Á ALÞJÓÐADEGI fatlaðra er rétt að leiða hugann að aðbúnaði þeirra sem enn búa á stærstu sólarhringsstofnun landsins fyrir fatlað fólk, sem er Kópavogshæli. 1952 var hælinu komið á fót til að bæta úr brýnni þörf á aðbúnaði fyrir þroskahefta. Það var þeirra tíma úrræði að byggja stóra stofnun að fyrirmynd þess sem gert var í nágrannalöndunum.
Hvers eiga íbúar Kópavogshælis að gjalda?

Varhugavert er, segir Ólafur Kristinsson , að stilla fötluðu fólki upp hverju á móti öðru.

Á ALÞJÓÐADEGI fatlaðra er rétt að leiða hugann að aðbúnaði þeirra sem enn búa á stærstu sólarhringsstofnun landsins fyrir fatlað fólk, sem er Kópavogshæli.

1952 var hælinu komið á fót til að bæta úr brýnni þörf á aðbúnaði fyrir þroskahefta. Það var þeirra tíma úrræði að byggja stóra stofnun að fyrirmynd þess sem gert var í nágrannalöndunum. Ég er ekki að segja að þeir sem stóðu að uppbyggingu Kópavogshælis hafi ekki unnið í góðri trú um að þeir væru að gera það besta sem hægt var fyrir þetta fólk og aðstandendur þeirra á þessum tíma.

En stofnun Kópavogshælis varð til þess að þroskaheft fólk var flutt þangað víðsvegar að af landinu. Foreldrar og ættingjar höfðu lítil tök á að heimsækja ástvini sína, sem á stofnuninni bjuggu, víðsfjarri heimahögum.

Á þessum 45 árum frá stofnun Kópavogshælis hefur þjóðin unnið sig upp í velsæld og þjóðartekjur sem eru með þeim hæstu í vestrænum heimi.

En íbúar Kópavogshælis hafa í litlu notið þessarar velsældar. Ætíð hefur verið þröngbýlt á hælinu og lengst af verið undirmannað hvað starfsfólk varðar. Sem dæmi um aðstöðu þá býr dóttir mín á deild þar sem eru 11 mikið fjölfatlaðir einstaklingar í ca. 160 fermetra rými.

Lengst af hefur mátt líta á Kópavogshæli sem geymslustað fyrir fatlað fólk. Það er ekki laust við að maður haldi að sú hugsun sé til staðar hjá stjórnvöldum enn þann dag í dag. Sumir sem fóru á hælið áttu þangað ekkert erindi, en ekki var um aðra staði að velja og með tímanum urðu þeir innlyksa þar.

Í 20 ára tíð Foreldra- og vinafélags Kópavogshælis hefur þjónusta við íbúa hælisins smátt og smátt verið að aukast. Fyrir röggsemi félagsmanna, sjálfboðavinnu og fjársöfnun var byggð sundlaug við hælið. Fyrir erfðafé sem ánafnað var íbúum Kópavogshælis voru keypt öll tæki til sjúkraþjálfunar á hælinu. Fyrir fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra var byggður verndaður vinnustaður á hælinu. Og fyrir fé úr sama sjóði hafa verið gerðar margvíslegar endurbætur á húsakosti hælisins.

Með breytingum á lögum um málefni fatlaðra, er samþykkt voru á Alþingi í maí 1992, var Kópavogshæli undanskilið frá lögunum. Það var skilgreint sem sjúkrastofnun, en ekki sem vistheimili fyrir fatlaða eins og það hafði verið áður. Þetta var gert án þess að gera neinar samþykktir um rétt allra þeirra fötluðu einstaklinga er þar dvelja. Í dag, 5 árum frá gildistöku laganna, sé ég ekki að dóttur minni og öðrum sem þarna búa, hafi verið tryggður sami réttur og öðrum fötluðum. Þ essu misrétti var mótmælt við gerð laganna. Það hefur ítrekað verið leitað aðstoðar félagsmálaráðherra til að koma á fót réttindagæslu fyrir þetta fólk. Þeirri beiðni hefur í engu verið sinnt.

Stjórnarnefnd ríkisspítala samþykkti á haustmánuðum 1992 að leggja Kópavogshæli niður og hefja þar aðra starfsemi. Heilbrigðisráðherra staðfesti samþykktina og fól stjórnarnefnd að skipa nefnd til að útfæra betur tillögur sínar um framtíðarfyrirkomulag Kópavogshælis og hefja viðræður við félagsmálaráðuneytið um flutning íbúanna þaðan.

Samkomulag var gert milli ráðuneyta í mars 1995 um flutning 37 heimilismanna af Kópavogshæli. Enn eru eftir 14 af þessum lista.

Ráðherra félagsmála, Páll Pétursson, hefur alla sína ráðherratíð þumbast gegn flutningi fólks af sjúkrastofnuninni Kópavogshæli út í samfélagið. Komið hefur fram í máli Páls Péturssonar opinberlega, bæði á málþingum og í skrifum hans í blöð, að langir listar fatlaðs fólks í heimahúsum hefðu forgang fram yfir íbúa Kópavogshælis.

Þjónusta við íbúa hælisins kostar ákveðna upphæð. Þótt íbúarnir flytji í annað húsnæði og rekstur heyri undir annað ráðuneyti er ekkert sem segir að það þurfi að vera dýrara. Stöðugildi á Kópavogshæli hafa verið fengin til að þjónusta þetta fólk og eiga því að fylgja með þegar það flytur. Heilbrigðisráðuneyti getur útvegað ný stöðugildi fyrir nýja starfsemi á hælinu og á ekki að velta sínum vanda yfir á málaflokk fatlaðra.

þó að ríkissjóður þurfi að leggja í talsverð útgjöld við að byggja yfir íbúa Kópavogshælis annarstaðar, fær Landspítalinn mikið húsrými og góða aðstöðu á Kópavogshæli sem byggt hefur verið fyrir fé úr sjóðum fatlaðra.

Nú í góðærinu er rétti tíminn fyrir þjóðina og ríkisstjórn að gera átak í málefnum fatlaðra, leysa úr húsnæðisvanda þeirra sem þurfa aðra búsetu og efla þjónustu við þá sem þess þurfa. Það er varhugavert að stilla fötluðu fólki upp á móti hverju öðru um forgangsröðun, þegar nægir fjármunir eru til í þjóðfélaginu til að leysa allan þeirra vanda. Vilji er allt sem þarf.

Það hefur stundum verið sagt þegar fólk, sem minna má sín, er órétti beit: "Svona gera menn ekki".

Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir; að hver maður eigi kröfu til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Jafnframt er í yfirlýsingunni lagt bann við mismunun sem vísar sérstaklega til fatlaðra.

Höfundur er í stjórn Foreldra- og vinafélags Kópavogshælis.

Ólafur Kristinsson