SAMTÖKIN Lífsvog fóru þess á leit við heilbrigðisráðherra í marsmánuði sl., að fram færi könnun á því, hve margar bæklunaraðgerðir væru framkvæmdar til þess að reyna að laga það sem aflaga fór í fyrstu aðgerð á sjúklingum.
Heilbrigðisyfirvöld koma loks auga á vandann Samtökunum Lífsvog: SAMTÖKIN Lífsvog fóru þess á leit við heilbrigðisráðherra í marsmánuði sl., að fram færi könnun á því, hve margar bæklunaraðgerðir væru framkvæmdar til þess að reyna að laga það sem aflaga fór í fyrstu aðgerð á sjúklingum. Mannleg mistök ollu því hins vegar að bréf þetta týndist í ráðuneytinu, fram til seinni hluta októbermánuðar nú í haust, en þá fannst bréfið loks, og ráðuneytið fór þess á leit við landlækni, að sá hinn sami upplýsti hvort fram hefði farið könnun hér á landi varðandi fyrirspurn Lífsvogar.

Svo virðist samkvæmt nýjustu athugun landlæknisembættisins, að sjúklingar séu útskrifaðir of fljótt, og endurinnlögnum hafi fjölgað verulega líkt og við höfum bent ítrekað á hjá Samtökunum Lífsvog. Sparnaður sá, er kerfið taldi sig hafa á takteinum, var ef til vill ekki sá er til stóð, en erfiðleikar í því fólgnir að gefa sér tíma til þess að staldra við og skoða tilganginn kunna að vera virði mikils. Nýgerðir læknasamningar, er lúta að því að launa betur sérfræðinga er sinna eingöngu verkum inni á sjúkrahúsunum, eru fagnaðarefni, en sá metnaður er ungir læknar sýna með því að neita að vinna að störfum sínum undir ómannlegu álagi er einnig stórt skref í átt til virðingar fyrir stétt þeirra, og loforð um betri þjónustu til handa sjúklingum í framtíðinni.

Tryggingamál þeirra er lenda í læknamistökum eru hins vegar enn í ólestri. Þar þurfa þingmenn að koma betur að málum og láta verkin tala í baráttu fyrir endurskoðun almannatryggingalaganna, ýtarlegri endurskoðun, svo hægt sé að rata um frumskóg mismunandi túlkunarákvæða, þeirra hinna sömu laga og bæta sjúklingum tjón er þeir kunna að verða fyrir vegna mistaka einhvers konar í læknismeðferð, og sýna þar með kjósendum sínum sanna umhyggju fyrir þeim er minnst mega sín, í samfélagi velferðar, ekki aðeins með orðum heldur einnig gjörðum. Fyrir hönd Lífsvogar,

GUÐRÚN MARÍA ÓSKARSDÓTTIR, formaður.