alþjóðlegar vörusýningar
Matvæla- og
sjávarútvegssýningar
vinsælastar
VÖRUSÝNINGAR og kaupstefnur erlendis njóta sívaxandi vinsælda meðal Íslendinga. Anuga-
matvælasýningin í Köln og sjávarútvegssýningin í Boston hafa notið mestra vinsælda á undanförnum árum og talið er að þær séu sóttar af um eitt hundrað Íslendingum árlega.
Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn sérhæfir sig í sölu ferða á erlendar vörusýningar og gefur árlega út bækling yfir alþjóðlegar sýningar. Bæklingurinn kemur nú út í þriðja sinn og er dreift í þrjú þúsund eintökum til fyrirtækja og stofnana. Goði Sveinsson, markaðsstjóri Úrvals-Útsýnar, segir að í bæklingnum séu um 300 sýningar austan hafs og vestan kynntar undir 110 efnisflokkum. "Hingað til hafa Íslendingar mest sótt til Evrópu í þessu skyni en sýningar í Bandaríkjunum njóta sívaxandi vinsælda. Þá bjóðum við mönnum að samtvinna sýningu og frí þannig að fyrst fara þeir á sýningu en skella sér t.d. í sólarfrí og afslöppun á Flórída. Þetta form nýtur vaxandi vinsælda hjá okkur. Þá höfum við átt gott samstarf við bandaríska sendiráðið um vörusýningar vestra. Þeir aðstoða okkur við val á sýningum vestra og ef um hópferð er að ræða, 20 manns eða fleiri, hafa þeir lagt til íslenskan fararstjóra."
Mörg þúsund sýningar í boði
Viðbrögð við vörusýningarbæklingi Úrvals-Útsýnar hafa verið óvenju góð að þessu sinni að sögn Sigríðar Maríu Sigurðardóttur, sölufulltrúa og ráðgjafa Úrvals-Útsýnar varðandi vörusýningar. Segir hún að Anuga- matvælasýningin í Köln og sjávarútvegssýningin í Boston séu vinsælastar meðal Íslendinga og hafi áunnið sér fastan sess. "Matvæla- og sjávarútvegssýningar eru vinsælastar en sýningar á húsgögnum, fatnaði, bókum, tölvuvörum, málningarvörum og landbúnaðarsýningar njóta einnig mikilla vinsælda. Þrátt fyrir að um 300 sýningar séu kynntar í bæklingnum er hann þó langt frá því að vera tæmandi, enda eru mörg þúsund kaupstefnur og vörusýningar haldnar í heiminum á hverju ári. Á skrifstofu okkar höfum við ítarlegri upplýsingar, t.d. bókina "Trade Show", en í henni er efni um mörg þúsund vörusýningar. Viðskiptavinir koma gjarnan og leita í sínum flokkum þar til þeir finna réttu sýninguna og við erum þeim síðan innan handar um skipulagningu ferðarinnar," segir Sigríður.
Úrval-Útsýn hefur opnað nýjan vef á alnetinu og er þar m.a. að finna upplýsingar um þjónustu ferðaskrifstofunnar í viðskiptaferðum. Slóðin er:
http://www.urvalutsyn.is
SJÁVARÚTVEGSSÝNINGIN í Boston er meðal þeirra erlendu sýninga sem Íslendingar sækja helst.