LYKILORÐ dagsins í dag og jafnvel morgundagsins kann að vera ferðamennska. Borgarnes og nærsveitir hafa í auknum mæli reynt að markaðssetja sig sem ferðamannasvæði en eins og á fleiri stöðum í svipuðum hugleiðingum er fyrst og fremst klifað á "berstrípaðri" náttúrufegurð svæðisins,
Hví sofið
þið, Borgfirðingar?Það skortir rökstudda afstöðu, markvissar áætlanir og framkvæmdir, segir Karl Rúnar Þórsson, til að samfélagið geti nýtt sér fjölbreyttan efniviðinn.
LYKILORÐ dagsins í dag og jafnvel morgundagsins kann að vera ferðamennska. Borgarnes og nærsveitir hafa í auknum mæli reynt að markaðssetja sig sem ferðamannasvæði en eins og á fleiri stöðum í svipuðum hugleiðingum er fyrst og fremst klifað á "berstrípaðri" náttúrufegurð svæðisins, rétt eins og þar sé hinn eini sanni segull sem endalaust og helst án mikillar fyrirhafnar geti dregið að sér ferðamenn innlenda sem erlenda.
Sé horft til morgundagsins má telja líklegt að vistvæn ferðamennska sé framtíðin. Þar er lögð áhersla á að ferðamaðurinn fái innsýn í flest það sem landið eða landsvæðið býður uppá, ekki aðeins náttúrufegurðina heldur einnig menninguna, söguna og mannlífið. Sé vel að verki staðið skapar vistvæn ferðamennska fjölbreyttari afþreyingarmöguleika og þar liggja hugsanlega ný sóknarfæri ferðaþjónustunnar.
Árangur skilar sér með samstarfi hagsmunaaðila
Íslensk söfn með fjölbreyttar sýningar geta gegnt lykilhlutverki þegar boðið er upp á menningartengda afþreyingu. Sums staðar hafa ráðamenn, fulltrúar einkaframtaksins og ferðaþjónustan áttað sig og stillt saman strengi sína ásamt safnafólki, öðrum sérfræðingum og ýmsu áhugafólki. Skýr dæmi um vel heppnaða menningartengda afþreyingu er t.d. síldarminjasýning Siglfirðinga og vesturfarasýningin á Hofsósi sem njóta vinsælda bæði innlendra sem erlendra ferðamanna. Það er nefnilega nauðsynlegt að söfnin geri söguna eða það sem sýna skal sem mest lifandi. Sérhæfing safna er nauðsyn, því endalausir rokkar og strokkar einfaldlega gera sig ekki lengur í safnaveruleika nútímans. Söfnin keppa um hylli margra ólíkra hópa sem gera auknar kröfur til sýningahalds. Safngestum samtímans nægir ekki að sjá og fræðast, heldur gera þeir kröfur um að fá að upplifa og það á eftirminnilegan hátt.
Blásið var í herlúðra sem fljótt urðu falskir
Árið 1979-1980 var blásið í herlúðra í Borgarnesi og nærsveitum þegar efnt var til samkeppni um byggingu nýs Safnahúss Borgarfjarðar. Niðurstaða fékkst og var hús teiknað sem á þeim tíma taldist tæknilega fullnægjandi. Húsið átti að hýsa héraðsbóksafn, héraðsskjalasafn, byggðasafn, listasafn og náttúrugripasafn. Lóð var tekin frá undir byggingu hússins á eftirsóttu svæði skammt frá brúarsporði Borgarfjarðarbúarinnar, í nágrenni við bensínstöðvarnar þrjár. En herlúðrarnir urðu fljótt falskir og þögnuðu brátt, og enn sem komið er hefur ekkert borið á framkvæmdum.
