SALA Rosneft í Rússlandi, síðasta stóra olíufélagsins í eigu rússneska ríkisins, getur orðið harðasta viðureignin til þessa í umdeildri baráttu fyrir einkavæðingu. Fréttir um leynifundi og baktjaldamakk fjármálajöfra hafa birzt á forsíðum rússneskra blaða og áhugi almennings á málinu hefur aukizt. Sala Rosneft gæti bjargað valdhöfunum í Kreml úr alvarlegum fjárhagsvandræðum.


Búizt við hörðum slag

um Rosneft í Rússlandi



Moskvu. Reuters.

SALA Rosneft í Rússlandi, síðasta stóra olíufélagsins í eigu rússneska ríkisins, getur orðið harðasta viðureignin til þessa í umdeildri baráttu fyrir einkavæðingu.

Fréttir um leynifundi og baktjaldamakk fjármálajöfra hafa birzt á forsíðum rússneskra blaða og áhugi almennings á málinu hefur aukizt.

Sala Rosneft gæti bjargað valdhöfunum í Kreml úr alvarlegum fjárhagsvandræðum. Borís Jeltsín forseti hefur lofað að greiða öll laun frá ríkinu, sem eru í vanskilum, fyrir árslok 1997 og ef það tekst ekki bíður hann alvarlegan álitshnekki.

70-100 milljarðar króna

Talið er að ágóði af Rosneft sölunni verði 70-100 milljarðar króna og hann mun fylla upp í göt á rússneskum fjárlögum. Hluta ágóðans mætti nota til að greiða laun í vanskilum og rússneska ríkisstjórnin leggur kapp á að salan fari fram sem fyrst.

Lagaleg og pólitísk atriði flækja málið. Enn hefur ekki verið tilkynnt hvenær fyrsta útboð muni fara fram og smáatriði eru ófrágengin. Þrír mánuðir eiga að líða frá því tilkynnt verður um söluna og þar til henni á að ljúka að sögn forstjóra Rosneft, Júríj Bespalovs.

Yfirvöld í Moskvu vilja forðast skítkast í fjölmiðlum og hneykslismál, sem hafa einkennt fyrri ríkisútboð. Ef uppboðið verður flausturslegt eykst hættan á því að sagan ndurtaki sig.

Því fyrr sem einkavæðing Rosneft fer fram, því betra," sagði Sergei Kirijenko eldsneytis- og orkuráðherra á blaðamannafundi nýlega. Samkeppnin verður mjög hörð og einhverjir hljóta að móðgast."