggja fram til kaupa á hlutabréfum, hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki, lífeyrissjóði eða aðra, skiptir miklu máli, að upplýsingagjöf þeirra fyrirtækja, sem skráð eru á Verðbréfaþingi sé ítarleg og traust. Fjárfestar eiga kröfu á að svo sé og því aðeins nær hlutabréfamarkaðurinn að festa sig í sessi, að allir þeir aðilar, sem að honum koma finni að upplýsingar um rekstur fyrirtækja séu aðgengilegar.

Í Morgunblaðinu í fyrradag birtist frásögn af hlutahafafundi Íslenzkra sjávarafurða hf. Á fundinum var spurt um kaupverð franska fyrirtækisins Gelmer, sem miklar sviptingar urðu um fyrir nokkrum vikum, eins og menn muna. Í frétt Morgunblaðsins sagði um svör forstjóra Íslenzkra sjávarafurða: "Í fyrsta lagi vísaði hann til blaðafregna um að ÍS hefði borgað 100 milljónir franka fyrir Gelmer eða 1.200 milljónir og sagði þær fjarri sanni, kaupverðið hefði verið mun lægra. Sagði hann síðan, að fyrirtækið hefði verið keypt fyrir nokkur hundruð milljónir."

Er þetta fullnægjandi svar fyrir Verðbréfaþing, hluthafa og fjárfesta? Hvað felst í svarinu? Var kaupverðið nokkur hundruð milljónir að meðtöldum yfirteknum skuldum? Eða greiddi ÍS "nokkur hundruð milljónir" fyrir fyrirtækið fyrir utan yfirtöku skulda? Ef svarið byggist á því má spyrja, hvort hægt sé að tala um þá greiðslu sem kaupverð. Og hvað felst í orðunum "nokkur hundruð milljónir"?

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram, að upplýst hafi verið á hluthafafundinum, að kaupverðið væri trúnaðarmál. En getur fyrirtæki á Verðbréfaþingi samið um slíkan trúnað? Það hlýtur að vera erfiðleikum bundið fyrir bæði hluthafa og hugsanlega nýja fjárfesta að hafa yfirsýn yfir málefni fyrirtækis, sem gefur ekki ítarlegri upplýsingar um fjárfestingu, sem verður að teljast umtalsverð. Ef Íslenzkar sjávarafurðir væri lokað fyrirtæki, sem ekki væri skráð á Verðbréfaþingi, gæti enginn gert athugasemdir á borð við þessar. En þar sem fyrirtækið er skráð á markaðnum og er þar að auki að fara út í nýtt hlutafjárútboð hlýtur sú spurning að vera réttmæt, hvort upplýsingar af þessu tagi séu fullnægjandi fyrir alla aðila.

RÉTTINDI SJÚKLINGA

FYRRADAG fóru fram umræður á Alþingi um aðbúnað sjúklinga á sérgreinasjúkrahúsum í Reykjavík. Ásta R. Jóhannesdóttir hélt því fram, með tilvísun í upplýsingar frá landlækni, að aðbúnaður bráðasjúklinga á þessum sjúkrahúsum væri óviðunandi. Athuganir leiði í ljós, að í lok vakta vistist sjúklingar, sem svarar heilli legudeild, á göngum, í skotum og á baðherbergjum. "Ítarleg rannsókn leiddi í ljós", sagði þingmaðurinn, "að fjórði hver sjúklingur vistast við slíkar aðstæður", og að oft er um verulega veikt fólk að ræða. Heilbrigðisráðherra viðurkenndi að þetta gæti gerzt um skamman tíma, en allt væri þó gert til þess að sjúklingar fengju aðstöðu við hæfi.

Lengi undanfarið hefur fjárveitingavaldið lagt sig fram um að halda útgjöldum vegna heilbrigðismála í skefjum. Deilur hafa á hinn bóginn staðið bæði um verklag og meintan árangur í þeirri viðleitni. Það eitt að Alþingi ræðir málefni sérgreinasjúkrahúsa af því tilefni, sem að framan greinir, bendir til þess, að tímabært sé að staldra við og rétta af kúrsinn. Nýsamþykkt lög um réttindi sjúklinga eru góðra gjalda verð. En Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið sem löggjafarvaldið, verður að tryggja með viðunandi hætti, að þessi réttindi séu hin sömu á borði og í orði. Annað er óviðunandi.