Eins konar "prjónastofublús"
Safnahús Borgarfjarðar með söfnin fimm hélt starfsemi áfram í bráðabirgðahúsnæði sem sérstaklega hafði verið teiknað fyrir þarfir prjónastofu. Þar var þeirri áður mörkuðu stefnu fylgt eftir, að hagkvæmast væri að reka í nánu samstarfi öll söfnin fimm. En hvað er slík starfsemi án viðunandi sýningarsala, lesaðstöðu og aðbúnaðar fyrir fjölmenna hópa sem smærri, fatlaða sem ófatlaða? Kjarni slíkrar starfsemi liggur í boðlegum geymslum sem falla að reglum forvörslunnar um rými og annan aðbúnað, en sameiginlegur kjarni "prjónastofunnar" er löngu sprunginn.
Náttúrugripasafnið geymir eitt stærsta safn uppstoppaðra fugla á landinu, auk margbrotins steina- og skeljasafns. Byggðasafnið geymir rúmlega fjögur þúsund gripi og Listasafn Borgarness á rúmlega þrjú hundruð listaverk. En það er maðkur í mysunni, uppsetning þemasýninga jafnhliða föstum sýningum sem samræmast kröfum og væntingum samtímans er tilgangslaust umhugsunarefni við núverandi aðstæður. Það þýðir jafnframt að sá möguleiki að afla söfnunum sértekna er hverfandi lítill. Undirtónn starfseminnar þrátt fyrir góðan efnivið hlýtur því að teljast nokkuð tregablandinn og minnir einna helst á blús, eins konar "prjónastofublús".
Nýtt hjól á vagn menningarinnar
Fyrir nokkrum áratugum á tímum flóabátasiglinga milli Reykjavíkur og Borgarness varð til slagorðið "allar leiðir liggja til Borgarness". Í dag á slagorðið enn við, enda bærinn gjarnan viðkomustaður þeirra sem ferðast til og frá Norður- og Vesturlandi. Sú hugmynd hefur verið viðruð af fullri alvöru í Borgarnesi, að þar sé við hæfi að reisa samgönguminjasafn sem starfað geti í samvinnu við Byggðasafn Borgarfjarðar. Miðað við þá umferð sem árlega rennur um Borgarnes, er fullvíst að fjölbreyttar sýningar og uppákomur slíks safns gætu laðað að sér mikinn fjölda innlendra sem erlenda ferðamanna. Slíkt safn með fjölbreyttar sýningar yrði þannig nýtt hjól undir vagni menningartengdrar afþreyingar í Borgarfirði og legði auk þess með beinum eða óbeinum hætti lóð á vogarskálar verslunar og viðskipta.
Rökstudd afstaða og markvissar áætlanir óskast
Markvissar áætlanir sem fjalla um framfarir, hlutverk og tengingu safna, menningarminja, fornleifa og náttúruminja svæðisins hafa ekki verið mótaðar í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar. Þegar málsmetandi fólk t.d. í Borgarbyggð, er spurt um stefnu og rökstuddar skoðanir á safnamálum og tengslum við ferðaþjónustu, setur það gjarnan upp fjarrænt augnaráð og skrýtinn svip. Hvort sem ástæðan er sú að einhverjir séu enn með fiðring í maganum eftir byggingu glæsilegustu íþróttamannvirkja landsins skal ósagt látið. En sennilegra er að hræðsla við óplægðan akur sem ef til vill kallar á breytingar, nýja hugsun, mikla vinnu og nokkurn tilkostnað, sé helsta ástæða fálætisins. Lífseigur hrepparígur aftan úr forneskju kann svo að blandast saman við og flækja og tefja málin ef til vill enn frekar.
Sagan, mannlífið, fornleifarnar, náttúruminjarnar og efniviður safnanna er til staðar, ásamt fjölda ferðamanna sem ár hvert heimsækja héraðið. Þess vegna er fálæti um þessi efni í bland við sofandahátt illskiljanlegt. Slíkt er engu hugsandi fólki til sóma og mannlífi sem ferðamennsku í Borgarfirði varla til framdráttar. Rökstudda afstöðu og markvissar áætlanir skortir á hinn bóginn til að samfélagið og gestir þess geti betur nýtt sér fjölbreyttan efniviðinn.
Höfundur er sagnfræðingur og býr í Borgarnesi
Karl Rúnar Þórsson