Fræði
Vilhjálms
BÆKUR
Minningar
DUGGA FRÖNSK OG
FRAMBOÐSFUNDIR
eftir Vilhjálm Hjálmarsson. Æskan 1997, 213 bls.
VILHJÁLMUR Hjálmarsson hefur ekki setið auðum höndum undanfarin ár. Síðan 1981 hafa komið frá honum fjórtán bækur og býsna blaðsíðumargar sumar hverjar.
Nú lætur hann á prent út ganga fimm þætti.
Í fyrsta þætti segir frá strandi franskrar fiskiduggu við Dalatanga síðsumars árið 1835. Frá því strandi er allítarlega greint og því sem á eftir fór. Skipbrotsmenn dvöldust nokkra daga á bæjum í grennd. Skipti engum togum að með skipstjóra, ungum og fríðum fransmanni og ungri heimasætu tókust ástir. Var svo um talað að hann kæmi ári síðar að vitja meyjarmála. Við það stóð hann. En þá var unga stúlkan horfin af þessum heimi. Hafði drukknað í sjóslysi nokkru áður.
Annar þáttur nefnist Fundir og ferðastjá. Þar segir frá framboðsfundum í kjördæminu og ýmsu skrítnu og spaugilegu sem þar bar við.
Fagradalsbraut hornreka á Alþingi, bitbein í Héraði nefnist þriðji þátturinn. Þar er rakin löng saga þess að tengja Hérað sjó með vegagerð. Sýndist þar lengi sitt hverjum uns lagður var vegur um Fagradal.
Fjórði þáttur nefnist Sandar og vötn í Skaftafellssýslu. Þar fjallar um brúar- og vegagerð á söndum syðra og tengingu hins svonefnda Hringvegar.
Í síðasta þætti, Grýttar götur, segir frá vegagerð í Mjóafirði.
Eins og sjá má fjallar meiri hluti bókar eða þrír þáttanna um samgöngumál, vega- og brúargerð. Fagradals- og Mjóafjarðarþættirnir eru gagnlegt framlag til héraðssögu. Þar eru bæði dregnar fram heimildir sem ekki eru á glámbekk og höfundur segir frá því sem hann sjálfur man og hefur tekið þátt í. Fátt nýtt kemur fram í þriðja þættinum, að ég hygg. Framboðsfundaþátturinn finnst mér sá lakasti í bókinni. Hann er lítið meira en notalegt spjall yfir kaffibolla, skemmtilegur að vísu á köflum. Í Strandþættinum er sagt frá minnisverðum atburði sem ástæða er til að hafa á prenti.
Allir þeir sem lesið hafa einhverjar af bókum Vilhjálms vita að hann skrifar vel. Málfar hans er með ágætum, oft skemmtilega austfirskt. Stíll hans er lipur og hlýr og frásögn hans andar frá sér heiðríkri mannúð. En að sjálfsögðu ræður efnið því nokkuð hversu áhugaverð lesningin verður. Bók þessi geldur þess nokkuð að tveir þáttanna eru fremur efnisrýrir. Þar hættir höfundi við að pakka lítinn hlut í miklar umbúðir.
Vel er frá þessari bók gengið að öðru leyti en því að margar myndanna eru hreint afleitlega prentaðar.
Sigurjón Björnsson
Vilhjálmur Hjálmarsson