SAMKEPPNI í slátrun og kjötvinnslu hefur farið harðnandi á undanförnum árum. Framleiðsla hefur minnkað með samdrætti í sauðfjárrækt og harðnandi samkeppni um hráefni hefur leitt til hærra verðs til bænda. Þá hefur verið mikill þrýstingur til verðlækkana frá stórmörkuðum, sem ráða langstærstum hluta markaðarins.
ÐKreppir að ákjötmarkaði
Talsverðar hræringar hafa átt sér stað á kjötvinnslumarkaðnum undanfarið. Fyrr á þessu ári sameinuðust nokkrir sláturleyfishafar undir nafninu Norðvesturbandalagið og nú standa yfir viðræður þriggja stórra sláturleyfishafa um hugsanlega sameiningu. Þorsteinn Víglundsson kynnti sér markaðinn og komst að því að þrengt hefur verulega að aðilum þar á undangengnum árum.
SAMKEPPNI í slátrun og kjötvinnslu hefur farið harðnandi á undanförnum árum. Framleiðsla hefur minnkað með samdrætti í sauðfjárrækt og harðnandi samkeppni um hráefni hefur leitt til hærra verðs til bænda. Þá hefur verið mikill þrýstingur til verðlækkana frá stórmörkuðum, sem ráða langstærstum hluta markaðarins. Afleiðingarnar hafa tvímælalaust verið neytendum til góða því sértilboð á kjötvörum hafa verið tíð á undanförnum árum. Svo hörð samkeppni hefur hins vegar þrengt stakk framleiðenda verulega.
Ef litið er á markaðinn fyrir lambakjöt getur staða sláturhúsa og kjötvinnslufyrirtækja vart talist öfundsverð. Sláturhúsin hafa við fjölda dreifðra birgja að eiga og flest eru þau með talsverða umframframleiðslugetu. Samkeppni um hráefni er því mikil og hennar virðist í auknum mæli vera farið að gæta í yfirboðum í hráefni.
Yfirgreiðslur á fast verð til bænda eru sagðar hafa farið í 16% í sumar vegna aukinnar samkeppni um hráefni. Þá hefur það einnig haft áhrif til verðhækkana til bænda að sláturtíminn hefur verið að lengjast, en sláturtíðin stendur nú frá júlíbyrjun og fram í desember.
Þar sem mun færri kíló nást úr hverjum dilk á sumrin en á haustin hefur hins vegar verið greitt upp undir 50% álag á það sauðfé sem fyrst er slátrað.
"Það er nú svo í þessari grein eins og mörgum öðrum að fastur kostnaður er mjög hár og hver viðbótareining sem kemur í gegn, hún skilar töluverðum ávinningi, " segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands.
"Það er því tilhneiging hjá mönnum að teygja sig talsvert langt til að ná í viðbótarhráefni. Slíkt gengur hins vegar auðvitað ekki ef allir eru að gera slíkt hið sama."
Það kemur því ekki á óvart að horft sé til sameiningar sláturhúsa sem bestu leiðarinnar til að lækka kostnað. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu hefur sláturleyfishöfum fækkað nokkuð á allra síðustu árum og eru þeir 19 í dag. Mest hefur fækkunin þó orðið á þessu ári með tilkomu Norðvesturbandalagsins.
Steinþór bendir á að nú gefist mönnum aftur kostur á því að úrelda sláturhús sem ekki hafi verið hægt í nokkuð mörg ár. Það hafi hreyft við þessum málum nú.
Sú fækkun sem orðið hefur á þessu ári er þó hvergi nærri talin duga til og hefur verið nefnt að 4-8 sláturhús á landinu öllu myndu duga. Slík fækkun myndi þýða að jafnaði að það magn sem húsin fengju að meðaltali til meðferðar myndi þrefaldast sem myndi þá bæta nýtingu þeirra að sama skapi.
Steinþór segist reikna með því að þetta muni verða þróunin á næstunni. Næsta haust verði verð á hráefni t.d. gefið frjálst og með bættum samgöngum og flutningatækni þá geti sláturhúsin teygt sig talsvert lengra eftir hráefninu en áður. "Við höfum t.d. metið það svo að okkar sláturhús á Selfossi geti með hagkvæmum hætti sótt hráefni um 300 km út frá húsinu, eða allt frá Skeiðarársandi norður að Blönduósi. Þetta er því orðinn umtalsvert stór hluti af landinu."
Höfn-Þríhyrningur, Afurðasalan og KASK í eina sæng?
