SAMEINING Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur verið á dagskrá heilbrigðisráðuneytisins nú um nokkurt skeið, þrátt fyrir takmarkaðan pólitískan vilja annars staðar, hæpinn sparnað og einokun sem af slíkri sameiningu leiddi nú. Málið komst á dagskrá fyrir tíu árum, en þá eins og nú vantaði pólitískan vilja.
Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík er afturför

Með því að reka bæði sjúkrahúsin áfram með sérdeildum fyrir stærstu greinar læknisfræðinnar, segir Tómas Helgason , þá verður þjónustan best og reksturinn hagkvæmastur.

SAMEINING Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur verið á dagskrá heilbrigðisráðuneytisins nú um nokkurt skeið, þrátt fyrir takmarkaðan pólitískan vilja annars staðar, hæpinn sparnað og einokun sem af slíkri sameiningu leiddi nú. Málið komst á dagskrá fyrir tíu árum, en þá eins og nú vantaði pólitískan vilja. Það komst aftur á dagskrá nokkrum árum síðar, er útlent ráðgjafarfyrirtæki, sem átti að vinna að stefnumótun fyrir ríkisspítalana, lagði til, að annaðhvort skyldi sameina öll þrjú sjúkrahúsin í Reykjavík eða Landspítalann og Borgarspítalann, en síður Borgarspítalann og Landakot. Síðast nefndi kosturinn varð þó fyrir valinu.

Eftir ráðherra- og ráðuneytisstjóraskipti í heilbrigðisráðuneytinu fyrir tveimur árum komst málið aftur á skrið og sama útlenda ráðgjafarfyrirtækið var fengið til þess að fjalla aftur um málið og athuga hvernig að því skyldi standa, en nú fyrir milligöngu íslensks umboðsfyrirtækis. Þessi fyrirtæki birtu skýrslu sína um skipulagsathugun sjúkrahúsanna í Reykjavík og nágrenni ásamt framtíðarsýn síðsumars og var niðurstaðan eins og við mátti búast, sameining. Nú var bætt við til skrauts orðunum: "Eitt stórt og öflugt háskólasjúkrahús," án þess að fram kæmi nokkur skilningur á hugtakinu háskólasjúkrahús nema síður væri. Sjúklingurinn skyldi vera í öndvegi! Það er eins og skýrsluhöfundum sé ekki ljóst, að sjúkrahúsþjónusta snýst og hefur alltaf snúist um að lækna og líkna sjúklingum. Þeim virðist heldur ekki ljóst, að Landspítalinn er og hefur verið háskólaspítali frá 1930, þar sem sjúklingurinn hefur verið í öndvegi alla tíð, jafnframt því sem mikil rækt er lögð við háskólastarfsemi með kennslu og rannsóknum. Það er kannski fyrirgefanlegt að "hinni nýju stétt" ráðgjafa skuli hafa yfirsést þetta, þar eð ekki sér þess glögglega stað í rekstrarkostnaði Landspítalans, sem er hlutfallslega svipaður og rekstrarkostnaður Borgarspítalans, en ætti að vera 25% hærri en annarra sjúkrahúsa miðað við þjónustueiningu vegna háskólastarfseminnar.

Skýrslan hefur fengið blendnar móttökur, enda um margt áfátt. En þrátt fyrir það hefur sömu ráðgjöfum verið falið að halda áfram að vinna að breyttu skipulagi. Og nú er sagt að nýta eigi fjármuni sem hugsanlega sparast til þróunar og bættrar þjónustu. Þetta er sýnd veiði en ekki gefin, því að erfitt er að koma auga á að þjónustan batni með því að fækka um 500 störf á yfirfullum og vanmönnuðum deildum sjúkrahúsanna. Og ekki hefur reynsla undanfarinna ára heldur bent til, að lækkun á rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna hafi gengið til bættrar þjónustu.

Hvers vegna var Borgarspítalinn byggður?

