Michael Owen
skærasta
stjarnan
í Liverpool
Michael Owen, miðherjinn ungi hjá Liverpool, er skærasta stjarna enska félagsins um þessar mundir. Steinþór Guðbjartsson kynnti sér pilt og umsagnir um hann.
Þótt miðherjinn sé rétt að byrja ferilinn er þegar farið að ræða um að pilturinn, sem verður 18 ára um miðjan desember, eigi eftir að verða enn betri en Ian Rush og Robbie Fowler. "Við erum nú með þrjá góða miðherja og ekki í neinni sérstakri röð," sagði Roy Evans, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir að Owen hafði gert þrennu í 3:0 sigri á Grimsby í Coca-Cola bikarnum á dögunum, en Fowler og Karlheinz Riedle hafa fengið óvænta samkeppni. Riedle, sem á glæstan feril að baki síðan hann varð heimsmeistari með Þýskalandi 1990, samgleðst samt stráknum. "Hann er frábær og ég hef ekki séð betri mann á hans aldri. Hann er aðeins 17 ára og með það í huga er erfitt að gera sér í hugarlund hvað hann á eftir að verða góður." Glenn Hoddle, landsliðsþjálfari Englands, hafði Owen með hópnum í undirbúningum fyrir vináttulandsleikinn við Kamerún fyrir skömmu og hann á mikla möguleika á að verða yngsti A-landsliðsmaður Englands.
Eðlileg framkoma
Þrátt fyrir skyndilega frægð er pilturinn jarðbundinn. Hann er í umsjón manna sem vilja honum vel og hann tekur vel ráðleggingum þeirra. Evans verndar hann og vill hlífa honum með því að láta hann sleppa leik og leik. Terry, faðir hans og ma. fyrrverandi leikmaður Everton en nú útsendari Liverpool, hefur reynst honum vel. "Hann tók mig afsíðis og sagði mér hvað væri rétt að gera og ég vissi að ég gæti treyst því sem hann sagði," sagði Owen við enska dagblaðið The Times .
Terry kom því til leiðar að sonurinn er með einn virtasta umboðsmann á Englandi, þann sama og starfar m.a. fyrir Alan Shearer og David Platt. Owen er með samning við íþróttavörufyrirtækið Umbro, sem gerir sig út fyrir að semja við heilsteypta menn frekar en þá sem eru umdeildir á einhvern hátt. Shearer er flaggskip fyrirtækisins en Owen, sem er hreinskilinn og heldur sig við staðreyndir, ýtir öllum samanburði við miðherja Newcastle til hliðar. "Ég hef alltaf verið svona. Ég hef aldrei verið með neina tilgerð í viðræðum eða á velli framkoman er mér eðlileg."
Owen þykir ekki síst áhugaverður vegna þess sem hann segir og hvernig hann segir hlutina. Hann er skýr og vingjarnlegur piltur, sem er vinsæll og virtur í vinahópi, en ákveðni hans og markviss einbeitni er í engu samræmi við aldurinn sem veit á gott varðandi framtíðina í fótboltanum. Þessir hæfileikar hans eiga augljóslega ekki eftir að víkja fyrir ærslagangi, drykkju eða óþroskaðri framkomu sem t.d. Paul Gascoigne, fyrirmynd Owens á leikvelli, hefur átt í erfiðleikum með.
