SALURINN er þéttsetinn fólki. Á sviðinu mundar hljómsveitin, á að giska sjötíu manns, hljóðfæri sín. Einn hóstar, annar ræskir sig, einstaka tónn er gefinn. Skyndilega klappa allir ­ einleikarinn gengur í salinn. Þetta er frumraun hans, "debut", og adrenalínið streymir um æðar.
Einræða

víólunnar

Guðmundur Kristmundsson víóluleikari þreytir frumraun sína sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Háskólabíói í kvöld kl. 20. Orri Páll Ormarsson fór að finna hann en það er ekki á hverjum degi sem víólan er í aðalhlutverki á sinfóníutónleikum.

SALURINN er þéttsetinn fólki. Á sviðinu mundar hljómsveitin, á að giska sjötíu manns, hljóðfæri sín. Einn hóstar, annar ræskir sig, einstaka tónn er gefinn. Skyndilega klappa allir ­ einleikarinn gengur í salinn. Þetta er frumraun hans, "debut", og adrenalínið streymir um æðar. Hann þarf á öllu sínu að halda, tækninni, þjálfuninni, öllum tilfinningunum sem hann á í brjósti ­ hans stærsta stund er upp runnin!

Þessa stund "sannleikans" hafa margir tónlistarmenn upplifað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói ­ í kvöld er röðin komin að Guðmundi Kristmundssyni víóluleikara.

"Það er alveg rétt, stærsta stund tónlistarferils míns er í uppsiglingu," segir Guðmundur sem seint verður talinn til nýgræðinga í tónlist, hefur leikið á óteljandi tónleikum með Bernardel-kvartettinum, Caput-hópnum, Camerartica og Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hann hefur gegnt stöðu uppfærslumanns víóludeildar um nokkurra ára skeið. Einleikurinn er aftur á móti ný áskorun.

"Það er mikill heiður að fá tækifæri til að koma fram sem einleikari með hinum frábæru kollegum mínum í Sinfóníuhljómsveit Íslands," heldur Guðmundur áfram. "Það er mjög sérstök tilfinning að spila með fólki sem maður gjörþekkir og upphaflega hélt ég að pressan á mér yrði meiri fyrir vikið, þar sem allir vita hvers ég er megnugur. Þegar á hólminn var komið áttaði ég mig aftur á móti á því að þetta er þægilegra en að spila með ókunnugri hljómsveit enda hafa straumarnir frá kollegum mínum verið mjög góðir."

Ótrúlegur!

Ekki spillir hljómsveitarstjóri kvöldsins, Bandaríkjamaðurinn Sidney Harth, fyrir, að áliti Guðmundar. Í hálfa öld hefur hann verið í hópi fremstu fiðluleikara Vesturheims, margrómaður einleikari og konsertmeistari við nafnkunnar hljómsveitir, auk þess að láta sífellt meira að sér kveða sem stjórnandi í seinni tíð. "Harth er í einu orði sagt ótrúlegur, þannig að umgjörð tónleikanna er í alla staði eins og best verður á kosið."

Guðmundur kveðst aldrei hafa alið þann draum í brjósti að verða einleikari að atvinnu. "Þar fyrir utan eru ekki til mörg verk fyrir einleiksvíólu, að minnsta kosti ekki í samanburði við einleiksfiðlu. Víóluleikarar spila hins vegar þeim mun meira af kammermúsík og á þeim vettvangi fáum við oft tækifæri til að spreyta okkur sem einleikarar, þótt það sé með allt öðrum hætti en í konsertum. Ég hef því reynslu af að láta í mér heyra!"

Verkið sem Guðmundur mun flytja í kvöld er Víólukonsert Béla Bartóks ­ "eitt stærsta verk víólubókmenntanna," svo sem einleikarinn segir sjálfur. Var tónskáldið orðið helsjúkt þegar það tók til við að semja konsertinn um miðbik fimmta áratugar aldarinnar, að beiðni víóluleikarans Williams Primrose, og entist reyndar ekki aldur til að ljúka við hann. Þess má til gamans geta að Harth hljómsveitarstjóri og Primrose þekktust ágætlega á sínum tíma.

Það kom síðan í hlut nemanda Bartóks og vinar, Tibors Serleys, að raða hugmyndum meistara síns saman og ljúka verkinu.

Að sögn Guðmundar hafa margir haft horn í síðu konsertsins, þar sem Bartók lauk ekki við hann sjálfur. "Verkið mun hafa verið í óreiðu þegar Serley kom að því, blaðsíður ónúmeraðar og þar fram eftir götunum. Menn greinir því á um hversu "heillegur" konsertinn sé. Það breytir því hins vegar ekki að verkið hefur alla tíð verið mikið flutt og notið vinsælda."

Mikið frelsi

Guðmundur segir Víólukonsert Bartóks bjóða upp á mikið frelsi ­ líkir hann verkinu við einræðu, að minnsta kosti tveimur fyrstu köflunum. "Þetta er óhefðbundinn konsert að því leyti að einleikarinn er að nánast í gegnum allt verkið, stundirnar milli stríða eru stuttar og fáar. Maður getur varla hugsað sér meiri einleik."

Þótt Guðmundur hafi ekki flutt konsertinn í annan tíma er hann ekki að koma að honum í fyrsta sinn. "Ég lærði konsertinn í Hollandi á sínum tíma, þar sem ég var við nám hjá ungverska víóluleikaranum Ervin Schiffer. Lét hann mig læra verkið þar sem allir víóluleikarar fengju, fyrr eða síðar, tækifæri til að spreyta sig á því. Lengi vel var ég ekki bjartsýnn á að þau orð væru sönn en nú hafa þau ræst ­ í það minnsta hvað mig varðar!"

Jafnframt eru á efnisskrá tónleikanna í kvöld Trilogia piccola eftir Jón Leifs, samið á árunum 1919-24, og Sinfónía nr. 5 eftir Pjotr Tsjajkovskíj, sem frumflutt var í Pétursborg árið 1888, við dræmar undirtektir gagnrýnenda. Áheyrendur hafa aftur á móti alla tíð tekið verkinu vel.

Morgunblaðið/Árni Sæberg SIDNEY Harth hljómsveitarstjóri gefur Guðmundi Kristmundssyni víóluleikara holl ráð á æfingu. Harth þekkti fiðluleikarann sem Béla Bartók samdi Víólukonsertinn fyrir.