VÍMUVARNANEFND Reykjavíkurborgar, sem skipuð var til tveggja ára í október 1995, gerir það að tillögu sinni að skipuð verði Samstarfsnefnd um afbrota- og fíkniefnavarnir til að taka við verkefnum nefndarinnar. Lagt er til að nefndin verði skipuð til tveggja ára.
Tillaga Vímuvarnanefndar Reykjavíkur
Samstarfsnefnd
leysi Vímuvarnarnefnd af hólmiVÍMUVARNANEFND Reykjavíkurborgar, sem skipuð var til tveggja ára í október 1995, gerir það að tillögu sinni að skipuð verði Samstarfsnefnd um afbrota- og fíkniefnavarnir til að taka við verkefnum nefndarinnar. Lagt er til að nefndin verði skipuð til tveggja ára.
Tillagan var lögð fram á fundi borgarráðs á þriðjudag. Þar segir um markmið Samstarfsnefndar um afbrota- og fíkniefnavarnir, að draga eigi úr fíkniefnaneyslu með fyrirbyggjandi aðgerðum og stuðningi við þá sem eigi í vanda, auka öryggi íbúa með tilliti til afbrota, vímuefna o.fl., efla samstarf þeirra aðila sem starfi að afbrota- og vímuefnavörnum með sérstakri áherslu á markvissara samstarf í hverfum borgarinnar og virkja almenning til þátttöku í almennu og sérhæfðu forvarnastarfi.
Áfram unnið að vímulausum grunnskóla
Lagt er til að nefndin geri framkvæmdaáætlun og þar verði lagt til grundvallar að vinna að forvarnaverkefnum sem taka mið af þörfum barna og unglinga með tilliti til vímuefna, afbrota og ofbeldis. Vímulaus grunnskóli verði eitt af þeim verkefnum sem áfram verði unnið að. Kortleggja þurfi vandann og afla upplýsinga um afbrot með tilliti til hinna mismunandi brotaflokka og skipuleggja stuðning og sérhæfð úrræði í framhaldi af því. Þá þurfi að leita leiða til að stemma stigu við sölu fíkniefna til barna og unglinga og lögð áhersla á að framfylgja ákvæðum laga um bann á tóbakssölu til barna og unglinga undir 18 ára aldri og banni við sölu áfengis til unglinga undir 20 ára aldri.
Öryggi borgaranna
Í tillögunni er jafnframt gert ráð fyrir að leitað verði leiða til að gera miðborg Reykjavíkur öruggari fyrir alla íbúa Reykjavíkur og að haft verði samráð við fulltrúa íbúa, atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila á svæðinu. Þá verði samráðshópar í hverfum borgarinnar efldir með tilliti til forvarnastarfs, skipulagt verði víðtækara leitarstarf, nágrannavarsla o.fl. Loks er gert ráð fyrir að efla fræðslu fyrir starfsfólk sem vinnur að barna- og unglingamálum.
Áhersla er lögð á víðtækt samstarf og tengsl við fjölmarga aðila. Meðal hugmynda er að skipuleggja opna fundi með almenningi og yfirvöldum borgar og ríkis um öryggismál hins almenna borgara á því sviði sem nefndinni er ætlað að starfa. Vinna nefndarinnar verði framlag Reykjavíkurborgar til áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja 2002.