Enginn getur sagt fyrir um meiðsl en Owen er ungur maður, sem geislar af sjálfsöryggi og virðist hafa vald yfir örlögum sínum. "Ég var sannfærður um að ég stæði mig þegar ég var valinn í byrjunarliðið í fyrsta sinn," sagði hann í fyrrnefndu viðtali. "Ég hef alltaf haft trú á sjálfum mér. Ég hef ávallt búið mig undir að verða atvinnumaður og þegar ég fékk tækifærið var sjálfsöryggið í lagi. Árangurinn á líðandi tímabili kemur mér heldur ekki á óvart ég átti von á honum. Ég hef fundið fyrir meiri virðingu á tímabilinu en áður en er áfram jarðbundinn. Ég bý í foreldrahúsum nálægt Chester og hef í hyggju að halda því áfram, því ég virði fjölskyldu mína meira en allt annað. Ég á enn sömu vinina og vil trúa því að ég hafi ekki breyst of mikið. Og ég breytist ekki núna. Ég hef alltaf viljað vera knattspyrnumaður og ávallt búið mig undir það. Margir tala um mikilvægi menntunar en ég virðist ekki hafa séð tilganginn með henni. Næði ég ekki að vera atvinnumaður í knattspyrnu vildi ég starfa að knattspyrnumálum. Ég hef aldrei verið úti á lífinu og ég hugsa ekki mikið um þá staðreynd að ég gæti verið á kránni með félögunum. Ég hef alltaf viljað vera knattspyrnumaður og fylgjandi mynstri verður ekki breytt. Gott er að vera stilltur inná aga frá byrjun og það lærði ég af pabba."
Sjálfsöruggur
Owen var í knattspyrnuskóla Knattspyrnusambands Englands í Lilleshall í tvö ár. Hann lék síðan nokkra leiki með varaliði Liverpool, en fékk fyrsta leik sinn með aðalliðinu, þegar það sótti Wimbledon heim í maí sem leið, og skoraði 17 mínútum eftir að hafa verið skipt inná. Markið var til vitnis um að það væri byrjunin á einhverju sérstöku.
Pilturinn skoraði úr vítaspyrnu í fyrsta leik tímabilsins og hefur gert mótherjunum lífið leitt með hraða sínum og öryggi. Hann hræðist ekkert, ekki einu sinni stærstu viðburðina. Hann skoraði í fyrri leik Liverpool á móti Celtic í Evrópukeppni félagsliða og lék svo vel í fyrstu 10 leikjunum að Evans átti í erfiðleikum með að taka hann úr liðinu. Þegar Fowler var tilbúinn fór Riedle á bekkinn en ekki Owen. "Menn verða að einblína á toppinn," sagði Owen. Trúi menn því að þeir séu betri en hvaða mótherji sem er er hálfur sigur unninn. Þetta er lykilatriði. Ég fer í leik með því hugarfari að spila eins vel og ég get. Standi ég mig vel geri ég ráð fyrir að vera með í næsta leik. Stjórinn á sér ekki uppáhaldsleikmenn og standi leikmaður sig er hann valinn aftur burtséð frá því hverjir aðrir koma til greina."
Þegar Owen var krakki var hann áhangandi Everton og heillaðist af Graeme Sharp og Andy Gray en Gascoigne varð fyrirmyndin eftir að hafa sýnt snilldartakta í Heimsmeistarakeppninni 1990. Owen æfði fyrst með enska landsliðinu fyrir leikinn við Ítalíu í riðlakeppni HM í október og viðurkenndi að hann hefði verið agndofa þegar hann hitti goðið og æfði með hetjunni. "Michael var ekki á röngum stað allan tímann," sagði Gascoigne.
Nýr kafli
Nýr kafli er tekinn við hjá Owen. Fyrir tímabilið setti hann sér það markmið að leika 12 leiki með aðalliði Liverpool. Hann hefur þegar náð því. Næsta takmark er að ná 24 leikjum á tímabilinu og hann hefur ekki gefið upp vonina um að komast í landsliðshópinn sem fer í úrslitakeppni HM, sem verður í Frakklandi í sumar. "Ég vona að ég komist í hópinn fyrr en síðar. Ég á ekki von á að verða valinn í byrjunarliðið en standi ég mig vel með Liverpool og skori veit enginn hvað landsliðsþjálfarinn hugsar."
Reuters MICHAEL Owen fagnar einu af mörkum sínum fyrir Liverpool.