»NÚ ER að ganga í hönd sá árstími er hlutabréfakaup einstaklinga hafa náð hámarki. Viðskipti hafa í gegnum tíðina verið hvað mest í desember þó að nokkur breyting virðist ætla að verða þar á nú.
ÐÁramótaverðtíð hlutabréfa»NÚ ER að ganga í hönd sá árstími er hlutabréfakaup einstaklinga hafa náð hámarki. Viðskipti hafa í gegnum tíðina verið hvað mest í desember þó að nokkur breyting virðist ætla að verða þar á nú.
Þeir verðbréfamiðlarar sem Morgunblaðið ræddi við telja að desembermánuður verði ekki jafn fjörugur í hlutabréfaviðskiptum og undanfarin ár, þó svo að viðskipti muni væntanlega alltaf aukast nokkuð.
Tvær ástæður eru nefndar til sögunnar. Í fyrsta lagi hafi mun fleiri einstaklingar þegar keypt hlutabréf þetta árið. Fjölmörg hlutafjárútboð hafi verið fyrr á árinu þar sem boðið hafi verið upp á hagstæð greiðslukjör. Þannig hafi t.d. um 6.000 einstaklingar tekið þátt í hlutafjárútboði Samherja fyrr á þessu ári, en sem dæmi má nefna að um 17.000 einstaklingar nýttu sér skattafrádrátt vegna hlutafjárkaupa árið 1996.
Þetta sé og í takt við þá þróun sem orðið hafi á undanförnum árum og t.d. hafi það gerst í fyrsta sinn á síðasta ári að desembermánuður hafi ekki verið stærsti viðskiptamánuður ársins. Hlutabréfaviðskiptin hafi því verið að dreifast mun betur yfir árið nú en áður.
Þá er ekki talið ólíklegt að lækkanir undangenginna mánaða muni fæla einstaklinga frá hlutabréfakaupum nú. Á undanförnum árum hafi verið hægt að vísa til nær samfelldrar hækkunar hlutabréfa en því sé ekki að skipta nú.
Á móti kemur hins vegar að hlutabréfakaup eru langtímafjárfesting, nema um spákaupmennsku sé að ræða. Séu fjárfestar almennt að horfa til þess að eiga viðkomandi bréf í þau þrjú ár sem þarf til að nýta skattaafsláttinn, þá eru skammtímasveiflur ekki afgerandi í ávöxtun bréfanna.
Í hverju á að fjárfesta
Í nýjasta tölublaði Vísbendingar er rætt um jólaverslun með hlutabréf. Greinarhöfundur segir að í því kapphlaupi sem verið hafi undanfarin áramót hafi oft gleymst að hlutabréf þurfi ekki endilega að vera heppilegasta leiðin til sparnaðar. Hlutabréf séu áhættusöm fjárfesting og gengi þeirra geti oft sveiflast mikið. Þau hafi hins vegar að jafnaði gefið hærri ávöxtun en skuldabréf til lengri tíma litið.
Verði hlutabréfin fyrir valinu verði fjárfestar einnig að velta því vel fyrir sér í hverju sé rétt að fjárfesta. Greinarhöfundur segir að því megi halda fram að allar fjárfestingar undir 5 milljónum króna ættu að vera í hlutabréfasjóði til að ná betri áhættudreifingu.
Ef litið er til þess hvaða árangri hlutabréfasjóðir hafa náð það sem af er þessu ári hefur besta ávöxtunin verið tæp 13%. Þetta er nokkru minni ávöxtun en náðst hefur á undanförnum árum en skýrist eðlilega af þeim lækkuum sem orðið hafa á undanförnum mánuðum.
Nánari útlistun á ávöxtun sjóðanna má sjá í meðfylgjandi töflu en rétt er að hafa í huga að ávöxtun í fortíð segir lítið til um hvernig ávöxtun viðkomandi sjóða muni verða í framtíðinni.
Ekki búist við hækkunum í desember
Nokkuð hefur borið á því að sögn verðbréfamiðlara að fjárfestar séu að bíða eftir hækkunum á gengi hlutabréfa vegna eftirspurnarþrýstings frá einstaklingum í desember. Virðist sem fjölmargir ætli að nota tækifærið og selja hlutabréf sín, komi til einhverra hækkana.
Á móti er hins vegar bent á að jafnvel þó svo rætast muni úr eftirspurn eftir hlutabréfa í desember þá muni framboð bréfa væntanlega halda aftur af hækkunum.
Því er ekki líklegt að hækkanir verði miklar á hlutabréfum í desember. Hækkanir á þingvísitölu hlutabréfa á síðasta ársfjórðingi síðasta árs voru litlar, þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir bréfum, og lækkaði þingvísitalan til að mynda síðustu dagana í desember.
ÞV