Þórshöfn - Leikfélagið á Þórshöfn hélt sína árlegu skemmtun í Þórsveri um síðustu helgi en löng hefð er fyrir 1. des. skemmtun hjá félaginu. Félagið auglýsti skemmtunina undir máltækinu "hollt er heima hvat" og nokkuð er víst að þessi heimagerða skemmtun var hin ágætasta afþreying og listfengi af ýmsu tagi blundar í mörgum manni í plássinu.
Hollt er heima hvat

Leikfélag Þórshafnar

með 1. des. fagnað

Þórshöfn - Leikfélagið á Þórshöfn hélt sína árlegu skemmtun í Þórsveri um síðustu helgi en löng hefð er fyrir 1. des. skemmtun hjá félaginu. Félagið auglýsti skemmtunina undir máltækinu "hollt er heima hvat" og nokkuð er víst að þessi heimagerða skemmtun var hin ágætasta afþreying og listfengi af ýmsu tagi blundar í mörgum manni í plássinu. Til skemmtunar voru stuttir leikþættir, söngur, glens og grín af ýmsu tagi og meðal annars stigu nýbúar á svið. Það voru Pólverjar, sem sungu pólskt þjóðlag með tilþrifum en undirleikari var pólskur tónlistarkennari. Einnig var sýnt fram á að þó að langt væri stundum á milli dansleikja í félagsheimilinu mætti viðhalda dansmenntinni með ýmsu móti, t.d. að dansa við tuskudúkkur! Það má segja að íbúar hér á norðausturhorninu hafi verið á hálfgerðu "menningarflippi" síðustu viku, því ýmislegt hefur verið á boðstólum. Tvö námskeið voru haldin fyrir handverksfólk í ýmiss konar föndri, tónleikar hjá K.K. og söngskemmtun Álftagerðisbræðra og Leikfélagið rak lestina á laugardagskvöldi með sína skemmtun og dansleik. Fólk hér um slóðir hefur því getað valið um ýmislegt síðustu dagana meðfram því að sinna vinnu og jólaundirbúningi og enginn kvartar yfir aðgerðarleysi.

FJÓRAR gamlar konur úr stuttum leikþætti leikfélagsins, "Áfram Ellibær".