VOLKSWAGEN AG íhugar kaup á sænska vörubílaframleiðandanum Scania AB og þar með færist efling fyrirtækisins að undanförnu á nýtt stig að því er heimildir herma. Ef samþykkt verður að kaupa Scania bætist sú ákvörðun við margar nýjar fyrirætlanir VW um að framleiða nýjar gerðir og færa út kvíarnar til að gera framleiðsluna fjölbreyttari.
VW íhugar kaup á Scania
Frankfurt.
VOLKSWAGEN AG íhugar kaup á sænska vörubílaframleiðandanum Scania AB og þar með færist efling fyrirtækisins að undanförnu á nýtt stig að því er heimildir herma.
Ef samþykkt verður að kaupa Scania bætist sú ákvörðun við margar nýjar fyrirætlanir VW um að framleiða nýjar gerðir og færa út kvíarnar til að gera framleiðsluna fjölbreyttari.
Með því að kaupa sænska vörubílafyrirtækið bætist fimmta vörumerkið við stórveldi VW, sem einnig framleiðir Audi AG, Skoda SA í Tékklandi og SEAT bíla á Spáni auk hinna ýmsu gerða Volkswagens.
Minni munur á mörkuðum
Með því að sækja inn á dýrari markað ógnar VW Daimler-Benz SH og Bayerische Motorenwerker AG (BMW) sem sækja hins vegar inn á fjöldamarkað lítilla og ódýrra bíla sem Volkswagen hefur einbeitt sér að til þessa.
Sérfræðingar segja að áhugi VW á Scania beri vott um aukið sjálfstraust, sem hafi fylgt grósku í þýzkum bílaiðnaði, einkum vegna aukins útflutnings.
Síðan Þjóðverjar réttu úr kútnum eftir samdráttinn 1993 hafa þeir komið gagnrýnendum á óvart með því að geta dregið úr kostnaði og sett á markað nýstárlegar tegundir, þótt endurskipulagningin hafi leitt til þess að sjöunda hverja manni í greininni hafi verið sagt upp.