Skátar vígja nýtt félagsheimili
Stykkishólmi - Á laugardaginn
vígðu skátar nýja félagsaðstöðu sem Stykkishólmsbær hefur látið þeim í té. Það er gamla Frúarhúsið sem er eitt af þessum gömlu húsum sem setja svip á miðbæinn. Skátarnir hafa unnið mikið síðustu vikur við að lagfæra húsið að innan. Skátar buðu af þessu tilefni upp á dagskrá í félagsmiðstöðinni og síðan var haldið í Frúarhúsið og það formlega tekið í notkun. Ávörp voru flutt og félaginu færðar gjafir. Við það að fá samastað fyrir starfsemina gjörbreytist aðstaðan.
Nú eru 60 ár síðan skátafélagið Hólmverjar var stofnað í Stykkishólmi. Áður hafði verið starfandi skátafélagið Væringjar sem stofnað var árið 1916 og rekið í samráði við skátafélagið Væringja í Reykjavík og varð þannig Stykkishólmur fyrsta sveitarfélagið utan Reykjavíkur til að eignast skátafélag. Í gegnum árin hefur starfsemin gengið í bylgjum eins og oft vill verða. Inn á milli hafa komið ár þar sem starfsemin hefur legið niðri og önnur tímabil þegar starfið hefur blómstrað. Hefur það oft ráðist af því hverjir hafa haldið merkinu á lofti. Í dag starfa skátar af miklum krafti í Stykkishólmi.
Bæjarbúar fjölmenntu í heimsókn til skátanna á laugardag. Leiðtogar skátastarfsins eru Ingibjörg Ágústsdóttir, Einar Strand og Kristín Benediktsdóttir.
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason FJÖLMARGIR unglingar taka þátt í skátastarfi í Stykkishólmi. Um helgina var nýtt félagsheimili skáta í gamla Frúarhúsinu tekið í notkun.