DOMINIQUE Strauss-Kahn, fjármálaráðherra Frakklands, segir að Evró-x ráðið, sem Frakkar og Þjóðverjar vilja koma upp, verði aðeins óformlegur samráðsvettvangur aðildarríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU). Hinn formlegi vettvangur ákvarðanatöku verði eftir sem áður ráðherraráð efnahags- og fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna.
Franskur ráðherra um Evró-x

Aðeins samráðs-

vettvangur

Salamanca, Spáni. Reuters.

DOMINIQUE Strauss-Kahn, fjármálaráðherra Frakklands, segir að Evró-x ráðið, sem Frakkar og Þjóðverjar vilja koma upp, verði aðeins óformlegur samráðsvettvangur aðildarríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU). Hinn formlegi vettvangur ákvarðanatöku verði eftir sem áður ráðherraráð efnahags- og fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna.

Kahn segir að ákveðið sé að ESB-ríki utan EMU fái ekki aðgang að Evró-x. "Það er ekki hægt að ráðherra lands með annan gjaldmiðil taki þátt í viðræðum á milli ríkja með sama gjaldmiðil. Það er ekki sanngjarnt," segir Strauss-Kahn, sem var staddur á leiðtogafundi Frakklands og Spánar í Salamanca.

Engin málamiðlun

Strauss-Kahn segir að ekki komi lengur til greina að gera neinar málamiðlanir við ríkin fjögur, sem sennilegt er að verði utan EMU, þ.e. Bretland, Danmörku, Svíþjóð og Grikkland. "Við reyndum að útskýra fyrir þeim að við værum reiðubúnir að upplýsa þau, en það féll þeim ekki, þannig að við upplýsum þau bara ekki neitt. Búið mál," segir fjármálaráðherrann.

Gert er ráð fyrir að Evró-x haldi óformlega fundi sína fyrir formlega fundi ráðherraráðs ESB, þar sem öll aðildarríki sambandsins eiga sæti. Strauss-Kahn segir að það, sem fram fari á fundunum, verði ekki neitt leyndarmál og að greint verði frá efni viðræðnanna á fundum ráðherraráðsins. "Engar ákvarðanir verða teknar [í Evró-x]. Ákvarðanir verða teknar í ráðherraráðinu," segir hann.