"ÞAÐ hefur ekkert verið gefið út af lögum við þessi gömlu íslensku jólaljóð. Mér finnst þetta svo skemmtileg ljóð og þau eru í raun fyrir alla. Við notum svo mikið af amerískum og þýskum jólalögum, eins og Heims um ból og Rúdolf með rauða nefið, með þýddum textum. Það eru til svo fá íslensk jólalög að ég ákvað að fara út á bókasafn og skoða gömul jólaljóð.

Jólalög í þjóðlegum stíl

Fyrir skömmu kom út jólaplata með lögum Óskar Óskarsdóttur við íslensk jólaljóð. Platan er í senn afar þjóðleg og talsvert ólík hefðbundnum jólaplötum.

"ÞAÐ hefur ekkert verið gefið út af lögum við þessi gömlu íslensku jólaljóð. Mér finnst þetta svo skemmtileg ljóð og þau eru í raun fyrir alla. Við notum svo mikið af amerískum og þýskum jólalögum, eins og Heims um ból og Rúdolf með rauða nefið, með þýddum textum. Það eru til svo fá íslensk jólalög að ég ákvað að fara út á bókasafn og skoða gömul jólaljóð. Það er svolítill þjóðrembingur í þessu en málið er að ég hef gefið diskinn til Ameríku og þar er fólk alveg stórhrifið af lögunum. Finnst þau frumleg og þjóðleg og líkar mjög vel. Ég nota mikið fimmundir sem þykir séríslensk röddun," sagði Ósk Óskarsdóttir um hugmyndina á bakvið geislaplötuna.

Geislaplatan heitir Með ósk um gleðileg jól og innheldur 11 rammíslensk jólalög. Fyrsta jólalagið gerði Ósk við ljóð Einars Braga árið 1984 en það var svo fyrir þremur árum að hún fór að vinna að geislaplötunni. "Ég keypti mér adat-tæki og tók lögin að mestu upp í stofunni hjá mér þegar ég hafði tíma til þess. Ég er þriggja barna móðir og húsmóðir og þess vegna tók þennan tíma að fullvinna plötuna," sagði Ósk en undirspil á plötunni er að mestu leyti í hennar höndum auk þess sem hún syngur og raddar öll lögin sjálf.

Ósk segist venjulega setjast við píanóið með ljóð fyrir framan sig og semja í kringum það. "Þetta er hálfgerður spuni. Ég set mig í ákveðnar stellingar og set mig inn í ljóðið. Í laginu Jólasveinarnir hefur til dæmis hver jólasveinn sitt lag eða stef en þetta eru 37 þulur. Maður þarf því að setja sig inn í jólastemmninguna og lifa sig inn í hana þegar maður semur lag við jólaljóð."

Meðal þeirra sem eiga ljóð á plötunni er hinn sjötugi Siglfirðingur Bjarni Marinó Þorsteinsson. "Hann hafði mjög gaman af þessu framtaki og er sjálfur búinn að selja um sextíu geisladiska á Siglufirði," sagði Ósk en það er Hljómalind sem annars sér um dreifingu plötunnar. Geisladiskurinn er gefinn út af Ósk sjálfri og er fjármögnun hans algerlega í hennar höndum. "Ég keypti diskinn af fyrirtæki í Flórída í gegnum netið og reyndi að finna ódýrustu aðilana. Það gekk mjög vel og svo fékk ég Kassagerðina til að búa til hulstrin. Tökur fóru að mestu leyti fram hérna heima í stofu og því er hljóðverskostnaður í lágmarki en ég fór nokkrum sinnum í Fellahelli og gerði nokkra grunna því ég er með svo gamalt og náttúrulega falskt píanó. Þetta kostar mikið en með útsjónarsemi er hægt að gera þetta," sagði Ósk ánægð með árangurinn og viðtökurnar.

Morgunblaðið/Einar Falur ÓSK Óskarsdóttur fannst vanta jólaplötu með íslensk um lögum við íslensk jólaljóð.

MYNDINA á umslagi plötunn ar málaði Mary Kent af hinni einu sönnu Grýlu.