Á árunum kringum 1950 var orðinn mikill og almennur skortur á rúmum á sjúkrahúsum. Engin sjúkrahús höfðu bæst við í Reykjavík frá því að Landspítalinn var tekinn í notkun 1930 nema Sjúkrahús Hvítabandsins árið 1934 og Fæðingardeild Landspítalans, sem loks var opnuð 1949. Þetta varð til þess, að borgarstjórn Reykjavíkur ákvað að opna eigið sjúkrahús, fyrst í Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg til bráðabirgða og síðar í Fossvogi. Um leið og byrjað var að grafa fyrir Borgarspítalanum, tók ríkisvaldið við sér og byrjað var að undirbúa viðbyggingu á Landspítala. Kom hér í ljós það gildi sem aðhald fleiri þjónustuaðila hefur.

Landakotsspítalinn hafði veitt Landspítalanum faglegt aðhald um langt árabil og gefið sjúklingum möguleika á að velja hvert þeir leituðu sjúkrahúsaðstoðar, og nú bættist Borgarspítalinn við. Mun meira jafnræði var með Borgarspítalanum og Landspítalanum og því enn hægara fyrir sjúklinga og raunar starfsfólk líka að velja hvert væri leitað. Þetta jafnræði veitti Landspítalanum og okkur sem þar störfuðum mikið aðhald og hvatningu til að byggja upp og bæta þjónustuna og til að sinna háskólahlutverkinu af enn meiri krafti.

Sveltistefnan

Fjármálaráðuneytið hefur lengi fylgt þeirri stefnu að láta árlega nokkur hundruð milljónir króna vanta á fjárveitingar til spítalanna í Reykjavík, til þess að pína þá til sparnaðar og niðurskurðar. Hefur þetta valdið ómældum skaða á starfsanda á sjúkrahúsunum vegna sífellds nöldurs og óbeinna ásakana á starfsliðið fyrir að leggja ekki nógu hart að sér og fyrir að veita of mikla þjónustu. Nú er loks svo komið að ekki verður lengra gengið, og því var gert svokallað samkomulag um rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík, sem átti að skila 350 millj. króna sparnaði á næsta ári. Í þessu "samkomulagi" er að venju ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Fækka skal rúmum fyrir geðsjúka og geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur skal flutt úr aðalbyggingu í Grensásdeild, sem er það langt frá, að þjónusta við sjúklinga spítalans verður lakari. Ennfremur á að flytja hluta af bráðavöktum geðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur til geðdeildar Landspítalans og flytja meðferð barna á Kleifarvegsheimilinu til geðdeildar Landspítalans, allt án þess að rúmum á Landspítala verði fjölgað eða fjárveiting til hans aukin.

Sveltistefnan hefur leitt til lakari þjónustu og lítils sparnaðar vegna þess að alltaf hefur verið gætt mikils aðhalds í rekstri sjúkrahúsanna. Forsvarsmenn þessarar stefnu fá eðlilega glýju í augun þegar veifað er möguleikum á enn meira svelti með sameiningu og nú með slagorðunum "eitt stórt og öflugt háskólasjúkrahús". Vonandi bera þing og þjóð gæfu til að stöðva þá þróun sem sveltistefnan hefur leitt til og sjá til þess, að Landspítalinn verði efldur sem háskólasjúkrahús til að veita enn betri þjónustu og að Borgarspítalinn geti áfram veitt honum nauðsynlegt aðhald með dugmikilli faglegri samkeppni.

Með því að reka bæði sjúkrahúsin áfram með sérdeildum fyrir stærstu greinar læknisfræðinnar, svo sem lyflæknisfræði, handlæknisfræði og geðlæknisfræði, verður þjónustan best og rekstur sjúkrahúsanna hagkvæmastur.

Höfundur er dr. med., prófessor emeritus, fyrrverandi forstöðumaður geðdeildar Landspítalans.

Tómas Helgason