Það er samdóma álit þeirra sem Morgunblaðið ræddi við að aukinn kraftur hafi færst í sameiningarviðræður að undanförnu. Skemmst er að minnast stofnunar Norðvesturbandalagsins þar sem sameinaður var sláturhúsarekstur fjögurra sláturleyfishafa á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Þá eru fleiri aðilar sagðir hafa hist á óformlegum fundum víðs vegar um landið að undanförnu.
"Menn eru einfaldlega að leita leiða til þess að komast út úr þessum vítahring og fækka söluaðilum þannig að markaðurinn verði í það minnsta jöfnum höndum kaupenda- og seljendamarkaður," sagði einn viðmælandi blaðsins.
Meðal þeirra fyrirtækja sem nú leita leiða til hagræðingar eru Höfn-Þríhyrningur, Kaupfélag Austur-Skaftfellinga og Afurðasalan í Borgarnesi. Þess fyrirtæki eiga í viðræðum um mögulegt samstarf eða sameiningu og er þá horft til möguleika á samruna þessara þriggja fyrirtækja auk fleiri smærri aðila, að því er heimildir Morgunblaðsins herma.
Viðræðurnar, sem staðið hafa yfir í nokkurn tíma, eru hins vegar enn sagðar á mjög viðkvæmu stigi og þykir alls óvíst hver niðurstaðan muni verða. Heimildarmönnum blaðsins ber hins vegar saman um að málið muni skýrast innan skamms.
Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu var afkoma þessara þriggja félaga ekki góð á síðasta ári. Samanlagt rekstrartap þeirra tæpum 80 milljónum króna og jókst verulega frá árinu 1995. Inn í þær tölur vantar hins vegar hlut kjötvinnslu Kaupfélags Austur-Skaftfellinga í sameiginlegum kostnaði félagsins. Samanlögð hlutdeild þessara þriggja fyrirtækja í slátrun yrði við sameiningu áþekk eða jafnvel nokkru meiri en hlutdeild Sláturfélags Suðurlands.
Neysla að dragast saman
Til viðbótar erfiðum rekstrarskilyrðum hefur neysla á lambakjöti verið að dragast saman um u.þ.b. 2% á ári undanfarin ár samkvæmt upplýsingum frá Framleiðsluráði landbúnaðarins.
Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig sala á lambakjöti hefur dregist saman ár frá ári. Á sama tíma hefur framleiðsla hins vegar dregist jafnt og þétt saman og var heildarframleiðsla á lambakjöti árið 1996 46% minni en árið 1978.
Samfara minnkandi framleiðslu hefur verið grynnkað umtalsvert á birgðum með auknum útflutningi.
Undirliggjandi skýring minnkandi neyslu kann að vera sú að neyslumynstur þjóðarinnar sé að breytast. Ungt fólk neytir mun minna af kjöti en eldra fólk, eins og sjá má í meðfylgjandi töflum sem fengnar eru úr neyslukönnun Gallup.
Hér kann verð matvæla að skipta nokkru máli en þetta hlýtur engu að síður að vera nokkurt áhyggjuefni fyrir kjötframleiðendur ef ekki tekst að fá yngri kynslóðirnar til að auka neyslu sína síðar meir.
Stórmarkaðirnir ráða verði vörunnar
Pétur Hjaltason hjá Höfn-Þríhyrningi, segir að kjötmarkaðnum sé best lýst sem kaupendamarkaði, þ.e. að kaupendur vörunnar ráði verði hennar alfarið. Vísar hann í því samhengi til þeirrar miklu samþjöppunar sem orðið hafi á matvörumarkaði hér á landi á undanförnum árum. Hagkaup og Bónus hafa til samans ríflega 50% markaðshlutdeild á matvörumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og fimm stærstu verslunarkeðjurnar ráða um 79% markaðarins.
Þessi samþjöppun og sú krafa sem gerð hefur verið af hálfu stórmarkaðanna um magnafslátt í viðskiptum, hefur því þrengt nokkuð að sláturleyfishöfum og kjötvinnslum.
Það styrkir einnig samningsstöðu stórmarkaðanna að þeir hafa alltaf haft ákveðinn hluta kjötvinnslunnar innan eigin veggja. Því er alltaf til staðar sú ógn að markaðirnir auki eigin vinnslu, fái þeir ekki þau verð sem þeir geta sætt sig við.
Þessi vinnsla hefur þó yfirleitt verið mjög afmörkuð og eingöngu hugsuð til sölu í viðkomandi verslunum. Fyrir fáum árum lagði Hagkaup hins vegar af þeirri hefð og setti á fót nýtt kjötvinnslufyrirtæki, Ferskar kjötvörur ehf.
