"IÐNLÁNASJÓÐUR kveður og þakkar fyrir samstarfið" segir á forsíðu Iðnlánasjóðstíðinda, sem nýkomin eru út og þá væntanlega í síðasta sinn. Við hlutverki Iðnlánasjóðs tekur Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., sem nýstofnaður er, en í blaðinu er samtal við Braga Hannesson forstjóra sjóðsins, en hann hefur verið tengdur rektri hans beint og óbeint í heil 40 ár.
»Iðnlánasjóður kveður "IÐNLÁNASJÓÐUR kveður og þakkar fyrir samstarfið" segir á forsíðu Iðnlánasjóðstíðinda, sem nýkomin eru út og þá væntanlega í síðasta sinn. Við hlutverki Iðnlánasjóðs tekur Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., sem nýstofnaður er, en í blaðinu er samtal við Braga Hannesson forstjóra sjóðsins, en hann hefur verið tengdur rektri hans beint og óbeint í heil 40 ár. Bragi Hannesson var ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna árið 1958, þá nýútskrifaður lögfræðingur. Fjórum árum síðar var hann skipaður í nefnd til að endurskoða lög um Iðnlánasjóð og tóku lögin gildi 1963 eða sama ár og Bragi er ráðinn bankastjóri Iðnaðarbankans ásamt Pétri Sæmundsen og bankinn sá um daglegan rekstur Iðnlánasjóðs. Árið 1984 tóku bankastjórar Iðnaðarbankans upp verkaskiptingu og kom þá sjóðurinn í hlut Braga. Sex árum síðar er Íslandsbanki stofnaður og starfsemi sjóðsins fluttist í eigið húsnæði. Frá ársbyrjun 1990 hefur Bragi verið forstjóri Iðnlánasjóðs.

Krossgötur VIÐTALIÐ við Braga Hannesson nefnist "Krossgötur". Þar segir hann m.a.: "Margt er enn ógert til að jákvæð þróun á fjármagnsmarkaðinum sé tryggð, svo sem setning nýrrar löggjafar um Seðlabankann til að tryggja sjálfstæði hans í starfi og ákvarðanatöku, endurskoðun löggjafar um sparisjóði til að jafna starfsskilyrði þeirra og bankanna, sameining banka- og tryggingaeftirlits og síðast en ekki síst setning nýrrar löggjafar um lífeyrissjóðina, þar sem m.a. yrðu settar skýrar reglur um fjárfestingarstefnu þeirra og starfsemi.

Öll skilyrði eru fyrir hendi til að hraða sölu hlutafjár í ríkisbönkunum að því marki sem lög heimila. Skilningur erlendra lánastofnana á hlutafjárvæðingu bankanna og afnámi ríkisábyrgðar á nýjum lánum auðveldar þessar aðgerðir. Bankar þurfa jafnframt að losna sem fyrst undan pólitískri stjórn, sem fylgir eignarhaldi ríkisins á hlutafénu.

Samkeppni á frjálsum fjármagnsmarkaði mun há bönkunum sem eru alfarið í eigu ríkisins. Um það vitnar reynslan bæði hér heima og erlendis."

Ekki setztur í helgan stein LOKS er Bragi spurður um framtíðina. Hann segir: "Ég hef verið önnum kafinn við rekstur Iðnlánasjóðs og undirbúning að stofnun Fjárfestingarbankans. Samruni peningastofnana gerist ekki á einni nóttu . . . Hvað framundan er hjá mér sjálfum mun tíminn leiða í ljós. Eitt er þó alveg víst; ég hyggst ekki setjast í helgan stein."