Kvennakór Reykjavíkur ásamt Sólrúnu Bragadóttur og Matrial Nardeau undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur og Rut Magnússon við undirleik Svönu Víkingsdóttur fluttu jóla- og helgisöngva. Mánudagurinn 1. desember 1997.
Friður, friður
FrelsaransTÓNLIST
Hallgrímskirkja
AÐVENTUTÓNLEIKAR
Kvennakór Reykjavíkur ásamt Sólrúnu Bragadóttur og Matrial Nardeau undir stjórn Sigrúnar Þorgeirsdóttur og Rut Magnússon við undirleik Svönu Víkingsdóttur fluttu jóla- og helgisöngva. Mánudagurinn 1. desember 1997.
JÓLAAÐVENTAN hófst með tónleikum Kvennakórs Reykjavíkur í Hallgrímskikju sl. sunnudag en undirritaður mætti á aðra tónleika kórsins sl. mánudagskvöld. Tónleikarnir hófust á íslensku þjóðlagi, Hátíð fer að höndum ein, í ágætri raddsetningu Hildigunnar Rúnarsóttur. Bæði lagið og reyndar 1. vísan, en Jóhannes úr Kötlum jók við þetta stef fjórum vísum, er augljóslega af þeirri gerðinni, sem kölluðust viðlög, eins og sjá má af skyldleika viðlaganna við stefbrot eins og Held ég mér í hurðarhring og Úti' ert þú við eyjar blá og mörg önnur bragsvipuð viðlög. Þá er það til fróðleiks athugandi, hvort lagið sjálft sé ekki í raun dansstef, eins og dr. Sigríður Valgeirsdóttir hefur bent á, því laghátturinn, þrískiptur og með punteruðuðum einkennum miðalda danslaga, bendir sterklega til þess að svo geti verið. Til að þetta sé ljóst, þarf að leika lagið nokkuð hraðar en nú var gert og með leikandi hljóðfalli.
Efnisskráin var nokkuð hefðbundin og reyndar í sama formi og Kvennakór Reykjavíkur hefur komið sér upp og má þar til nefna lög eins og María í skóginum, Vögguljóð Maríu eftir Reger, sem Sólrún Bragadóttir söng mjög fallega, Komið þið hirðar, Ó, helga nótt eftir Adam, sem einnig var sérlega vel sungið af Sólrúnu Bragadóttur, frönsku jólalögin Kom með kyndil og Englakór frá himnahöll og Friður, friður Frelsarans, lag eftir Mendelssohn, í raddsetningu eftir Willkocks. Kórinn, ásamt Sólrúnu, söng þessi lög mjög fallega, en í heild var flutningur þeirra við hægari mörkin, svo að það vantaði jólagleðina í sum lögin.
Íslensku lögin, sem voru einn fallegasti þáttur tónleikanna, voru tvö lög eftir Atla Heimi Sveinsson, við Haustvísur til Maríu, við texta eftir Einar Ólaf Sveinsson og Maríukvæði Halldórs Laxness og það þriðja var Jól eftir Jórunni Viðar, við kvæði eftir Stefán frá Hvítadal, en um lagið fléttar Jórunn fallega flautsóló, sem Martial Nardeau lék mjög fallega. Tvö verk af nýrri gerðinni voru á efnisskránni, Salve Regina eftir bastneska tónskáldið Javier Busto og Regina angelorum eftir finnska tónskáldið Pekka Kostiainen, ágæt tónverk, en þessi ekki of "moderne" og því líkleg til að þjóna sem inngangur að erfiðari verkum á þeim vettvangi. Flutningur Kvennakórsins á þessum lögum var hinn ágætasti, en fram til þessa hefur Kvennakór Reykjavíkur ekki fengist mikið við að syngja nútímlegri kórverk.
Senjóríturnar, eldri kvenna-kórinn, sungu þrjú lög og þó tónstaðan vægi stundum salt var söngur þeirra í heild, undir stjórn Rut Magnússon, fallega hljómandi, en viðfangsefnin voru Jólaljóð hirðingjanna í raddsetningu Róberts A. Ottóssonar, Ó Jesúbarn blítt eftir Eyþór Stefánsson og ítalska lagið Heilög Lúsía.
Auk fyrrnefndra laga söng Sólrún Bragadóttir einsöng í hinu fræga Alleluja eftir meistara Mozart og gerði það með glæsibrag. Sú aðferð Kvennakórsins að enda tónleikana með flautuleik, varð til þess að flautueinleikur Martials Nardeaus þjónaði eins og útgöngumars og ysinn og þysinn, er fylgdi útgöngu kórs og tónleikagesta, yfirgnæfði flutning Nardeaus á tveimur þáttum úr h-moll svítunni eftir meistara J.S. Bach.
Nýr stjórnandi hefur tekið við af Margréti Pálmadóttur, en Sigrún Þorgeirsdóttir stýrir nú kórnum. Söngur kórsins var í alla staði vel vandaður og fallega hljómandi en vantaði fyrri líflegheit. Þrátt fyrir það er ljóst, að Sigrún er efnilegur stjórnandi, sem á vonandi eftir að sýna sig í erfiðari verkefnum er gat að heyra að þessu sinni.
Jón Ásgeirsson