Að sögn Sigfúsar Ingimundarsonar, framkvæmdastjóra Ferskra kjötvara, var ástæða þess að fyrirtækið var sett á fót fyrst og fremst sú að Hagkaup hafi ekki tekist að fá það hráefni sem óskað hafi verið eftir. Gæðin hafi einfaldlega ekki verið nægilega stöðug. Þar hafi þó orðið nokkur breyting á síðastliðin ár.
Hann segir stóran hluta af starfsemi Ferskra kjötvara felast í framleiðslu fyrir Hagkaup, en það sé þó ekki eini viðskiptavinur fyrirtækisins. Talsvert magn hafi sömuleiðis verið selt til hótela og veitingastaða.
Sterkt vörumerki og vöruþróun skapað SS sérstöðu
Sláturfélagið er talið hafa nokkra sérstöðu á þessum markaði. Félagið er með mesta markaðshlutdeild, eða u.þ.b. 20-30% eftir því hvort miðað er við slátrun eða fullunna vöru. Þá er vörumerkið nokkuð sterkt og eins og einn viðmælandi blaðsins orðaði það þá "vilja menn alltaf sínar SS-pylsur". Þetta skapi félaginu sterkari samningsstöðu gagnvart stórmörkuðum sem fyrir vikið geti ekki "þvingað" félagið niður í verði eða sett vörur þess út í kuldann.
Merki þessa má líka sjá í töflu yfir afkomu sjö sláturleyfishafa en Sláturfélagið er eina félagið sem rekið var með einhverjum hagnaði að marki á síðasta ári, ef litið er til afkomu af reglulegri starfsemi.
Þess ber þó að geta að hér gefur aðeins að líta nokkur þeirra fyrirtækja sem starfandi eru á þessum markaði, en í ársreikningum þeirra kaupfélaga sem ekki eru nefnd hér vantar sundurliðun á afkomu kjötvinnslu þeirra. Af átta kaupfélögum sem skoðuð voru, reyndist tap hafa orðið af reglulegri starfsemi þriggja en fimm skiluðu á bilinu 1-5 milljóna króna hagnaði af reglulegri starfsemi á síðasta ári.
Aðspurður um þetta segir Steinþór að það hafi verið markvisst unnið að því að "tala beint við neytandann. Við erum ekki að keppa á afslættinum fyrst og fremst heldur á grundvelli vöruþróunar og gæða og tengslum við neytandann. Matvæli snúast ekki alltaf um að bjóða lægsta verðið. Fólk vill ekki alltaf kaupa ódýrustu vöruna enda oft samhengi milli slakra gæða og lágs verðs. Fólk er því tilbúið að borga aukalega fyrir betri vöru," segir Steinþór.
Enginn fimm stjörnu markaður
Þegar meta á arðvænleika tiltekins markaðar er gjarnan litið til 5 þátta er hafa áhrif á hagnaðarvon fyrirtækis á markaði. Samningsstyrkur birgja og kaupenda er metinn, sem og hættan á því að nýir markaðsaðilar komi inn. Þá þarf að meta hversu auðveldlega neytendur geta skipt þeirri vöru sem framleiða á út fyrir aðra og loks verður að líta á samkeppnisstig markaðarins, sem ræðst raunar af hinum þáttunum fjórum. Gefa má stjörnu fyrir hvert þessara atriða og fimm stjörnu markaður væri þá draumamarkaður þess sem starfar á honum.
Af því sem fram hefur komið hér að ofan má sjá að hér er ekki á ferðinni neinn fimm stjörnu markaður og ein stjarna væri síst of mikið fyrir hann. Samningsstaða smásölunnar er mjög sterk og með aukinni samkeppni um hráefni hefur samningsstaða birgja styrkst sömuleiðis. Fyrirtæki á þessum markaði hafa því takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á verð og þurfa því líkast til að taka kostnaðarhækkanir á sig sjálf.
Þetta hefur og verið raunin í tilfelli sláturhúsa því sláturkostnaður er fastákveðinn 134 krónur á hvert kíló og er hann hluti af því 387 króna kílóverði sem sett er á lambakjöt í heildsölu. Sá afsláttur sem sláturhúsin hafa verið að veita hefur því komið af þessari föstu álagningu og ekkert svigrúm hefur verið til þess að lækka verð til bænda. Þvert á móti hefur verð til bænda hækkað. Betri nýting sláturhúsanna hlýtur því að skipta verulegu máli við þessar aðstæður.
Þá á lambakjöt í harðri samkeppni við svínakjöt, alifuglakjöt og nautakjöt og neytendur geta auðveldlega skipt á milli þessara afurða eftir því hvernig verð þróast. Þá er alltaf til staðar möguleiki fyrir neytendur að draga úr kjötneyslu telji þeir það t.d. of dýrt.