Laxamýri-Nú er lokið fyrsta áfanga endurbyggingar torffjárhúsanna að Þverá í Laxárdal en þar er eins og kunnugt er unnið að heildaruppbyggingu bændabýlis frá síðustu öld.
Þverá í Laxárdal

Torffjárhúsin endurbyggð

Laxamýri - Nú er lokið fyrsta áfanga endurbyggingar torffjárhúsanna að Þverá í Laxárdal en þar er eins og kunnugt er unnið að heildaruppbyggingu bændabýlis frá síðustu öld.

Fjárhúsin sem um ræðir voru byggð upp úr 1860 og notuð um áratuga skeið en voru hrunin að mestu leyti er ákveðið var að endurgera húsin. Fyrir nokkrum árum lagði Búnaðarsamband S-Þingeyinga fram umtalsverða upphæð til framkvæmdanna en Þjóðminjasafn Íslands mun sjá um að ljúka verkinu og hafa umsjón með varðveislu þessara merku minja.

Þá hafa bæjarhús á Þverá verið lagfærð mikið og gamla fjósið hefur verið hlaðið upp en þrátt fyrir miklar framkvæmdir er enn margt ógert og eftir er að hlaða syðri hluta fjárhúsanna. Búast má við að Þverá verði í framtíðinni eftirsóttur áningarstaður ferðamanna sem kynnast vilja búsetulandslagi og bændamenningu.

Morgunblaðið/Atli Vigfússon FYRSTA áfanga endurbyggingar torffjárhúsanna að Þverá í Laxárdal er lokið.