ÉG LAS um daginn lærða grein í Morgunblaðinu eftir ungan hagfræðing sem starfar erlendis. Hann rakti í alllöngu máli hvernig veiðileyfum er úthlutað án endurgjalds til útgerðarmanna og svo reiknaði hann sig í gegnum opinberar afkomutölur í sjávarútvegi og komst að þeirri niðurstöðu að útgerðin í landinu ætti ekki fyrir veiðileyfagjaldi sem hið opinbera kynni að leggja á.
Meiriháttar skattheimta

Ég skil ekki svona rökstuðning, segir Sigurður Björnsson . Þetta er eins og að byrja lestur í miðri bók.

ÉG LAS um daginn lærða grein í Morgunblaðinu eftir ungan hagfræðing sem starfar erlendis. Hann rakti í alllöngu máli hvernig veiðileyfum er úthlutað án endurgjalds til útgerðarmanna og svo reiknaði hann sig í gegnum opinberar afkomutölur í sjávarútvegi og komst að þeirri niðurstöðu að útgerðin í landinu ætti ekki fyrir veiðileyfagjaldi sem hið opinbera kynni að leggja á. Í grein hagfræðingsins unga kom fram skilmerkilegur rökstuðningur fyrir þessari skoðun hans. Rökstuðningurinn var á þessa leið:

"Nýir menn sem vilja hefja útgerð þurfa fyrst að kaupa kvóta af útgerðarmanni sem fyrir er í greininni og í það fer mestallur væntur hagnaður næstu ára af rekstri hins nýbakaða útgerðarmanns. Því verður ekkert eftir til þess að greiða með veiðileyfagjald til eiganda auðlindarinnar."

Hópur hagsmunaaðila á vegum Verslunarráðs komst að svipaðri niðurstöðu. Að sjávarútvegurinn stæði ekki undir veiðileyfagjaldi núna. Þeir gefa sér sömu forsendur og hagfræðingurinn ungi.

Ég skil ekki svona rökstuðning. Þetta er eins og að byrja lestur inni í miðri bók. Kjarni málsins er auðvitað sá að það er óþolandi að útgerðarmenn innheimti skatta í formi veiðileyfagjalds og að þeim sé gert það kleift með gjöfum frá ríkinu. Dæmi um það birtast í fréttum á hverjum degi. Skatturinn er innheimtur af þeim sem eru að yfirgefa greinina og hinum sem eru að braska á annan hátt með kvóta. Þessi skattur nemur milljörðum króna á ári og hefur lagst með mestum þunga á landsbyggðina. Þaðan flytja skattheimtumennirnir féð og festa m.a. í verslunarhúsnæði í Reykjavík eins og nýleg dæmi eru um. Útgerðarfyrirtækin munu svo hafa nóg með að greiða niður skuldirnar sem urðu til við að kaupa kvótana.

Þetta er meiriháttar skattheimta og minnir á skattheimtu gamalla lénsherra á miðöldum. Þessir sömu menn beita svo þeim rökum gegn veiðileyfagjaldtöku ríkisins, að það verði bara nýr skattur á landsbyggðina. Um gegndarlausan gróðann af veiðileyfasölunni vilja útgerðarmenn helst ekki ræða, en nefna tekju- og eignaskatta þegar að þeim er saumað. Umræðan er orðin harla einkennileg. En ég skil útgerðarmenn vel. Þeim var boðið til þessarar veislu og vilja njóta veitinganna einir. En ég skil ekki vörslumenn almannahagsmuna, alþingismennina, að leyfa þessu að viðgangast.

Höfundur er rekstrarfræðingur.

Sigurður Björnsson